Málþing á Gauksmýri um Mat úr héraði

Virki þekkingarsetur býður til málþings á Gauksmýri, 28. Apríl 2011 kl. 13-17. Dagskrá þingsins verður sem hér segir: 13:00 - 13:10 Setning Sigurbjörg Jóhannesdóttir, formaður Byggðarráðs Húnaþings vestra 13:10 - 13:40 Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, Háskólinn á Hólum: Ferðaþjónusta sem bragð er að - straumar og stefnur í matarferðaþjónustu  13:40 - 14:10 Dominique Plédel. Jónsson, Slow Food: góður, hreinn og sanngjarn matur  14:10 - 14:40 Matís Guðmundur J. Guðmundsson, Beint frá Býli: Staða og framtíð í sölu Beint frá býli  14:40 - 15:10 Þóra Valsdóttir, Matís: Vöruþróun og smáframleiðsla matvæla Kaffihlé í 20 mínútur 15:30 - 15:45 Svanhildur Pálsdóttir, Hótel Varmahlíð: Skagfirska Matarkistan og ég. 15:45 - 16:00 Stella J. A. Leví og Sæunn V. Sigvaldadóttir, Sæluostur úr sveitinni 16:00 - 16:15 Gudrun Kloes og Kristín Jóhannesdóttir, Fjöruhlaðborð og Sviðamessa 16:15 - 16:30 Svava Lilja Magnúsdóttir, Brauð og Kökugerðin: Smábakarí á landsbyggðinni  16:30 - 16:45 Guðmundur Helgason, Matarvirki og Kjöthornið: Matvælavinnsla - þekking í héraði 16:45- 17:00 Pálína Fanney Skúladóttir, Spes Sveitamarkaður Grillhlaðborð Eftir málþingið ætlar Sveitasetrið Gauksmýri að taka forskot á sæluna og bjóða upp á grillhlaðborð eins og það hefur verið með undanfarin sumur við miklar vinsældir. Óskað er eftir því að fólk panti á hlaðborðið í síðasta lagi 19. apríl í síma 451 2927, eða hjá Virki þekkingarsetri í síma 455 2525. Hlaðborðið hefst kl. 18:00. Verð á mann kr. 4000,-

Sumarstörf hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd

Vinnumálastofnun á Skagaströnd leitar eftir starfsfólki í sumarafleysingar. Umsækjendur þurfa að hafa góða leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi.  Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR. Framhalds- eða háskólamenntun er kostur sem og reynsla af skrifstofustörfum.  Helstu verkefni Greiðslustofu Vinnumálastofnunar eru afgreiðsla umsókna um atvinnuleysisbætur og upplýsingagjöf.  Hlutverk Greiðslustofu er að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Á skrifstofunni á Skagaströnd starfa um 25 manna liðsheild.  Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og eða kynna sér starfsemi Vinnumálastofnunar á www.vinnumalastofnun.is  Líney Árnadóttir forstöðumaður veitir upplýsingar í síma 860 2053 og tekur við umsóknum ásamt ferilskrá á netfangið liney.arnadottir@vmst.is.  Umsóknarfrestur er til 19. apríl.

Búast má við vatnsleysi í dag.

Vegna bilunar í raflínu að vatnsveitu á Hrafndal má búast við að vatnslaust verði þegar kemur fram á daginn. Viðgerð er hafin en skorað er á fólk að spara vatn þar viðgerð er lokið. Sveitarstjóri

Málþing um uppbyggingu ferðamannastaða

Ferðamálastofa boðar til málþings fimmtudaginn 14. apríl næstkomandi á Grandhóteli í Reykjavík um uppbyggingu og skipulag ferðamannastaða. Meðal fyrirlesara verður Audun Pettersen frá Innovasjon Norge og einnig hópur innlendra fyrirlesara með þekkingu á málaflokknum.    Málþingið hefst kl. 08:30 og því lýkur kl. 11:30. Síðasta klukkutímann mun Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá Netspori stjórna umræðuhópum (Heimskaffi).  Dagskrá málþingsins má sjá á heimasíðu Ferðamálastofu, www.ferdamalastofa.is  og skráning fer í gegnum netfangið: skraning@ferdamalastofa.is fyrir kl. 14:00 miðvikudaginn 13. apríl næstkomandi. 

Góður árangur Höfðaskóla í stærðfræðikeppni

Niðurstöður liggja fyrir í undankeppni stærðfræðikeppni FNV og 9. bekkjar, en þessi keppni er samvinnuverkefni FNV og grunnskólanna á Norðurlandi vestra og í Fjallabyggð. Keppnin er styrkt af sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum sem leggja til verðlaun sem afhent verða eftir úrslitakeppnina þann 29. apríl. Alls komast 15 keppendur í úrslitakeppnina af þeim 131 sem tóku þátt. Megin tilgangur keppninnar er að auka áhuga grunnskólanema á stærðfræði og er hún fremur hugsuð sem leikur en keppni. Aðstandendur keppninnar þakka öllum 9. bekkingum fyrir þátttökuna og óska þeim sem komust í úrslit til hamingju, en listann yfir þá er að finna hér á eftir. Birna Ólíva Agnarsdóttir, Húnaþing vestra Eva Margrét, Árskóli Guðrún Anna Halldórsdóttir, Höfðaskóli Haukur Marian Suska, Húnavallaskóli Hákon Ari Grímsson, Húnavallaskóli Heba Líf Jónsdóttir, Höfðaskóli Ingi Sveinn, Árskóli Ívar Árni Róbertsson, Höfðaskóli Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir, Höfðaskóli Sigurbjörg Birta Berndsen, Höfðaskóli Sigurveig Anna, Árskóli Snæbjörg Lilja, Árskóli Sævar Freyr Freysteinsson , Varmahlíð Sævar Óli Valdimarsson, Varmahlíð Vigdís Sveinsdóttir, Árskóli Fjöldi keppenda eftir skólum:   Árskóli: 27 Blönduskóli: 8 Grunnskóli Húnaþings vestra: 17 Grunnskólinn austan vatna: 10 Grunnskólinn í Fjallabyggð: 40 Húnavallaskóli: 8 Höfðaskóli: 7 Varmahlíðarskóli: 4 Alls: 131 Fréttin er fengin frá Fjölbrautarskóla Norðurlands, www.fnv.is.

Loksins, loksins - tónleikar með karlakórnum Heimi

Núna ætla góðir grannar að koma yfir fjallið og skemmta með fjölbreyttri og líflegri söngskrá. Auðvitað er hér átt við Karlakórinn Heimir í Skagafirði sem Skagstrendingar hafa beðið eftir í allan vetur. Kórinn ætlar nú að að halda tónleika í Hólaneskirkju á Skagaströnd fimmtudaginn 14. apríl kl. 20:30. Kórinn hefur hlotið mikið lof fyrir dagskrá vetrarins og mega áheyrendur því eiga von á prýðilegri skemmtun. Miðar verða seldir við innganginn. Karlakórinn Heimir var stofnaður í lok desember árið 1927. Stofnendur hans komu flestir úr litlum kór og var hann nefndur Bændakó og starfaði í 11 ár.  Fyrstu árin störfuðu kórfélagar við mjög frumstæðar aðstæður. Það var æft heima á sveitabæjum þar sem orgel voru til staðar enda var nú ekki mikið um samkomuhús á þessum tímum. En félagsskapurinn stækkaði og áhuginn var mikill.  Til æfinga fóru menn aðallega gangandi eða ríðandi en stundum fóru þeir einnig á skíðum. Voru þessar ferðir oft hættulegar og var það augljóst að margir lögðu mikið á sig til að geta verið með í söngnum.  Fyrsti söngstjóri kórsins var Gísli Magnússon frá Eyhildarholti, á eftir honum var tónskáldið Pétur Sigurðsson og síðan Jón Björnsson, einnig tónskáld, frá Hafssteinsstöðum. Hann stjórnaði Heimi í nærri því 40 ár.  Margir aðrir söngstjórar hafa stjórnað kórnum í gegnum tíðina og þeirra er og margvígslegs fróðleik er getið í samantekt Konráðs Gíslasonar: „Söngur í 60 ár“.   Stefán R. Gíslason hefur stjórnað kórnum nær óslitið frá árinu 1985 en hefur nú tekið árshlé frá störfum.   2010-2011 er Helga Rós Indriðadóttir nú stjórnandi kórsins. Undirleikari er dr. Thomas R Higgerson á píanó.

Aðalfundur Krabbameinsfélags A-Hún í Bjarmanesi

Aðalfundur Krabbameinsfélags Austur - Húnavatnssýslu verður haldinn  miðvikudaginn 13. apríl kl. 18:00 í Bjarmanesi á Skagaströnd. Á dagskránni verða venjuleg aðalfundarstörf, kosningar og svo hressandi erindi  Hönnu Jörgensen heilsunuddara. Hún mun fjalla um stafagöngu og ætlar að taka létta æfingu á stafina með hópnum. Komið endilega með stafi ef þið eigið. Starfsemin Krabbameinsfélagsins beinist að forvörnum, fræðslu og stuðningi við þá sem greinast með krabbamein, fjölskyldur og vini þeirra. Styrkur þess felst hins vegar í fjölda félagsmanna og velvilja héraðsbúa við að taka þátt í fjáröflunarstarfssemi á vegum félagsins og styðja þannig við samborgara sína.  Mætið endilega til að kynnast stafagöngunni og sýnið stuðning við gott málefni í leiðinni. Boðið verður upp á súpu á fundinum. Minnt er á minningarkort Krabbameinsfélagsins. Allir eru velkomnir á aðalfundinn.

Kosið á laugardaginn frá 10 til 21

Á laugardaginn ganga landsmenn til þjóðaratkvæðagreiðslu um staðfestingu eða synjun á svokölluðum Icesave lögum. Á kjörseðli er spurt hvort lögin eigi að halda gildi eða falla úr gildi. Meirihluti gildra atkvæða af landinu öllu ræður úrslitum og vægi atkvæða er jafnt. Ef meirihluti svarar neitandi falla lögin úr gildi að öðrum kosti standa þau óbreytt. Á Skagaströnd verður kjörfundur í Fellsborg. Hann hefst klukkan 10 og lýkur klukkan 21. Kosning utan kjörfundar er eftir samkomulagi við Lárus Ægir Guðmundsson, hreppstjóra „ad hoc“, fram á föstudagskvöld. Skagstrendingar eru hvattir til að nýta sér kosningarétt sinn og taka afstöðu í þessu mikilvæga máli. Í hnotskurn Greidd verða atkvæði um gildi laga nr. 13/2011 sem Alþingi samþykkti 16. febrúar 2011 en forseti Íslands synjaði staðfestingar þann 20. sama mánaðar.  Lögin veita fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, heimild til að staðfesta samninga sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, svonefnda Icesave-samninga.  Samningarnir fjalla um ábyrgð íslenska ríkisins á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins. Endurgreiðslan er vegna kostnaðar ríkjanna tveggja af greiðslu innstæðutryggingar til viðskiptavina í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgð íslenska ríkisins er vegna greiðslu eftirstöðva endurgreiðslufjárhæðarinnar, verði um eftirstöðvar að ræða, og vaxta af þeim skuldbindingum. Markmið atkvæðagreiðslunnar er að fá fram afstöðu þjóðarinnar til umræddra laga eins og stjórnarskráin mælir fyrir um.  Já Upplýsingar um afstöðu þeirra sem samþykkir eru Icesave lögunum er m.a. að finna á þessari vefsíðu http://www2.afram.is. Nei Upplýsingar um afstöðu þeirra sem ósammála eru Icesave lögunum er m.a. að finna á þessari vefsíðu http://www.advice.is.

Frostrósir blómstruðu á Skagaströnd allan mars

Mars var kaldur á Skagaströnd, kaldari en janúar og febrúar og kaldari en desember og nóvember á síðasta ári. Svo kalt var í mars að frostrósir blómstruðu. Að minnsta kosti er þetta álit Veðurstofu Skagastrandar en hún veit margt sem öðrum er hulið. Hér skal greint frá nokkrum þáttum er varða veður, alþýðuskýringar og villugjörn ljóðmæli. Meðalhiti Meðalhitinn í mars var -1,6 gráður. Þetta er kaldasti mánuðurinn frá upphafi mælinga Veðurstofu Skagastrandar. Flestir nema ómálga börn muna þó annað eins. Köldustu dagar mánaðarins voru 9. og 10. mars en þá var að meðaltali -6,7 gráður. Ekki munar þó miklu því ferlega kalt var að mestu frá 7. til 25. mars og eiginlega frost allan þennan tíma, frá einni gráðu og niður í tæpar sjö. Sé litið framhjá meðaltalinu er nú ljóst að kaldast var á Skagaströnd rétt um 7:20 að morgni þess 12. Þá sýndi sjálfvirkur mælirinn -9,6 gráður. Kaldast var samfellt aðfararnótt 12. mars og svo fram eftir morgni. Frostið var á milli -7 og tæplega 10 gráður. Fróðlegt er að skoða línuritið hér sem fylgir með þessari frétt. Þar sést hvernig kuldakaflinn skiptist í tvo hluta. Fyrri hálfleikur hófst þann ellefta og entist fram yfir miðan dag þess sextánda. Þá kom smá hlé og hitinn klifraði upp í fjórar gráður og allir héldu að vorið væri komið. Nei, ekki var það svo. Í seinni hálfleik féll mælirinn féll með látum og gaddurinn náði niður í rúmlega en sex gráðu frost. Þetta var frá morgni þess átjánda og fram yfir miðjan dag þess 28. Já, þá kom vorið með semingi og styrkist það nú dag frá degi rétt eins og þegar víman rennur af fullum manni.  Vindgangur Loft flæddi með meiri meðalhraða um Skagaströnd en þekkst hefur frá upphafi mælinga, var 8,2 metrar á sekúndu (m/s). Þó muna flestir annað eins og margir telja kaldara í veðri þegar sama fer hvass vindur og mikið frost. Að mati Veðurstofu Skagastrandar þekkist slíkt víða og hafa til dæmis merkir útivistarmenn tekið eftir þessu, einnig bændur og aðrir þeir sem tíðum vinna utan dyra. Svo rammar eru þessar alþýðuskýringar á sambland vinds og frosts að jafnvel svokallaðir veðurfræðingar hafa skrifað um þær skýrslur og alkunnan sannleik að vísindum. Þó hvasst hafi verið í mars má segja að vindgangurinn hafi farið minnkandi eftir því sem leið á mánuðinn. Endaði hann í lognkjurrum birtudögum síðustu fjóra daganna en smaug vorið inn eins og kunnugt er. Hvassast var 14. og 15. mars eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti. Þó var meðaltalið þann fjórtánda aðeins 16,8 m/s og 15,9 m/s daginn eftir. Í hviðunum rauk’ann upp í mest 22 m/s. Þetta þykir nú ekki mikið enda er búist við að ekki verði tiltakanlega hvasst í apríl. Veðurstofan ræður það af draumförum spakra Skagstrendinga.  Vindáttir Þó vindur hafi legið legið í suðlægum áttum allan mánuðinn var meðalhitinn aðeins -1,6 gráða. Það þýðir einfaldlega að ofan á skattahækkanir og margvísleg landsbyggðargjöld og álögur stjórnvalda fyrir sunnan kemur í þokkabót frost og hvassvirði frá suðvesturhorni landsins. Þykir Veðurstofu Skagastrandar nú tími til kominn að stemma stigu við þessum ófögnuði. Vindrósin, á meðfylgjandi mynd, sýnir svo ekki verður um villst að’ann hefur legið meira eða minna í suðvestanátt allan mánuðinn. Iðulega syngja góðglaðir „Nú andar suðrið sæla vindum þýðum ...“ en vér á Skagaströnd segjum; Ei meir, nú er nóg komið af suðlægum vindgangi og samfarandi frosti.  Nauðsynlegt er að geta þess hér að Veðurstofa Skagastrandar hóf starfsemi sína þann 8. nóvember 2010. Starfsmenn hennar eru nokkrir, einn sem les af sjálfvirkum mælum og hleður upplýsingum í Excel, tveir til þrír draumspakir sem vinna yfirleitt á nóttunni og nokkrir sem hlusta á tal manna í kaffistofum og ber upplýsingar í þann sem les af sjálvirkum mælum. Þannig fæst gleggri mynd af veðurfari á Skagaströnd en aðrar veðurstofur geta mælt og spárnar verða einnig afar ábyggilegar. Til dæmis má geta þess að í langtímaspá fyrir Skagaströnd er gert ráð fyrir að í sumar rigni sjaldan, sól skíni oft og hitastigið verði vel fyrir ofan frostmark. Meðfylgjandi ljósmynd var send til Veðurstofu Skagastrandar frá veðurskipinu Bravó og sýnir vorið í upphafi apríl og hægra megin við það er brunahaninn sem er eitt gleggsta veðurviðmið á Skagaströnd.

Fjölmenni fylgist með ástarleik andanefja í Skagastrandarhöfn

„Mér brá alvega gasalega þegar ég leit út um gluggann í morgun, ég hreinlega gargaði. Sjórinn ólgaði svo rosalega að ég hreinlega vissi ekki hvað væri að gerst, en svo kom ég auga á sporðaköstin og áttaði mig á því að hvalir voru komnir í höfnina,“ sagði Þórey Jónsdóttir, hafnarvörður á Skagaströnd. „Ég veit ekki hvort það þýðir nokkuð að rukka þá um hafnargjöld,“ bætti hún við og hló. Að sögn Þóreyjar hafa hvalirnir verið ærslafullir, stokkið upp úr sjónum, synt mjög hratt, ýtt aðeins við bátum og skipum, sem ekki eru enn farin til veiða, og verið þess á milli afar gæfir og jafnvel tekið við fiskmeti sem kastað hefur verið til þeirra. „Þeir láta eiginlega eins þeir séu í einkasundlaug,“ sagði hún. Hafþór Hauksson, sjávarlíffræingur hjá Hafrannsóknarstofnun sagði í spjalli að samkvæmt lýsingu Þóreyjar væru þetta að öllum líkindum andanefjur. „Það er sjaldgæft að andanefjur sæki í hafnir landsins á þessum árstíma enda er þetta einfaldlega fengitími andanefja. Þó er það ekki algilt því fyrir nokkrum árum gerði þessi hvalategund sig heimakomna í Pollinum á Akureyri og stundaði álíka iðju og hún gerir núna í Skagastrandarhöfn.“ Hafþór segir að lýsing Þóreyjar passi mjög vel við það sem hvalasérfræðingar vita um ástarlíf andanefja. „Ástarbríminn er mikill leikur og ærsl en eftir nokkur mikil stökk hefst forleikurinn. Hann er einstaklega tilkomumikil sjón. Og ekki er síðra þegar kemur að sjálfri eðluninni. Hún er afar ólík því sem aðrar hvalategundir iðka. Tarfurinn syndir hægt en virðulega á bakinu, kýrin leitar þá ofan á hann og takist þeim að ná saman svamla þau rólega um sjóinn þar til fullkomnun þeirra er náð.“ Þórey sagði að rétt eftir klukkan átta í morgun hafi andanefjurnar stokkið hvað hæst en nú sé öllu rólegra yfirbragð á sundi þeirra. Samkvæmt sjávarlífræðingnum hlýtur ástæðan sú að eðlunin sé í þann mund að hefjast. Fiskisagan, eða öllu heldur hvalasagan, hefur flogið um Skagaströnd. Talsverður fjöldi fólks er nú úti á Sægarði og fylgist af miklum áhuga með ástarleik andanefjanna. Þórey vill hins vegar koma því á framfæri að nú sé allur akstur einkabifreiða fram bryggjurnar bannaður og hvetur hún fólk til að koma gangandi og trufla ekki vinnandi fólk. Síðar í dag verða birtar myndir hér á vefnum af því sem gerist á í höfninni.