Kvenafrídagurinn 2010 er á mánudaginn - og allar út

Starfskonur Vinnumálastofnunar ætla að ganga út af vinnustað sínum kl. 14:25 á mánudaginn 25. október  og efna til göngu frá Stjórnsýsluhúsi. Þær bjóða allar konur á Skagaströnd velkomnar í gönguna og hvetja þær til að taka þátt í þessum degi með þeim. Þema dagsins er rauður og hvetjum þær allar konur að mæta í einhverju rauðu!  Gengið verður út Strandgötuna og til baka að Bjarmanesi þar sem starfskonur Vinnumálastofnunar bjóða upp á kaffi og meðlæti. Auður Herdís Sigurðardóttir, félagsmálastjóri talar gegn ofbeldi. Áfram stelpur! Konur gegn kynferðisofbeldi! 

Höfum við gengið til góðs?

Gæðagreinar Fræðsluskrifstofa Austur-Húnavatnssýslu stóð fyrir námskeiði í fundarsal Samstöðu á Blönduósi, miðvikudaginn 20. október 2010. Fyrirlesarar að þessu sinni voru: Helga Harðardóttir, kennsluráðgjafi og Ragnheiður Matthíasdóttir, deildarstjóri Ársskóla á Sauðárkróki. Markmið fræðslunnar var að aðstoða skóla Húnavatnssýslna við innleiðingu á Gæðagreinunum sem er íslensk útgáfa af viðurkenndri skoskri aðferð við að meta starfsemi skóla. Þrjátíu og tveir starfsmenn grunnskólanna geta nú nýtt sér þessar ágætu upplýsingar í starfi. Mynd Þátttakendur og leiðbeinandi að störfum

Opið hús í kvöld hjá Nesi listamiðstöð

Nes listamiðstöð á Skagaströnd verður með opið hús í dag, miðvikudaginn 20.október,  frá klukkan 18 til 20.  Listamenn septembermánaðar bjóða Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa í heimsókn í vinnustofur sínar þar sem þeir munu sýna það sem þau hafa verið að vinna að undan farnar vikur.  Sjö listamenn hafa dvalið hjá Nesi í september og koma þeir frá Frakklandi, Írlandi, Englandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Listamenn mánaðarins eru: Brandon Vickerd, myndhöggvari - Kanada Orla Barry, listmálari - Írlandi Michaela Gleave, innsetningar - Ástralía Rebecca Partridge, listmálari - England Heidi Schwegler, blönduð tækni - Bandaríkin Laure Vigna, myndhöggvari - Frakklandi Andrea Weber, innsetningar - Frakklandi

Tónleikar Sunnu og Jeppe í Kántrýbæ

Sunna og Jeppe verða með tónleika í Kántrýbæ á fimmtudagskvöldið klukkan 20:30. Á dagskránni verða fjölmörg lög, bæði þekkt sem og þeirra eigin. Laufey Sunna Guðlaugsdóttir ólst upp á Skagaströnd og Jeppe er danskur. Hún syngur og leikur á hljómborð en hann á gítar. Frítt er inn á tónleikana.

Gospel tónleikar á laugardaginn

Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd hefur fengið Gospelkóng Íslands, Óskar Einarsson, ásamt hljómsveit og gestasöngvurum, í lið með sér til þess að halda gospeltónleika 23. og 24. október næstkomandi.  Tónleikarnir verða haldnir á þessum stöðum um næstu helgi: Hólaneskirkju Skagaströnd, laugardaginn 23. október kl: 17:00 Miðgarði Skagafirði sunnudaginn  24. október kl: 15:00 Hvammstangakirkju sunnudaginn 24. október kl: 20:00 Stjórnandi er Óskar Einarsson Söngvarar: Kirkjukór Hólaneskirkju ásamt gestum Hljómsveit: Brynjólfur Snorrason og Jóhann Ásmundsson Kynnir: Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fyrrverandi sóknarprestur á Skagaströnd Miðaverðið er 1.500 kr fyrir fullorðna og 500kr fyrir börn á grunnskólaaldri (ath. ekki er posi á staðnum). Styrktaraðilar tónleikanna eru Menningarráð Norðurlands vestra og  Minningarsjóður um hjónin frá Vindhæli og Garði

Þjóðleikur á Norðurlandi

Þjóðleikur er stórt leiklistarverkefni sem haldið er á öllu Norðurlandi í samstarfi við Þjóðleikhúsið og fjölmarga áhugasama aðila. Verkefnið nær til alls Norðurlands, allt frá Bakkafirði til Húnavatnssýslna. Mjög góð þátttaka er á Norðurlandi en nú hafa 14 hópar sótt um þátttöku í verkefninu. En það eru: Gjörningahópurinn Orkidea frá Akureyri, Leikhópurinn list, Grunnskóli Húnaþings vestra, Grunnskóli Fjallabyggðar, Yggdrasil – Leikfélag VMA, DADDAVARTA frá Skagaströnd, Blönduskóli, Árskóli á Sauðárkróki, Öxarfjarðarskóli, Píramus og Þispa – leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík, Borgarhólsskóli á Húsavík, tveir hópar frá grunnskólum Akureyrar og síðan einn hópur frá Þórshöfn. Þrjú glæný leikrit hafa verið skrifuð fyrir Þjóðleik, höfundarnir eru: Jón Atli Jónasson, Kristín Ómarsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson sem skrifa verk í sameiningu. Næstu helgi verður námskeið haldið í Þjóðleikhúsinu fyrir leiðbeinendur hvers hóps, þar sem listrænir stjórnendur í fremstu röð verða til leiðsagnar. Leiðbeinendur munu fá kynningu á leikverkunum sem eru í boði og þeim gefst tækifæri á að hitta og ræða við höfunda leikverkana. Stefnt er á að halda tækninámskeið fyrir hópana og verður það haldið á Norðurlandi helgina 7.-9. janúar 2011. Hver hópur setur upp leiksýningu í sinni heimabyggð og frumsýnir þegar honum hentar. Helgina 1-3.apríl 2011 verður haldin lokahátíð þar sem hóparnir koma saman með sýningar sínar. Nánari upplýsingar um verkefnið veita Vigdís Jakobsdóttir vigdis@leikhusid.is sími: 899 0272, Guðrún Brynleifsdóttir gudrunb@skagafjordur.is sími: 898 9820 og Alfa Aradóttir alfaa@akureyri.is sími: 460 1237 en þær í framkvæmdaráði Þjóðleiks.

Fréttatilkynning

Þjóð til þings 12. október 2010 Borgarafundur á Sauðárkrók í dag um endurskoðun stjórnarskrárinnar Stjórnlaganefnd og Samtök sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra halda borgarafund í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, bóknámshúsi í dag 12. október frá klukkan 17:00-19.00 Fundurinn er kynningafundur um stjórnlagaþing og Þjóðfund 2010 auk þess sem kallað er eftir sjónarmiðum íbúa. Stjórnlaganefnd var kosin af Alþingi í sumar til þess að undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefndinni er ætlað að finna og leggja fram gögn fyrir stjórnlagaþing, standa fyrir Þjóðfundi um endurskoðun á stjórnarskrá, vinna úr upplýsingum frá fundinum og afhenda stjórnlagaþingi og loks að leggja fram hugmyndir að breytingum á stjórnarskránni. Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar: ,,Við viljum kynna Vestfirðingum þau áform sem eru uppi um endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Við sem stöndum að undirbúningum óskum einnig eftir því að fá að heyra sjónarmið fólks um hvernig samfélag það vill byggja. Við hvetjum Vestfirðinga til að koma á fundinn og láta rödd sína heyrast.“ Nánari upplýsingar gefur: Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi, GSM: 694-5149 berghildur@stjornlagathing.is

ÍBÚAFUNDUR um framtíð Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi.

Vegna fyrirliggjandi tillagna um niðurskurð fjárframlaga til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 hafa sveitarfélögin í Austur-Húnvatnssýslu í samvinnu við Stéttarfélagið Samstöðu, ákveðið að halda íbúafund um framtíð Heilbrigðisstofnuarinnar, þriðjudaginn 12. október n.k. kl. 17:00 í Félagsheimilinu á Blönduósi. Kröfuganga verður farin frá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi að Félagsheimilinu á Blönduósi. Lagt verður af stað frá Heilbrigðisstofnuninni kl. 16:45. Á fundinn verður heilbrigðisráðherra boðaður ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins. Framsögu á fundinum halda m.a. fulltrúi sveitarfélaganna, Samstöðu, starfsmanna Heilbrigðisstofnunarinnar og fleiri. Sýnum samstöðu og fjölmennum á fundinn.

Borgarafundur um endurskoðun stjórnarskrárinnar

Boðið er til opins borgarafundar um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Fundurinn verður haldinn á Fjölbrautarskólanum bóknámshúsi, Sauðárkróki 12. október og hefst kl. 17:00. Til fundarins er boðið af Stjórnlaganefnd og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Nefndarmenn greina frá áformum um endurskoðun stjórnarskrárinnar, frá þjóðfundi til þjóðarinnar.  Fundurinn hefur það að markmiði að sjónarmið íbúa um inntak stjórnarskrárinnar og hvernig samfélag þeir vilja byggja fái hljómgrunn. Allir eru hvattir til að mæta og láta rödd sína heyrast. Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðunni: www.thjodfundur2010.is Stjórnlaganefnd og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Sól á Skagaströnd

Dagsbirtan minnkar nú með hverjum deginum sem líður. Líklega þýðir það að nú er komið haust. Veðrið leikur þó við Skagstrendinga. Hlýtt er í lofti og sólin skín nær því upp á hvern einasta dag. Egu að síður sölna laufin á trjánum, lyngið í Borginni verður rauðleitt og skuggar leika um hlíðar. Hásjávað er þessa dagana, að minnsta kosti í Skagastrandarhöfn. Mikill sjór þýðir væntanlega meiri fiskur ... og minna land. Meðfylgjandi myndir voru teknar sólríkan fimmtudagsmorgun þegar hús og bátar brostu við upprennandi sól. Ekki er lengur spáð miðsumarshita á laugardaginn, þar brást Veðurstofa Íslands Skagstrendingum. Suðlægar áttir munu þó gæla við heimamenn og færa okkur áframhaldandi hlýindi yfir helgina og fram í næstu viku.