Badmintonspilari verður skyndilega fimmtugur

Þróttmikill badmintonklúbburinn á Skagaströnd gaf einum félaga sinna skemmtilega fimmtugsafmælisgjöf síðasta mánudag. Klúbburinn hefur lengi verið mjög virkur, hittast félagar tvisvar í viku í íþróttahúsinu og reyna með sér.   Síðasta mánudag varð einn badmintonfélaginn skyndilega fimmtugur. Var það Adolf Berndsen, margir þekkja, en drengurinn hefur lengi verið búsettur hér í bæ - sumir segja frá fæðingu, aðrir lengur. Adolf þessi hefur alla tíð verið efnilegur í badminton. Hann tekur hvern leik mjög alvarlega, spilar ávallt til sigurs, sættir sig aldrei við jafntefli ... Hann leikur jafnan fullklæddur, brúkar síðbuxur, ermalanga skyrtu og elstu menn muna ekki eftir öðru en þessum sama svarta samkvæmisklæðnaði.   Leikur Adolfs byggist á stanslausri sókn. Gefur hann mótherjum sínum aldrei nokkurn grið og svo ákaft er leikið að hann bannar jafnan samherja sínum að eiga orðastað við andstæðingana - segir það trufla einbeitingu þeirra sem búa ekki yfir andlegri staðfestu og einbeitni.   Badmintonspilurum á Skagaströnd þykir ákaflega vænt um Adolf. Í tilefni afmælisins létu þeir hinn kunna teiknara Guðráð draga upp mynd. Hún hefur víðtæka skírskotun í fjölmörg og ólík hlutverk Adolfs í lífinu. Á henni má sjá golfkerru, fótbolta, sveitarfélagslurkinn, ránfugl íhaldsins, badmintonspaða, nokkur fyrirtækislógó og ekki síst hið undurfagra Spákonufell sem er í bakgrunn. Formóðir Adolfs er Þórdís spákona sem fjallið er kennt við. Hún nam land á Skagaströnd klukkan 14:39 þann 30. júní 975.   Meðfylgjandi er mynd af teikningunni. Einnig er mynd af þeim badmintonspilurum sem treystu sér til að taka þátt í mánudagsæfingunni. Adolf þekkist á því að hann er í svörtum samkvæmisfötum, stendur fyrir miðju og er með teikninguna góðu í höndunum. Smella má á myndirnar til að stækka þær.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar þriðjudaginn 20. janúar 2009 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Fjárhagsáætlun 2009 2. Bréf: a) Nes listamiðstöðvar, 15. janúar 2009. b) Skipulagsstofnunar, 7. janúar 2009. 3. Fundargerðir: a) Hafnarnefndar, 29. desember 2008 b) Sjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún 9.01.2009. c) Stjórnar byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún. 22.12.2008. d) Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 12.12.2008. 4. Önnur mál Sveitarstjóri

Afhjúpun í vændum á Skagaströnd

Ýmis mál verða afhjúpuð þann 7. febrúar næstkomandi. Þau munu án efa gjörbreyta hinu viðkvæma samfélagi okkar á Skagaströnd. Frelsunin er í nánd ...! Ekki er víst að allir verði jafn sáttir við það sem fram mun koma en nær öruggt að samfélagið þarf á þessum atburði að halda. Ný Skagaströnd í burðarliðnum?  Þorrablótið verður nánar auglýst þegar nær dregur.

68 Skagstrendingar á skíðum síðasta laugardag

Líf og fjör var í Tindastóli síðastliðinn laugardag. Fyrsta skíðaferð Umf. Fram í vetur hlaut frábæran hljómgrunn þátttakan var framar björtustu vonum. Skagstrendingar fylltu 50 manna langferðabíl og til viðbótar þurfti að fara á 4 einkabílum til þess að allir gætu komist í fjallið. Taldist okkur til að 68 Skagstrendingar hefðu mætt til leiks og besta var að allir skiluðu sér heilir og brosandi heim aftur. Að sjálfsögðu verður þessum ferðum haldið áfram á laugardögum nema annað verði auglýst. Stjórn Umf. Fram

Prjónakennsla í Kvennaskólanum

Næsta fimmtudag verður býður Textílsetrið upp á námskeið í Kvennaskólanum á Blönduósi. Kennt verður að prjóna tvær ermar á einn prjón, "tíglaprjón", ýmis uppfit og affellingar og fleira. Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Ásdís Birgisdóttir, textílhönnuður. Námskeiðið hefst kl. 20 á miðvikudagskvöldið og boðið verður upp á kaffi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.

Gettu betur í kvöld

Eftir að hafa kýlt magann yfir jól og áramót er kominn tími til að vekja heilasellurnar. Í kvöld byrjar spurningakeppnin Gettu betur í Kántrýbæ. Keppnin hefst stundvíslega klukkan 21:30. Stjórnandi, spyrill og alvaldur verður að þessu sinni Árdís Indriðadóttir, bókasafnsvörður. Hún hefur verið ansi getspök í fyrri keppnum, meðal annars sigrað einu sinni ásamt syni sínum. Yfirleitt hafa þau verið með stigahæstu liðunum. Nafni keppninnar hefur verið breytt lítilsháttar. Áður hét hún Drekktu betur og var átt við að forráðamenn keppninna fengu inni í Kántrýbæ án endurgjalds en þátttakendur sáu um að drekka upp í húsaleigu, þ.e. kaffi, kók eða eitthvað annað ... Núna er komin nokkur festa á keppnina, aðsóknin mikil og varla þörf á frekari hvatningu. Áherslan er sem fyrr á skemmtilega samkomu, góðan félagsskap og ánægulega keppni um rétt svör. Ekki spillir svo fyrir að bjórkassi er í verðlaun fyrir sigurliðið.