Heimsóknarvinir á vegum RKÍ deildarinnar á Skagaströnd.

Rauði kross Íslands hefur hafið átak undir yfirskriftinni “Heimsóknarvinir”. Verkefnið felur í sér að aldraðir einstaklingar og aðrir sem þurfa á þeirri þjónustu að halda fá heimsókn og félagsskap einu sinni í viku. Nú þegar hefur komið í ljós að þörf er fyrir þjónustu þessa. Mjög vel hefur gengið að fá sjálfboðaliða (heimsóknarvini) að þessu verkefni. RKÍ deildin á Skagaströnd er ein fyrsta deildin utan höfuðborgarsvæðins sem býður upp á þessa þjómustu. Umsjónarmaður verkefnins er Hrönn Árnadóttir. Unglingastarf RKÍ er mjög líflegt um þessar mundir Guðjón Ebbi Guðjónsson hefur umsjón með því starfi. Hafa unglingarnir m.a. kynnt sér skyndihjálp, sjúkraflutninga auk starfsemi fleiri unglingadeilda. Formaður RKÍ deildarinnar á Skagaströnd er Pétur Eggertsson.

Hafrún snýr aftur heim.

Á dögunum bættist nýtt skip við skipastól Skagstrendinga er Hafrún HU-12 kom til heimahafnar. Hafrún er í eigu Vík sf. en eigendur þess félags eru bræðurnir Sigurjón Guðbjartsson og Árni Guðbjartsson fyrir eiga þeir bátanna Ölduna og Bjart í Vík. Þeir bræður seldu Hafrúnu haustið 1999 frá Skagaströnd, en kaupa hana nú til baka. Hugmyndin er að gera skipið út til netaveiða hluta ársins.

Auglýsing um kynningarfund

Undirritaður fyrir hönd byggingarnefndar Höfðahrepps boðar til kynningarfundar um staðsetningu og gerð jarðvegsmana austan Vetrarbrautar og norðan Ránarbrautar. Fundurinn verður haldinn í félagsheimilinu Fellsborg miðvikudaginn 16. nóvember kl 20.00. Ástæða þess að boðað er til fundarins er hugmynd um byggingu jarðvegsmana norðan efstu húsa við Ránarbraut og einnig austan Vetrarbrautar. Byggingarnefnd taldi rétt að boða til kynningarfundar fyrir þá sem málið kann að varða og eru allir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta velkomnir á fundinn. Hafi hagsmunaaðilar athugasemdir við staðsetningu og fyrirkomulag fyrirhugaðra jarðvegsmana er óskað eftir að athugasemdum verði komið á framfæri skriflega fyrir 1. desember nk. Skagaströnd, 14. nóvember 2005 _________________________________ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Fatagerðin Iris flytur á Skagaströnd

Fjóla Jónsdóttir og Sólveig Róarsdóttir á Skagaströnd hafa keypt fatagerðina Iris ehf. sem um langt árabil hefur verið starfrækt á Akureyri. Fatagerðin hefur fyrst og fremst framleitt fatnað fyrir sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir. Þær Fjóla og Sólveig hafa hvor fyrir sig rekið einkafyrirtæki sem hafa annast sauma og fatagerð en hyggjast nú sameina þann rekstur og með því að bæta Irisi ehf við það sem fyrir er telja þær sig hafa góðan rekstrargrundvöll.

Hundur í óskilum á Skagaströnd

Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í dúettinum “Hundur í óskilum” héldu tónleika í Kaffi Viðvík sl. fimmtudagskvöld. Húsfyllir var og stemningin einstaklega góð og fólk skemmti sér konunglega yfir frábærum uppátækjum í tónlist og tónlistarflutningi. Tvímenningarnir, sem segja má að séu einskonar gleði- og gáskatónlistamenn, léku sér að alls kyns tilbrigðum við þekkt lög og texta og blönduðu þeim gjarnan saman úr sitt hvorri áttinni. Má nefna að texti Bubba við “Stál og hnífur” hljómaði mjög skemmtilega við lag eftir kántrýkónginn Hallbjörn. Ekki síðri voru “Guttavísur” við lag eftir J.S. Bach eða lag og texti “Undir bláhimni” í útsetningu og í bland við “Wild thing” sem hljómsveitin Troggs flutti á árum áður. Það voru ekki bara lög og textar sem sett voru í nýtt samhengi heldur var tónlistarflutningur, bæði söngur og hljóðfæraleikur, gjarna með sérstökum hætti sem langt mál væri að skýra. Þó má nefna að sökum fámennis í dúettinum tóku þeir félagar sig til og léku á fleiri en eitt hljóðfæri í einu t.d. spilaði Eiríkur á tvo trompeta samtímis og þeir hvor um sig á þrjár blokkflautur í einu, með nefi og munni. Allt var þetta gert af mikilli fagmennsku og þrátt fyrir ærslalegan flutning var allan tíman verið að flytja skemmtilega og vandaða tónlist.

ATH !! Nýtt símanúmer á skrifstofu

Frá og með deginum í dag tekur gildi nýtt símanúmer á skrifstofu Höfðahrepps. Númerið er 455 2700.Nýtt FAX númer er 455 2701 Biðjumst við velvirðingar á því ef einhverjir hnökrar verða á símsvörun í dag, meðan skipt er milli símkerfa.

Áfram konur

Það safnaðist saman stór hópur kvenna og hófu á loft kröfuspjöld um bætt réttindi kvenna. Konur á Skagaströnd eru öflugir stuðningsmenn í kvennabaráttu, að lokinni göngu var farið í kaffidrykkju á Hótel Dagsbrún. Konur, til hamingu með Kvennafrídaginn.

Líkami og sál í stafagöngu.

Heilsuræktarhópurinn Líkami og sál á Skagaströnd gekkst fyrir námskeiði í stafagöngu laugardaginn 21. okt. Þátttakendur í námskeiðinu voru 23 og leiðbeinandi var Guðný Aradóttir stafagönguþjálfari. Stafaganga hefur í auknum mæli verið að ryðja sér til rúms í íslenskri heilsurækt sem skemmtileg og holl líkamsþjálfun. Hún á rætur sínar að rekja til Finnlands þar sem gönguskíðamenn tóku upp á því að ganga við stafina yfir sumartímann til að halda sér í þjálfun. Þessi gönguaðferð ber enska heitið “Nordic Walking” en Finnarnir kalla hana í gríni Alsheimer-skíðagöngu því þar sé um að ræða skíðagöngumenn sem hafi gleymt að setja á sig skíðin. Stafagangan er hins vegar mjög góð þjálfun bæði fyrir þá sem eru heilbrigðir og vilja halda sér í góðu formi og einnig fyrir þá sem þurfa á endurhæfingu að halda og eru að ná sér eftir meiðsli eða sjúkdóma. Hún er einnig talin henta vel fyrir þá sem eru yfir kjörþyngd. Áhrif stafagöngunnar á líkamann eru talin margvísleg og ýmislegt í henni sem ekki næst með venjulegri göngu. Hún er talin virkja og styrkja efri hluta líkamans og auka hreyfigetu í axlaliðum. Með hjálp stafanna dregur úr álagi á mjaðmir, hné og ökla. Brennsla er talin verða 20% meiri en við venjulega göngu og hjartsláttur eykst um 16% eða 5-20 slög á mínútu. Súrefnisupptaka eykst því verulega eða allt að 46%. Við gönguna eru notaðir sérhannaðir stafir sem eru léttir og sveigjanlegir með sérstökum ólum sem henta þessari notkun. Þótt ekki virðist mjög flókið að fara í gönguferð með tvo stafi er málið ekki alveg svo einfalt. Mjög mikilvægt er að tileinka sér rétta tækni við gönguna svo árangur verði sem bestur. Í byrjun er því heppilegast að fá kennslu í undirstöðuatriðum hjá viðurkenndum leiðbeinanda og það var einmitt verkefnið hjá heilsuræktarhópnum Líkama og sál. Hvort sem það tengdist stafagöngu eða ekki er skemmtikvöld hjá hópnum í kvöld, laugardag og hugmyndin að næra bæði líkamann og sálina með ýmsu móti. (Heimildir: Fræðslubæklingur ÍSÍ – Stafaganga góð leið til heilsubótar. og www.stafaganga.is )

Borgarafundur þriðjudaginn 25. okt. 2005

Skagstrendingar!!! Borgarafundur verður haldinn í Fellsborg þriðjudaginn 25. október nk. kl. 20,00. Á fundinum mun hreppsnefnd m.a. fara yfir helstu áherslumál í rekstri sveitarfélagsins. Almennar umræður. Hreppsnefnd Höfðahrepps

Uppskeruhátíð Ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Fréttatilkynning Ferðamálasamtök Norðurlands eystra og vestra, Ferðaþjónustuklasinn/ Vaxey og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi bjóða til Uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar þann 10. nóvember. Þangað eru boðnir allir sem starfa að ferðamálum á Norðurlandi. Markmiðið með hátíðinni er að efla samkennd og samvinnu á milli ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og að ferðaþjónustuaðilar kynnist því sem að önnur svæði hafa upp á að bjóða. Að þessu sinni eru Þingeyingar gestgjafar en áætlað er að þessi hátíð verði haldin árlega og þá á mismunandi svæðum á Norðurlandi. Hafa ferðaþjónustufyrirtæki í Þingeyjarsýslu lagt sitt af mörkum til að gera hátíðina sem glæsilegasta. Dagskráin hefst á Húsavík og í framhaldinu verður farið í hringferð um nágrennið með ýmsum skemmtilegum uppákomum á leiðinni. Um kvöldið verður svo dagskrá sem kætir bæði líkama og sál. Allar nánari upplýsingar og skráning eru á www.nordurland.is