18.11.2010
Mikil jólastemning er í galleríinu Djásn og dúllerí á Skagaströnd og þar er fallegt handverk af ýmsum toga á boðstólum.
Eftir að hafa skoðað fjölbreytt úrval sýningarmuna er notalegt að tylla sér með kaffibolla í stássstofunni og ylja sér við snarkandi arineld, hlusta á jólatónlist eða líta í bók. Þá verður öðru hvoru lifandi tónlist í boði en það verður nánar auglýst síðar.
Aðstandendur Djásna og dúllerís bjóða alla velkomna í heimsókn. Opið er frá kl. 14 - 18 alla laugardaga og sunnudaga til jóla. Einnig verður opið á Þorláksmessu frá kl. 14 - 21.
Söluvörur eru fjölbreyttar og er best lýst í eftirfarandi vísu:
Málverk, bjöllur, myndir, prjón,
möndlur, gler og sokkar.
Gjafavara gleður sjón
í galleríi okkar.
18.11.2010
Undanfarna mánuði hafa staðið yfir framkvæmdir í gamla samkomuhúsinu (Tunnunni) á Skagaströnd á vegum Spákonuarfs, en félagið eignaðist húsnæðið nú í sumar.
Þegar er búið að einangra veggi og loft og er langt komið að klæða veggi. Í framhaldinu verða gólf, gólfefni ,raflagnir og vatnslagnir endurnýjaðar. Tveir iðnaðarmenn hafa unnið við verkið og bætast fleiri við á næstunni.
Hönnun leikgerðar og innra skipulags er unnin í samráði við Ernst og Ágústu Bachman sem stofnuðu og starfrækja Sögusafnið/leikmyndagerð en þau eru einnig eigendur og höfundar að Sögusafnininu í Perlunni.
Samstarfið við Ágústu og Ernst hefur staðið um nokkurn tíma en á vordögum afhentu þau Spákonuarfi afsteypu af Þórdísi spákonu sem verður hluti af sýningunni.
Áformað er að opna Spákonuhofið og Þórdísarstofu næsta sumar.
Síðastliðið sumar sá Spákonuarfur um sýningarhald í Árnesi. Aðsókn var góð gestir vel á annað þúsund. Jafnframt því að sinna sýningarhaldi var boðið upp á spádóma og sölu á handverki.
Á Kántrýdögum í sumar varð að fjölga spákonum og tókst gott samstarf um það við Töfrakonur í Húnavatnshreppi. Enginn vafi er á að áhugi fyrir spádómum er mikill og fer vaxandi.
Þórdísargöngur á Spákonufell eru orðnar fastur liður í starfi félagsins og er áhugi manna að ganga á Spákonufellið vaxandi. Þannig hafa í ár um 180 manns ritað nafn sitt í gestabók sem staðsett er á „toppnum“.
Spákonuarfur áformar í vetur að gefa út sögu Þórdís spákonu sem rituð er af þeim spákonum Sigrúnu Lárusdóttir, Dagnýju M.Sigmarsdóttir og Svövu Sigurðardóttir. Sagan verður skreytt teikningum eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson.
18.11.2010
Á fundi sveitarstjórnar 17. nóvember sl. var samþykkt að bjóða, eins og undanfarin ár, frístundakort sem nemi allt að 15 þúsund krónum fyrir hvert grunnskólabarn sem tekur þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Ákvörðun um frístundakort gildir frá 1. september 2010 til 31. ágúst 2011.
Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám.
Síðasti greiðsludagur vegna tímabilsins er 15. september 2011
16.11.2010
Golfklúbbur Skagastrandar er 25 ára í nóvember og í tilefni þess var haldið afmælishóf í Kántrýbæ síðasta laugardagskvöld. Klúbburinn var stofnaður þann 27. nóvember 1985 og nefndist í upphafi Golfklúbbur Vindhælishrepps hins forna.
Tveir heiðursfélagar voru útnefndir, Jón Ólafur Ívarsson og Hjördís Sigurðardóttir en bæði hafa verið óþreytandi í golfiðkun sinni og lagt sitt af mörkum fyrir klúbbinn.
Haukur Örn Birgisson, varaforseti Golfsambands Íslands, sæmdi þrjá félagsmenn gullmerki sambandsins fyrir vel unnin störf í þágu golfklúbbsins um árabil. Þau voru Adolf H. Berndsen, Dagný M. Sigmarsdóttir og Ingibergur Guðmundsson en öll hafa þau m.a. verið formenn klúbbsins. Auk þeirra hafa Bjarnhildur Sigurðardóttir og Fríða Hafsteinsdóttir gegnt formannsstöðunni. Einnig afhenti Haukur golfklúbbnum fallegan bikar í tilefni afmælisins.
Afmælishátíðin þótti takast afar vel og þrátt fyrir að veður hafi verið slæmt fyrr um daginn mættu fjölmargir golfarar. Meðal skemmtiatriða var slagverksspil tveggja ungra stúlkna, Sigurbjargar Birtu Berndsen og Guðrúnar Önnu Halldórsdóttur sem léku eins og englar. Hugrún Sif Hallgrímsdóttir og Sigríður Stefánsdóttir sungu tvö lög og Adolf J. Berndsen lék á harmónikku.
Ingibergur Guðmundsson fór yfir sögu klúbbsins og sýndi myndir og sást þá glögglega að miklar breytingar hafa orðið á golfvellinum á þessum aldarfjórðungi. Ekki er heldur laust við að útlit einstakra golfara hafi breyst nokkuð en á móti kemur að tækni flestra þeirra hefur frekar lagast í gegnum árin.
Golfekkillinn, Ólafur Bernódusson, rakti raunasögu sína en fyrir 25 árum hóf kona hans að leika golf í stað þess að standa fyrir framan eldavélina og sinna matargerð, hafa til inniskóna og sinna barnauppeldi. Smám saman hefur hann þó sætt sig við hlutskipti sitt og jafnvel hefur örlað á gleði er konan kemur heim með verðlaunagripi.
Veislustjórar voru Lárus Ægir Guðmundsson og Dagný M. Sigmarsdóttir.
Ástæða er að geta þess að þrírétta matseðillinn í Kántrýbæ var ákaflega góður og ber að þakka fyrir hann sem og góða þjónustu. Ljóst er að veitingastaðurinn er með þeim bestu og fáir taka honum fram við matargerð.
16.11.2010
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 17. nóvember 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Endurskoðun fjárhagsáætlunar 2010
2. Frístundakort
3. Bréf:
a) Snorraverkefnisins, dags. 8. nóvember 2010
b) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. nóvember 2010
c) Stígamóta, dags. 1. nóvember 2010
d) Kvenfélagsins Einingar, dags. 1. nóvember 2010
e) Lyfjastofnunar, dags. 6. október 2010
f) USAH, dags. 4. október 2010
g) EBÍ, dags. 12. október 2010
h) SSNV, 20. október 2010
i) SSNV, 20. október 2010
4. Fundargerðir:
a) Fræðslunefndar, 18.10.2010
b) Tómstunda og menningarmálanefndar, 4.10.2010
c) Stjórnar Tónlistarskóla A-Hún, 28.10.2010
d) Menningarráðs Norðurlands vestra, 20.10.2010
e) Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 21.10.2010
f) Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atvinnumál, 11.10.2010
g) Stjórnar Norðurár bs. 6.09.2010
h) Stjórnar Norðurár bs. 19.10.2010
i) Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 27.10.2010
j) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 22.09.2010
k) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 29.09.2010
l) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 13.10.2010
m) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 29.10.2010
5. Önnur mál
Sveitarstjóri
15.11.2010
Vegna bilunar í beini (router) sem tengir vefmyndavélar á höfninni við netið
verða þær óvirkar um tíma eða þangað til búið er að fá nýjan beini sem verður vonandi á morgun eða miðvikudag.
11.11.2010
Farskólinn Norðurlands vestra býður upp á námskeið hér á Skagaströnd. Það fjallar um lestur ársreikninga og er ætlað að auðvelda fólki að greina helstu aðalatriðin í ársreikningum svo þeir skiljist nær umsvifalaust.
Námskeiðið er í tilefni Alþjóðlegu athafnavikunni. Það verður haldið í Farskólanum - miðstöð símenntunar, Faxatorgi 1, Sauðárkróki þann 16. nóvember kl. 18:00 - 21:00 og verður fjarkennt til Skagastrandar ef áhugi er fyrir þátttöku hér.
Leiðbeinandi er Birgir Þ. Rafnsson.
Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um meginreglur þær er gilda um ársreikninga, efni þeirra og framsetningu. Áhersla er lögð á að öðlast skilning á því mikilvægasta varðandi greiningu og lestur þeirra og geti einnig unnið áætlanir um stærstu rekstrarliði.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti nýtt sér einfaldar en árangursríkar aðferðir til að lesa ársreikninga og gera áætlanir.
Námskeiðið er ætlað þeim sem koma að rekstri fyrirtækja, innkaupum, starfsmannamálum og stjórnun. Einnig fyrir þá sem hafa hug á því að vinna að eigin viðskiptahugmynd hjá Vinnumálastofnun og/eða SSNV atvinnuþróun.
Námskeiðið getur líka verið gagnlegt þeim er hyggjast sækja um verkefnastyrki innan lands og utan og þurfa að vinna áætlanir vegna þess.
Námskeiðið nýtist jafnframt einstaklingum við rekstur heimilis og stjórnun eigin fjármála. Léttar veitingar í boði.
Nánari upplýsingar og skráning er á vefsíðu Farskólans – miðstöðvar símenntunar:
http://farskolinn.is/namskeid/ns/lestur-arsreikninga/dagsetning/18/10/2010/cal_details/event/tx_cal_phpicalendar/view-list|page_id-148/ eða í síma 455-6010.
Námskeiðsgjald er kr. 1.500 og greiðist við komu. Námskeiðið er styrkt af SSNV og Vinnumálastofnun.
09.11.2010
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bjóða með öllu áhugafólki um atvinnumál í Húnavatnssýslum og Skagafirði til Dags atvinnulífsins sem haldinn er nú annað árið í röð í Félagsheimilinu Ábyrgi á Laugarbakka, 10. nóvember 2010.
Degi atvinnulífsins er ætlað að styrkja tengslin milli starfandi fyrirtækja á svæðinu, hvetja einstaklinga í atvinnurekstri og örva nýsköpun.
Hvatningarverðlaun SSNV 2010
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra veita árlega hvatningarverðlaun einu fyrirtæki sem þykir til fyrirmyndar á sviði rekstrar og/eða nýsköpunar. Árið 2010 eru eftirtalin fyrirtæki tilnefnd:
Eðalmálmsteypan á Hvammstanga
Ferðaþjónustan á Brekkulæk
Ferðaþjónustan á Dæli
Kidka Wool Factory Shop
Selasetur Íslands
Dagskrá
Kl. 9:30 – 10:00 Morgunhressing, skráning og móttaka gesta.
Kl. 10:00 – 10:15 Setning – Bjarni Jónsson, stjórnarformaður SSNV
Kl. 10:15 – 11:15 Fyrirtækjakynningar – Kynning á starfsemi þeirra fimm fyrirtækja sem tilnefnd eru til hvatningarverðlauna SSNV 2010.
Kl. 11:15 – 11:30 Tónlistaratriði.
Kl. 11:30 – 12:00 Norðurland vestra í tölum - Katrín María Andrésdóttir, verkefnisstjóri SSNV atvinnuþróun
Kl. 12:00 - 13:15 Léttur hádegisverður í boði SSNV.
Kl. 13:15 - 13:30 Leynigestur kemur fram.
Kl. 13:30 – 14:15 Fjárfestingar og fyrirtæki á landsbyggðinni - Þóranna Jónsdóttir framkvæmdastjóri hjá Auður Capital.
Kl. 14:15 – 15:00 Húmor í stjórnun - Edda Björgvinsdóttir leikkona.
Kl. 15:00 – 15:15 Afhending hvatningarverðlauna SSNV 2010 – Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri SSNV.
Veitingar og dagskrárlok.
Nánari upplýsingar og skráning þátttakenda
Gudrun Kloes atvinnuráðgjafi, netfang:gudrun@ssnv.is, vefsíða www.ssnv.is, sími 455 2515 eða 898 5154.
09.11.2010
Nei, nú lýgurðu ...
Þannig svara flestir þegar lýst er hinu einstaka og frábæra veðurlagi á Skagaströnd. Héðan í frá verður það óhrekjanleg staðreynd að veðrinu verður ekki lýst nema eins og það er í raun og veru. Þetta helgast af því að ný og fullkomin veðurstöð hefur verið sett upp við Skagastrandarhöfn.
Um er að ræða sjálfvirka veðurathugunarstöð frá fyrirtækinu M&T ehf. Stöðin nemur hitastig, vindstyrk, vindátt, vindhviður og loftþrýsting. Hún mælir einnig sjávarhæð og birtir flóðatöflu.
Á forsíðu vefsíðu sveitarfélagsins er blár reitur vinstra megin og með því að velja hann má komast að því hvernig veðrið á Skagaströnd er hverju sinni og jafnvel skoða það aftur í tímann.
... og það er alveg dagsatt.
09.11.2010
Sigurvegarar í síðustu spurningakeppni Drekktu betur voru Árdís Indriðadóttir og Björn Ingi Óskarsson. Voru þau vel að sigrinum komin, hlutu 18 stig.
Næst verður Drekktu betur föstudaginn 19. nóvember. Þá verða spurlar og hæstráðendur sæmdarhjónin Ragna Magnúsdóttir og Jónas Þorvaldsson.