Hjallastefnumál - samantekt

Á fundi sveitarstjórnar 19. maí sl. var fjallað um Hjallastefnuna og að frekara ferli samninga um leikskólann Barnaból hafi verið frestað fram yfir sveitarstjórnarkosningar. Á fundinum var sveitarstjóra falið að taka saman skýrslu um feril málsins til að skýra aðdraganda þess og umfjöllun. Í skýrslunni sem er aðgengileg á heimasíðunni er leitast við að rekja hinn formlega feril málsins í tímaröð. Skýrsluna má finna hér.

Grein frá Halldóri G. Ólafssyni

Ágætu Skagstrendingar, ég óska ykkur og okkur öllum til hamingju með það að fá tækifæri til að nýta kosningaréttinn þann 31. maí næstkomandi. Ég býð mig fram til áframhaldandi vinnu í ykkar þágu næsta kjörtímabil enda hafa síðastliðin átta ár verið afar lærdómsrík og í flestum tilfellum skemmtileg. Ég tel afar mikilvægt að innan sveitarstjórna sé fólk sem hefur öðlast reynslu og þekkingu á sveitarstjórnarmálum. Það segi ég fyrst og fremst vegna þess að mér hefur lærst að oft eru mál ekki eins einföld og sjálfsögð eins og þau virðast við fyrstu sýn, því jafnvel í litlu sveitarfélagi eins og okkar þarf stjórnsýslan að vera hin sama og í stærri samfélögum. Flestir sem hafa starfað að sveitarstjórnarmálum eru sammála um að það taki að minnsta kosti eitt kjörtímabil að komast inn í hvernig stjórnsýslan virkar og um hvað verkefni og skyldur sveitarfélaga í raun snúast. Það er auðvitað jafnframt mikilvægt að í sveitastjórnum sé um einhverja endurnýjun að ræða og ekki síður að til starfa veljist jákvætt, víðsýnt og samfélagslega sinnað fólk með fjölbreytta reynslu úr atvinnu- og félagsmálum. Ég tel að með því að veita Skagastrandarlistanum brautargengi í komandi kosningum sé verið að velja fólk í sveitarstjórn sem hefur einmitt þessa eiginleika. Enda má sannarlega halda því fram að þið, kjósendur á Skagaströnd, hafið stillt upp í efstu fimm sæti listans. Við val á listann var leitast við að nota eins opið og lýðræðislegt ferli og mögulegt var. Niðurstaðan var sú að rúmlega 40% af kosningabæru fólki á Skagaströnd tók þátt í uppstillingu listans. Öllum stóð til boða að bjóða sig fram, allir höfðu rétt til að kjósa og allir höfðu tækifæri til þess að hafa áhrif á hvernig staðið var að kosningunni. Allt var þetta framkvæmt á þremur opnum borgarafundum. Þið svöruðuð kallinu og sýnduð að þið hafið áhuga á samfélaginu okkar enda full ástæða til. Fólkið á Skagastrandarlistanum vinnur nú að því að koma stefnumálum sínum á framfæri. Okkur finnst að þið eigið að eiga kost á því að hlýða á málflutning okkar. Við höfum því formlega farið þess á leit við oddvitaefni mótframboðsins að haldinn verði sameiginlegur framboðsfundur þar sem bæði framboðin kynna sín mál og ykkur gefst kærkomið tækifæri að leggja fram fyrirspurnir og fá svör við spurningum ykkar. Hlakka til að eiga við ykkur orðastað xHalldór Gunnar Ólafsson

Framlengdur frestur vegna kostnaðarþátttöku í ofnakaupum

Á fundi sveitarstjórnar 19. maí sl. var fjallað um kostnaðarþátttöku vegna hitaveituvæðingar sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 26. mars 2013. Samþykkt um kostnaðarþátttökuna gerði ráð fyrir að hún félli úr gildi 1. júní 2014. Sveitarstjórn ákvað að gildistími samþykktarinnar verði framlengdur til 1. september 2014 og jafnframt að húseigendur utan þess svæðis á Skagaströnd sem býðst hitaveita geti fallið undir skilgreiningu um kostnaðarþátttöku í kaupum á ofnum fyrir vatnshitakerfi. Samþykktina má finna hér.

Samningi við Hjallastefnu um leikskólann frestað

Á fundi sveitarstjórn 19. maí sl. var m.a. tekið fyrir bréf Magrétar Pálu Ólafsdóttur um Hjallastefnu. Með bréfinu þakkar Margrét Pála bæði sveitarstjórn, skólafólki og foreldrum á Skagaströnd fyrir umræður um skólamál á liðnum vetri og einnig fyrir þann áhuga sem fjölmargir aðilar hafa sýnt á samstarfi við Hjallastefnuna. Með vísan til þess að kosningar standa fyrir dyrum í sveitarfélaginu telji hún mikilvægt að ný sveitarstjórn hafi frjálsar hendur um málefni skólasamfélagsins á næstu fjórum árum. Því telji hún rétt að Hjallastefnan dragi sig i hlé og óskar öllu skólasamfélaginu gæfu og gengis. Fylgiskjal með bréfi Margrétar Pálu var bréf með niðurstöðum skoðanakönnunar sem foreldrafélög leikskóla og grunnskóla létu gera. Þar kemur fram að meirihluti foreldra leikskólabarna vilja Hjallastefnuna inn í leikskólann. Sveitarstjórn lýsti vonbrigðum með að ekki hefði tekist að ljúka samningagerð við Hjallastefnuna en fram kom að í ljósi þess hve skammt er til sveitarstjórnarkosninga er sveitarstjórn sammála því sjónarmiði að réttara sé að ný sveitarstjórn taki ákvörðun um slíkan samning. Sveitarstjórn lýsti sérstakri ánægju með framtakssemi og dugnað foreldrafélaga skólanna við gerð skoðanakönnunar meðal foreldra.

Kjörskrá vegna sveitarstjórnakosninga

Kjörskrá vegna sveitarstjórnakosninga þann 31. maí 2014 liggur frami á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar frá 19. maí til kjördags. Kjörskrárstofninn miðast við þá sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 10. maí 2014. Sveitarstjóri

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar mánudaginn 19. maí 2014 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: Kjörskrá v. sveitarstjórnarkosninga 2014 Samþykkt um kostnaðarþátttöku vegna hitaveituvæðingar Atvinnuþróunarsjóður Stofnsamningur um félag vegna ferðaþjónustu Bréf Margrétar Pálu Ólafsdóttur, dags. 16. maí 2014 Fræðsluskrifstofa Skagafjarðar og A-Hún, dags. 5. maí 2014 Djásn & Dúllerís, dags. 15. maí 2014 Fundargerðir: Stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitafélaga, 12.05.2014 Önnur mál Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Fjölskyldan á Jaðri . Hjónin Björn Sigurðsson (d. 5.10.1999) og Elísabet Frímannsdóttir (Beta) (d. 1.9.1990) með börnin sín fyrir utan heimili þeirra að Jaðri (Neðra Jaðri). Börnin eru frá vinstri: Kristín Björnsdóttir (Dídí), Guðmundur Jón Björnsson, Hallbjörn Björnsson og Sigurður Björnsson.

Innritun fyrri tónlistarskólann á Skagaströnd

Innritun fyrri tónlistarskólann á Skagaströnd fer fram í dag fimmtudaginn 15. maí kl.16-18. Viljið þið vera svo væn að deila þessu svo þetta berist sem víðast. Þeir foreldrar sem innrituðu börnin sín í foreldraviðtölum þurfa ekki að gera það aftur. Tónlistarskóli A-Hún.

Nýr fiskibátur til Skagastrandar

Vík ehf útgerð hefur endurnýjað fiskiskipið Öldu HU 112 með kaupum á Kristni II SH 712 sem er 13 m langur og 14,92 tonna yfirbyggður plastbátur. Kristinn II er smíðaður hjá Trefjum ehf 2006 og í alla staði mjög vel útbúinn. Báturinn kom til heimahafnar á Skagaströnd í gær en hann er reyndar ekki ókunnugur í höfninni því hann hefur verið gerður út frá Skagaströnd hluta úr árinu undanfarin ár. Báturinn mun hljóta nafnið Alda og verður með skráningarnúmerið HU 112. Skipstjóri á bátnum verður Jóhann Sigurjónsson.

Nýtt framboð Ð-listinn - Við öll

Nýtt framboð Ð-listinn, fékk samþykktan framboðslista tíu frambjóðenda laugardaginn 10. maí, til sveitarstjórnarkosninganna 31. maí 2014. Einkennisorð listans og heiti hans er Við öll. Í fréttatilkynningu frá Ð-listanum segir að um sé að ræða hóp fólks sem vill tryggja öllum íbúum Skagastrandar raunverulegan valkost á því að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að ganga til kosninga í vor. „Ljóst má vera að framtíð bæjarins er í höndum bæjarbúa allra og því er áhersla framboðsins að samfélagið skuli byggja á algeru gagnsæi stjórnsýslunnar, góðu siðferði og stóraukinni þátttöku íbúa Skagastrandar í stjórnsýslu sveitafélagsins,“ segir í tilkynningunni. Framboðslisti Ð-listans er skipaður eftirtöldum einstaklingum: 1. Steindór Haraldsson, framleiðslustjóri 2. Inga Rós Sævarsdóttir, fulltrúi 3. Kristín Björk Leifsdóttir, háskólanemi 4. Guðlaug Grétarsdóttir, leikskólakennari 5. Eygló Amelía Valdimarsdóttir, snyrtifræðingur 6. Súsanna Þórhallsdóttir, húsmóðir 7. Kristín Birna Guðmundsdóttir, fulltrúi. 8. Þröstur Líndal, bóndi 9. Sigríður Þórunn Gestsdóttir, húsmóðir. 10. Hallbjörn Björnsson, rafvirkjameistari