Skagstrendingaball !

Halló halló ! Skagstrendingar ungir sem aldnir ! Nú endurvekjum við gömlu góðu stemminguna með stórdansleik laugardaginn 7 maí kl. 22:00 í Skaftfellingabúð Laugavegi 178 hljómsveit Hilmars Sverrissonar sér um fjörið. Óvæntar uppákomur að hætti Skagstrendinga mætum öll með góða skapið. Nefndin. Valdi Hún & Reynir Sig. 894-1388 & 820-6006

Næsti hreppsnefndarfundur

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps þriðjudaginn 26. apríl 2005 á skrifstofu hreppsins kl 800. Dagskrá: 1. Grunnskólinn – umsóknir um stöðu skólastjóra. 2. Leikskólinn – drög að samningi við Skagabyggð um rekstur leikskólans. 3. Sameining sveitarfélaga. 4. Byggðakvóti. 5. Bréf: a) Siglingastofnunar, dags. 15.03.2005 b) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 15.03.2005. c) Formanns jafnréttis og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar, 1.04.2005. d) Samvinnunefndar um svæðisskipulag í A-Hún, dags. 12.04.2005. e) Sóknarnefndar Hólaneskirkju dags. 19.04.2005 6. Fundargerðir: a) Skólanefndar, 23.03.2005 b) Húsnæðisnefndar, 29.03.2005. c) Hafnarnefndar 20.04.2005. d) Stofnfundar um Hollvinasamtök HSB, dags. 15.03.2005. 7. Önnur mál. Sveitarstjóri

Sumardagurinn fyrsti hjá FISK á Skagaströnd

Landvinnsla FISK á Skagaströnd var með opin dag og bauð í heimsókn í vinnsluna, sumardaginn fyrsta. Þar var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt. Starfsfólk vinnslunnar stóð að skemmtilegri kynningu á afurðum og vinnsluaðferðum og sýndi hvernig fiskurinn er meðhöndlaður í vinnslunni. Andrúmsloftið var svo gert léttara með lifandi tónlist og einnig boðið upp á sælkerarétti úr saltfiski svo og fiskisúpu. Í hluta vinnslusalarins var uppi myndlistasýning leikskólabarna sem þau unnu eftir heimsókn í vinnsluna fyrr í vikunni. Aðalviðfangsefni þeirra í myndgerðinni var fiskur, einkum saltfiskur og óhætt að segja að túlkun þeirra á viðfangsefninu hafi verið lífleg og skemmtileg. Fjöldi fólks lagði leið sína í landvinnsluna í blíðunni á sumardaginn fyrsta og greinilegt að fólk kunni vel að meta framtak FISK og það sem í boði var.

Kynning á iðnfræði í fjarnámi frá HR í Námsstofunni laugardaginn 23. apríl

Haldinn verður kynningarfundur á iðnfræðinámi frá Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 23. apríl kl. 14:00 – 16:00. Kynningin fer fram í fjarfundi í Námsstofunni á Skagaströnd, Mánabraut 3, Námsstofunni á Hvammstanga, Höfðabraut 6, Námstofunni Gránugötu 24, Siglufirði og SÍMEY, Þórsstíg 4 á Akureyri og eru allir áhugasamir velkomnir. Markmið iðnfræðináms HR er að styrkja stöðu nemenda á vinnumarkaði og gera þá hæfari til að takast á við fleiri og fjölbreyttari störf. Iðnfræðin er í boði hjá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og er hagnýtt 45 eininga nám á háskólastigi. Iðnfræði er eingöngu kennd í fjarnámi og er gert ráð fyrir að námið taki þrjú ár samhliða vinnu. Með fullu námi má ljúka iðnfræði á einu og hálfu ári. Skilyrði fyrir inngöngu er iðnmenntun að viðbættri einni önn á frumgreinasviði HR eða sambærilegur undirbúningur. Námsstofan á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson

Stóra upplestrarkeppnin

Þrír nemendur í 7. bekk Höfðaskóla kepptu í hinni árlegu Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnaþingi sem haldin var 14. apríl á Laugabakka. Það voru þau Alexandra Ólafsóttir, Kristján Ýmir Hjartarson og Laufey Inga Stefánsdóttir. Keppendur voru alls 12 frá öllum grunnskólum á svæðinu. Þarna voru margir úrvals lesarar og erfitt hlýtur að hafa verið að gera upp á milli þeirra. Krakkarnir okkar voru í þeim hópi, þau stóðu sig með svo mikilli prýði að klappliðið var að rifna úr stolti. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin og sigurvegarinn var Alexandra okkar. (Heimild http//hofdaskoli.skagastrond.is)

Fundur um forvarnarmál

Boðað er til fundar um forvarnamál í Austur-Húnavatnssýslu mánudaginn 25. apríl kl. 20 -22 í Félagsheimilinu á Blönduósi Á fundinn koma fulltrúar frá forvarnaverkefninu Vertu til og kynna verkefnið og starfsemi þess. Vertu til! er samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lýðheilsustöðvar um að efla forvarnir í sveitarfélögum landsins Mætum öll og leggjum okkar af mörkum við að móta framtíðarsýn og stefnu sveitarfélaganna til forvarna. Kaffiveitingar Starfshópur um forvarnir í A-Hún. Hægt er að skoða heimasíðu Vertu til á slóðinni: www.vertutil.is

OPINN DAGUR Í LANDVINNSLU FISK Á SKAGASTRÖND

Næstkomandi fimmtudag (sumardaginn fyrsta) ætlum við að bjóða ykkur í heimsókn í vinnsluna okkar að Oddagötu 12 Skagaströnd (gömlu rækjuvinnsluna). Allir eru velkomnir frá kl: 13:00 – 15:00. Í tilefni dagsins bjóðum við uppá: · Lifandi tónlist · Lifandi fiskar í búri · Kynning á framleiðslunni og framleiðsluaðferðum. · Matreiðslumaður verður á staðnum, matreiðir og gefur smakk af framleiðsluvörum okkar. · Leikskólabörn verða með sýningu á verkum sem þau gerðu eftir heimsókn í vinnslunna. Vonumst til að sjá sem flesta. Starfsfólk og stjórnendur.

Ís á Húnaflóa

Nokkrir borgarísjakar eru á Húnaflóa. Þegar björgunarsveitarmenn á Skagaströnd fóru til að taka á móti nýju björgunarskipi heilsuðu þeir upp á einn jakann. Hann var ekki mjög stór en hafði skemmtilega lögun. Áhöfn björgunarskipsins sagði talsvert af jökum á siglingaleið austan við Horn en urðu ekki varir við samfelldan ís eða spangir.

Nýtt björgunarskip til Skagastrandar

Nýtt björgunarskip sem á að þjóna öllu Húnaflóasvæðinu kom til heimahafnar á Skagaströnd í gær sunndudaginn 10. apríl. Skipinu var siglt frá Reykjavík en þaðan hafði það komið með skipi frá Bretlandi en það var keypt frá Plymouth. Björgunarskipið sem er smíðað 1988 er úr trefjaplasti og með yfirbyggingu úr áli. Í því eru tvær 500 hestafla Caterpillar vélar sem skila því á allt að 18 mílna hraða. Skipið er mjög vel útbúið sem björgunarskip, m.a. er léttabátur sem hægt er að sjósetja á auðveldan hátt. Hins vegar er eftir að setja nýjustu siglingtæki um borð í það svo sem sjálfstýringu og siglingatölvu. Við komuna til Skagastrandarhafnar gátu þeir sem óskuðu fengið að skoða skipið en fyrirhugað er að hafa formlega mótttöku eftir tvær til þrjár vikur og gefa skipinu nafn. Eftir að lokið hefur verið við að ganga frá búnaði og öðru sem þarf að gera til að skipið teljist fullbúið er stefnt að því að fara í kynnisferð á hafnir við Húnaflóa. Það er Bjögunarbátasjóður Húnaflóa og Landsbjörg sem kaupa skipið og munu sjá um rekstur þess í nánu samstarfi við Björgunarsveitina Strönd. Umsjónarmaður með skipinu hefur verið ráðinn Guðmundur Björnsson.

Dansferð til Reykjavíkur

Þann 2 apríl s.l. fór Dansdeild UMF FRAM í Íslandsmeistarakeppnina í línudansi með 46 keppendur í 6 hópum. Foreldrar sáu um að koma sínum börnum suður og voru því margir Skagstrendingar í höllinni að horfa á og styðja sitt fólk. Úrslit urðu eftirfarandi hjá okkar fólki: 6-8 ára Fjörkálfarnir: sýning 9-12 ára Gullstjörnurnar: 4 sæti 9-12 ára Skeifurnar 6: 3 sæti 9-12 ára Skuplurnar: 1 sæti 13-16 ára Ladies: 2 sæti Fullorðnir I Hófarnir: 4 sæti. Eftir keppnina bauð dansdeildin sínum krökkum á skauta og í pizzu og voru foreldrar og systkini velkomin þar og voru um 80 manns í pizzuveislunni.Það er mat allra að vel hafi tekist til og krakkarnir til fyrirmyndar. Linda Björk og dansdeildin þakka öllum samstarfið í vetur!