Mynd vikunnar

Hafís 1965. 15. apríl 1965 birtist heilsíðugrein í Morgunblaðinu með nokkrum myndum. Myndirnar og greinin voru eftir Þórð Jónsson(d. 25.12.2010) fréttaritara blaðsins á Skagaströnd á þessum tíma, sem farið hafði í netaróður með Vísi Hu 10 frá Skagaströnd. Þetta vor var hafís á Húnaflóa sem gerði útgerð mjög erfiða. Myndin er skönnuð úr Morgunblaðinu og gæðin eru eftir því. Á þessari mynd eru karlarnir um borð að reyna að stjaka ísnum frá svo þeir komist á miðin. Það var mikilvægt að komast í netin því bæði fiskaðist vel og svo var líka mikil hætta á að ísinn sliti baujurnar af netatrossunum eða hreinlega tæki þær með sér þannig að þær fyndust aldrei aftur.

Rafmagnslaust í nótt

Straumlaust verður í ca. 10 mínútur í nótt, aðfararnótt 20. febrúar á Skagaströnd, í nágrenni rafstöðvar og nokkrum húsum við Ægisgrund og Strandgötu. Gert er ráð fyrir að þetta verði milli kl. 12 og 1 Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Norðurlandi í síma 528 9690 Steingrímur Jónsson

Mynd vikunnar

Höfnin 1949. Á þessari merkilegu mynd sést innrásarkarið sem keypt var til Skagastrandar til að nota í hafnargarðinn (Útgarð). Karið kom hingað í júlí 1948 og var þá sett í geymslu þarna sem sést á myndinni. Í desember brotnaði karið og ef myndin er skoðuð vel sést að karið er brotið í tvennt. Karið var síðan notað til að lengja hafnargarðinn eftir mikið japl og jaml og fuður. Þar hefur það verið til endalausra vandræða því það misseig og á það komu göt neðan við sjávarmál. Einnig hefur komið í ljós að verksvik hafa verið stunduð við smíði þess því járnið, sem átti að binda sem stoðgrind í veggjum karsins, var bara skellt í stórum búntum ofan í steypuna og gerði því lítið gagn. Báturinn á myndinni, sem er að koma úr róðri, er Stígandi Hu 9 sem var í eigu Bjarna Helgasonar frá Holti

Frístundakort fyrir grunnskólanema

Minnt er á að til þess að nýta frístundakort vegna ársins 2014 þarf að framvísa reikningum vegna tómstundastarfsins. Skil á gögnum vegna frístundaþátttöku síðastliðins árs er í síðasta lagi 27. febrúar 2015. Eftir það fellur réttur til frístundakorts 2014 niður. Foreldrar barna með lögheimili á Skagaströnd eiga rétt á 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn á grunnskólaaldri, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Frístundakortin taka gildi 1. janúar ár hvert og gilda í eitt ár.

Mynd vikunnar

Birgir á Blíðfara Birgir Árnason (d. 2.2.2005) í Straumnesi gerði út á grásleppu í mörg ár á bát sínum Blíðfara Hu 27, einkum á miðunum sunnan við Skagaströnd. Hann var áður m.a. verkstjóri á síldarplönum bæði á Skagaströnd og annarstaðar, hafnarvörður Skagastrandarhafnar í mörg ár og formaður slysavarnadeildarinnar í nokkur ár. Birgir var hæfileikamaður á mörgum sviðum en skapríkur og rakst ekki allaf vel í hópi en var tryggur vinur vina sinna og höfðingi heim að sækja. Hann eignaðist þrjú börn, Búa Þór (d. 18.9.2009), Árna Björn og Eyrúnu með konu sinnI Ingu Þorvaldsdóttur (d. 14.12.2012) en þau bjuggu í áratugi í Straumnesi á Skagaströnd.

Leikskólastjóri óskast

Lífsglaður og jafnréttissinnaður leikskólakennari Leikskólinn Barnaból á Skagaströnd auglýsir eftir leikskólastjóra með leikskólakennaramenntun til að stýra leikskólanum. Leikskólinn Barnaból er hluti af Hjallastefnufjölskyldunni og við leitum að jákvæðum einstaklingi sem er tilbúinn að tileinka sér starfshætti Hjallastefnunnar að metnaði, gleði og kærleika. Viðkomandi þarf að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og hafa brennandi áhuga á jafnrétti og lýðræði í leikskólastarfi. Skólar Hjallastefnunnar starfa að sameiginlegum markmiðum eftir sömu hugmyndafræði en sjálfstæði hvers skóla er mikið. Jafnréttisuppeldi, skapandi hugsun, félagsþjálfun og einstaklingsstyrking eru innviðir hugmyndafræðinnar sem við teljum að geti skipt sköpum í þroska komandi kynslóða. Við hvetjum karla jafnt sem konur til að sækja um, áhugasamir hafi samband við Þorgerði Önnu leikskólastýru á netfangið thaa@hjalli.is eða í síma 8240604.

Mynd vikunnar

Bankastræti í byggingu Þessi mynd var tekin einhverntíma á árunum 1945 - 1950. Þá var mikill uppgangstími á Skagaströnd og allmikið byggt af íbúðarhúsnæði. Þessi mynd var tekin af höfðanum yfir Bankastrætið þar sem sjá má fjögur hús í byggingu. Næst okkur til hægri er komin neðri hæðin af Bankastræti 9 en í því húsi eru tvær íbúðir. Svarta húsið næst því, þeim megin við götuna, eru Flankastaðir eða Bankastræti 7. Þetta hús var rifið og nýtt hús byggt á sama stað. Þá koma Kárastaðir - Bankastræti 5 - og þegar myndin var tekin hafði nýlega verið byggt ofan á húsið og það gert tveggja hæða. Fjórða húsið í þessari röð er svo Stórholt eða Bankastræti 3 orðið fokhelt. Í því húsi eru þrjár íbúðir. Vinstra megin við Bankastrætið, næst okkur, eru fjárhús og hlaða sem tilheyrðu Flankastöðum. Þar fyrir aftan er Höfðabrekka - Bankastræti 10 - í byggingu og handan við það er verið að byggja Bjarnarhöfn - Bankastræti 8. Nær höfðanum ofan við Höfðabrekku sér í fjós sem tilheyrði Kárastöðum. Húsið framan við Höfðabrekku er óþekkt og löngu horfið. Höfðakot er húsið sem er lengst frá okkur vinstra megin við götuna ásamt áföstum fjárhúsum. Vinstra megin við Stórholt er Skálholt en það hús stendur við Skagaveg. Hin húsin sem standa við Skagaveg eru Þórshamar, Þórsmörk og Héðinshöfði, sem sést bara hálfur á þessari mynd. Hinum megin við Skagaveginn er Bjarmaland. Húsið sem stendur eitt og sér lengst til hægri er Gunnarshólmi sem oft var kallað Grafarbakki því nærri því voru gamlar mógrafir. Húsið sem ber yfir Kárastaði er annað hvort Sólheimar eða Valhöll en þau bæði eru löngu horfin. Götumyndin sem blasir við frá sama stað af höfðanum í dag er gjörbreytt en það getur verið gaman að bera hana saman við þessa gömlu mynd.

Veitingahúsakvöld á Borginni sl. fimmtudag

Nemendur í 9. og 10. bekk Höfðaskóla héldu veitingahúsakvöld á Borginni sem fjáröflun fimmtudagskvöldið 29. janúar s.l. Verkefnið var unnið í samstarfi við Þórarinn Ingvarsson (Tóta) vert á Borginni og Markús Inga Guðnason kokk á Borginni. Hugmyndin kviknaði í kolli Tóta, en hann hafði unnið svipað verkefni á Mývatni. Erum við honum afar þakklát fyrir að leyfa okkur að framkvæma þessa hugmynd. Til að byrja með þurfti að skipuleggja þetta verkefni, haldinn var fundur með Tóta þar sem matseðill var útbúinn og verkefnum skipti milli nemenda. Ákveðið var að láta veitingastaðinn heita Borgin besta. Helmingur hópsins ætlaði að sjá um eldhúsvinnuna og helmingur um salinn. Matseðillinn var þannig uppbyggður að í boði voru 2 forréttir, 2 aðalréttir og 2 eftirréttir. Útbúin var auglýsing sem dreift var á Skagaströnd og í Skagabyggð. Áhugasamir þurftu síðan að panta veitingar fyrirfram. Daginn fyrir veitingahúsakvöldið var farið í Borgina, maturinn undirbúinn, salurinn teiknaður upp og raðað í sæti og hnífapör og glös pússuð. Á stóra deginum mættu nemendur kl. 14.30 og hófust handa við sín verkefni. Fólk fór að streyma að uppúr 18.30 og kl. 19. 00 byrjaði samkoman. Nemendur stormuðu fram og sungu kynningu á matseðlinum við mikinn fögnuð gesta: Humarsúpa og grafin gæs í forrétt. Færir gleðibros á mey og svein. Lambið litla kætir alltaf einhvern líkt og kjúklingur á grænni grein. Eftirrétturinn eplakaka er, eða pannacotta sæt. Setjumst hér að borðum kætumst svo með orðum, um eilífð vakir fögur minningin (Lag: Hafið bláa hafið, texti: Trostan Agnarsson) Því næst var þriggja rétta máltíðin borin fram með tilþrifum og stóðu kokkar og þjónar sig með stökustu prýði. Fólk var almennt ánægt með veitingarnar og þjónustuna en alls komu 75 gestir til okkar og var það fram úr okkar björtustu vonum. Við erum gestum okkar afar þakklát fyrir komuna. Öll innkoma kvöldsins rennur óskipt í ferðasjóð skólafélagsins Ránar, en Þórarinn gaf okkur allt hráefni, vinnuframlag sitt og Markúsar og leyfði okkur að stjórna Borginni eitt kvöld. Takk kærlega fyrir okkur. Fyrir hönd nemenda, Páll 10. bekk, Elín Ósk og Valgerður Guðný 9. bekk.

Styrkir til atvinnumála kvenna

Fréttatilkynning Styrkir til atvinnumála kvenna 2015 Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna vegna ársins 2015. Styrkir þessir eru veittir af velferðarráðherra og er markmið þeirra að efla atvinnulíf og auka aðgengi kvenna að fjármagni. Til ráðstöfunar að þessu sinni eru 35 milljónir og er hámarksstyrkur kr. 3.000.000. Ráðgjafanefnd metur umsóknir og er umsóknarfrestur til og með 16.febrúar. Styrkhæf verkefni skulu vera í eigu kvenna (amk 50%) og stjórnað af konum og skulu fela í sér atvinnusköpun til frambúðar. Um nýnæmi skal vera að ræða og kröfur eru gerðar um að verkefni skekki ekki samkeppnisstöðu á markaði. Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar, áætlanagerðar, þróunarkostnaðar og markaðssetningar (innanlands og erlendis). Auk þess geta konur sem hafa nýlega stofnað fyrirtæki eða eru að stofna fyrirtæki, sótt um styrk til að koma fyrirtækinu í framkvæmd (launastyrkur). Með þeirri umsókn þarf að fylgja fullgerð viðskiptaáætlun. Ekki eru veittir styrkir vegna stofnkostnaðar, framkvæmda, stærri fjárfestinga né rekstrarstyrkir. Vakin er athygli á því að styrkir eru skattskyldir og þarf að telja fram kostnað á móti. Ekki eru veittir hærri styrkir en sem nema helming kostnaðar við verkefni en þetta á þó ekki við um gerð viðskiptaáætlunar. Atvinnumál kvenna kynnir einnig nýtt kynningarblað þar sem viðtöl eru við þá styrkhafa sem hæstan styrk hlutu árið 2014 og má finna blaðið hér: http://en.calameo.com/read/003138568ad6fcdf3bb8b Nánari upplýsingar um styrkina má finna á heimasíðu verkefnisins www.atvinnumalkvenna.is Atvinnumál kvenna á Facebook https://www.facebook.com/atvinnumalkvenna Atvinnumál kvenna á linkedin https://www.linkedin.com/groups?home=&gid=3755265&trk=my_groups-tile-grp Atvinnumál kvenna á twitter https://www.linkedin.com/groups?home=&gid=3755265&trk=my_groups-tile-grp

Hrognkelsið er enginn silakeppur

Á fimmtudaginn næstkomandi kl 12:30 mun verða hægt að fylgjast með fyrirlestri um hrognkelsi í Námstofu sveitarfélagsins Skagastrandar í Gamla Kaupfélaginu. Við ætlum að tengjast í gegnum fjarfundabúnað og því geta áhugasamir komið og fylgst með. Verið velkomin Málstofa 29. janúar kl. 12:30 James Kennedy, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, flytur erindi sem nefnist: Hrognkelsið er enginn silakeppur: göngur, lóðrétt far og veiðistjórnun á hrognkelsi við Ísland. Erindið verður flutt (á ensku) kl. 12.30 í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð á Skúlagötu 4. Í erindinu verður fjallað um umfangsmiklar merkingarannsóknir á grásleppu sem Biopol á Skagaströnd og Hafrannsóknastofnun hafa staðið að um árabil. Notuð voru hefðbundin fiskmerki en einnig rafeindamerki sem geta safnað ítarlegum upplýsingum um hitastig og dýpi sem fiskurinn heldur sig á. Meðal annars kemur fram að hrognkelsi eru fær um að synda töluverðar vegalengdir á dag og þá stunda þau einnig lóðréttar dægurferðir. Auk merkingarannsókna verður fjallað um aðferðir sem beitt er við stjórnun veiða á hrognkelsi en hrognkelsaveiðar hafa verið stundaðar við Ísland um árabil aðallega vegna grásleppuhrogna. Ágrip Cyclopterus lumpus is no lazy lump: migration, vertical activity and management of lumpfish in Iceland Female lumpfish are targeted for their roe when they migrate to coastal areas around Iceland in spring to spawn. To better understand their movements and vertical activity at this time, a large tagging program was started in 2008 by Biopol which was extended in collaboration with MRI to include tagging during the Icelandic spring groundfish survey (IGFS) and the use of data storage tags (DSTs). Between 2008 and 2014, 9710 female lumpfish were tagged, including 121 with DSTs. Lumpfish showed extensive movements with fish tagged in coastal areas being recaptured up to 587 km from their tagging location and were capable of swimming up to 49 km day-1. Fish were most frequently caught in the area in which they were tagged; however, movement between areas was common. Very few fish were caught after 1 year at liberty possibly due to tag loss. DSTs revealed that lumpfish were active within the water column, with vertical movements of several hundred meters being common and vertical speeds of 15 cm s-1. Data from both DSTs and IGFS indicate diel vertical migration in lumpfish. Landings have varied over time and reached a peak in the 70s and 80s which was followed by a sharp decline in the biomass index. Biomass index and abundance of large fish (>45 cm) is still at a low level in comparison with the early 80s. Fishing is primarily regulated using input controls, however, the number of boats which will participate is unknown when days at sea is decided, thus keeping catches below the TAC recommendation may be problematic if participation increases.