Opna TM/Minningarmót um Karl Berndsen á Skagaströnd á laugardag.

Hið árlega TM/Minningarmót um Karl Berndsen verður haldið á Háagerðisvelli laugardaginn 24. júní nk. Leiknar verða 18 holur með og án forgjafar í karla- og kvennaflokki. TM er aðalstyrktaraðili mótsins. Golfklúbbur Skagastrandar fagnar 20 ára afmæli sínu nú í haust og hefur verið vaxandi í allan þann tíma. Nú í vor hafa verið miklar framkvæmdir á á vellinum og m.a. lagt vatnskerfi að öllum flötum vallarins. Hús klúbbsins hafa verið máluð og lagt nýtt gólfefni á sjálft klúbbhúsið. AHB

Annasöm íþróttahelgi framundan

Óhætt er að segja að Skagstrendingar koma víða við á íþróttasviðinu um næstu helgi. Goggamót í frjálsum íþróttum í Mosfellsbæ, KB bankamót í knattspyrnu í Borgarnesi og Bikarkeppni FRÍ 2 deild í frjálsum á Sauðárkróki. Stefán Velemir fer og tekur þátt í Goggamótinu í Mosfellsbæ sem nú er haldið í 15 sinn. Mótið er fyrir 14 ára og yngri og þar má búast við 300-400 keppendum alls staðar af landinu. Sæþór, Alex Már, Elías Kristinn og Guðjón Páll fara og keppa með Hvöt í 5 flokki í Borgarnesi. Búist er við 700-800 keppendum frá bæjum með minna en 2000 íbúa. Íþróttafulltrúi Höfðahrepps verður mótsstjóri á mótinu á Sauðárkróki og með honum fara Sigurrós Ósk, Elna, Laufey Inga, Sigþór og Kristján Heiðmar ýmist sem keppendur eða starfsmenn á mótinu. Skagstrendingar sem eru á ferðinni á þessum stöðum um helgina eru hvattir til að líta við og hvetja sitt fólk. Íþróttafulltrúi Höfðahrepps.

Skýrsla v/Noregsferðar 9. og 10. bekkjar

Skýrsla v/Noregsferðar 9. og 10. bekkjar er komin á netið, sjá "nýtt á vefnum"

Frelsið

Í gærkveldi kom Kjartan Hauksson á árabáti sínum Frelsi til Skagastrandar. Kjartan stefnir að því að róa umhverfis landið á næstu 7-8 vikum en búast má við að róin vegalengd verði u.þ.b. 3000 km. Leiðangur þessi hófst í raun í ágúst 2003 en ferðinni lauk með brotlendingu í Rekavík, norður af Bolungarvík þann 7. sept sama ár. Kjartan hóf síðan að nýju för frá Bolungarvík á sjómannadaginn þann 5. júní sl. Tilgangurinn með ferðinni er að vekja athygli á ólíkum möguleikum fatlaðra og ófatlaðra til ferðalaga. Eins og báturinn ber verkefnið yfirskriftina Frelsi og vísar til þess að hreyfihamlaðir eru hvattir til þess að láta drauma sína um að ferðast innanlands og utan rætast. Með ferðinni er ennfremur verið að safna fé í Hjálparsjóð Sjálfsbjargar sem var stofnaður 1997 en hann hefur það að markmiði að auðvelda hreyfihömluðum að ferðast. Kjartan fékk góðan dag á Húnaflóa í gær í blíðskaparveðri. Kjartan gisti á Skagaströnd í nótt og lagði síðan á stað snemma í morgun. Þeir sem vilja fylgjast með ferð Kjartans er bent á slóðina sjalfsbjorg.is, þar má m.a sjá skemmtilegar myndir.

Ný tæki í þreksal

Síðastliðinn mánudag kom einn helsti velunnari líkamsræktarinnar, Ernst Berndsen færandi hendi í íþróttahúsið og færði því að gjöf tæki sem er til að þjálfa læra og rassvöðva og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Á næstu dögum bætast við þrjú tæki í þreksalinn en tvö eldri fara út í staðinn. Starfsfólk íþróttahússins

Nýtt björgunarskip heitir Húnabjörg

Laugardaginn 5. júní sl. var vígt nýtt björgunarskip sem þjóna á Húnaflóasvæðinu. Í formlegri athöfn sem var hluti hátíðarhalda sjómanndagsins var skipinu gefið nafnið Húnabjörg. Athöfnin hófs með því að Ernst K. Berndsen formaður björgunarsveitarinnar Strandar flutti ávarp og greindi frá því hvernig hafi verið staðið að kaupum á skipinu og fjármögnun þess. Þar kom fram að allar björgunarsveitir við Húnaflóa hafið staðið mjög þétt að baki málinu og bæði stutt og styrkt kaupin. Einnig hafi fjöldi fyrirtækja bæði við Húnaflóa og annarsstaðar lagt málinu lið. Þá hafi öll sveitarfélögin á svæðinu veitt myndarlegan fjárstuðning til að gera kaupin möguleg. Þessi einhugur hafi valdið því að sérstaklega vel hafi gengið að koma málinu áfram. Einn af dyggustu liðsmönnum björgunarsveitarinnar, Jökulrós Grímsdóttir afhjúpaði nafn skipsins og sóknarpresturinn séra Magnús Magnússon blessaði það og nafn þess með stuttri athöfn. Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sigurgeir Guðmundsson flutti ávarp og rakti m.a. með hvaða hætti björgunarbátavæðing landsins hafi gengið fyrir sig og rifjaði upp það stórátak sem gert hefur verið í þeim efnum. Sigurgeir nefndi hvernig slagorðið „Lokum hringnum”, hafi ekki síst átt við um kaupin á þessu skipi. Hann lýsti einnig þeim góðu samskiptum sem hafi verið við Konunglegu bresku sjóbjörgunarsamtökin. Samstarfið við þá og möguleikinn á að fá keypt vönduðu skip, sem sérfræðingar á þessi sviði hafi sérhannað, sé ómetanlegt fyrir björgunarmál á Íslandi. Hann færði íbúum við Húnaflóa árnaðaróskir með Húnabjörgu og óskaði henni og björgunarsveitum á svæðinu velfarnaðar. Auk Sigurgeirs var við vígsluna Smári Sigurðsson, varaformaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Sigurður Viðarsson starfsmaður björgunarsviðs. Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd var öll hin hátíðlegasta og hófst með skemmtisiglingu þar sem Húnabjörgin og allir björgunarbátar við Húnaflóa tóku þátt í björgunaræfingu ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar TF SIF. Hluti hátíðarhalda sjómanndagsins var einnig sýning á tækjum og búnaði björgunarsveitanna á öllu Húnaflóasvæðinu. Eftirtektarvert var hversu mikil og góð samvinna er á milli björgunarsveitanna og hve góð samstaða var um að undirstrika að vígsla Húnabjargar er mikilvægur viðburður í sögu björgunarmála á þessu svæði.

Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd

Laugardagurinn 4. júní 2005. kl. 11.00 – 12.00 Skemmtisigling með bátum út á Flóann. Meðan á skemmtisiglingu stendur mun þyrla Landhelgisgæslunnar koma og sveima yfir bátunum og björgunarsveitir við Húnaflóa æfa björgun á sjó þar sem þyrlan mun taka þátt. Ferðaþjónustubáturinn Ákinn frá Hvammstanga sem hefur upp á að bjóða 20 þægileg sæti, mun taka eldri borgara í skemmtisiglinguna. kl. 12.00 – 12.20 Skrúðganga frá höfninni að kirkju undir forystu lögreglumanna. kl. 12.30 – 13.30 Sjómannamessa í Hólaneskirkju. Blómsveigur lagður á minnismerki um týnda sjómenn. kl. 14.15 – 14.45 Kappróður í Skagastrandarhöfn. kl. 14.45 – 15.15 Nýtt björgunarskip vígt, skipið blessað og því gefið nafn. Við það tækifæri munu m.a. fulltrúar Slysavarafélagsins Landsbjargar flytja ávarp. kl. 15.15 – 16.30 Skemmtidagskrá á Hafnarhúsplani, þar á meðal verður Örn Árnason skemmtikraftur með hluta dagskrárinnar. kl. 16.30 – 20.00 Hoppukastali fyrir börn verður á skólavellinum Sýningar og kaffisala: Auk fyrrgreindra dagskráratriða verður á svæðinu sýning á björgunartækjum og búnaði björgunarsveita við Húnaflóa. kl. 15.30 Opnun kaffisölu í Höfðaskóla. Einnig verður í skólanum opin sýning á handverki og myndmennt nemenda skólans. kl 20.00 Opnun á ljósmyndasýningu Steinþórs Karlssonar, “Út í hafsauga” á neðri hæð Viðvíkurkaffis. Sýningin verður uppi út júnímánuð og aðgengileg á opnunartíma kaffihússins kl. 23.00 – 03.00 Dansleikur í Fellsborg. Hljómsveitin Von leikur fyrir dansi. Sunnudagurinn 5. júní 2005. kl. 14.00 – 18.00 Hoppukastali fyrir börn verður á skólavellinum kl. 18.00 Bíó í Fellsborg. Barna og fjölskyldumyndin BANGSIMON. GÓÐA SKEMMTUN BJÖRGUNARSVEITIN STRÖND SKAGASTRÖND

Vinna hafin við nýjan sparkvöll

Fyrsta skóflustungan af nýjum sparkvelli við Höfðaskóla var tekin í morgun að viðstöddum nemendum, kennurum og hreppsnefnd Höfðahrepps. Byggður verður gerfigrasvöllur með stuðningi frá KSÍ sem leggur til gerfigrasið. Völlurinn verður upphitaður og flóðlýstur til að auka notagildi hans yfir vetrarmánuðina. Umhverfis völlin verður svo sett timburgirðing. Það kom í hlut 1. bekkjar að taka skóflustunguna og nutu þau til þess aðstoðar bæði hreppsnefndarmanna og kennara við skólann. Nemendurnir heita frá vinstri, Egill Örn, Guðmann Einar, Guðrún Rós, Ísak Lehmann, Ísak Karl, Birta Dögg og Firðmann Kári. Á myndinni eru einnig þau Jensína, Adolf og Hildur.

Skemmtileg heimsókn frá Hönefoss í Noregi

Undanfarin tvö hefur verið í gangi samvinnuverkefni milli Höfðaskóla og Hov skóla í Hönefoss í Noregi þar sem sambandi var komið á milli elsta bekkjar Hov skólans og tveggja elstu bekkja Höfðaskóla með gagnkvæma heimsókn að markmiði. Hafa nemendur unnið ýmis verkefni um staði og lönd hvors annars og verið dugleg að safna peningum til að geta heimsótt hvort annað. Norðmennirnir riðu á vaðið og dvöldu hér á Skagaströnd 24.-26. maí. Allir gestirnir voru klæddir í bláar peysur sem er nokkurs konar einkennismerki verkefnisins og allir sem tóku á móti þeim hér voru í sams konar peysum. Hingað komu 25 norskir nemendur ásamt 8 fylgdarmönnum, þar á meðal myndatökukonu sem tók upp alla heimsóknina. Norðmennirnir komu að kvöldi 24. maí og eftir að hafa borðað í Kántrýbæ fór hópurinn í íþróttahúsið og tók þátt í örnámskeiði í kántrýdönsum. Að því loknu fór hver heim með sínum gestgjafa því allir gistu heima hjá nemendum úr 9. og 10. bekk. Á miðvikudagsmorgni var haldið af stað í hringferð fyrir Skagann. Stoppað var á nokkrum stöðum á leiðinni, m.a. í Kálfshamarsvík, á Hrauni var æðarvarp skoðað og við Ketubjörg fengu allir sem vildu að smakka hákarl. Að þessu loknu var snætt nesti í Skagaseli. Þegar komið var heim til Skagastrandar var hópnum skipt í þrennt. Allir fengu að fara í golf, á hestbak og í siglingu út að ísjakanum. Þetta þótti hin mesta upplifun fyrir alla. Um kvöldið var síðan grillveisla í Fellsborg í umsjón foreldra og svo diskótek á eftir. Á fimmtudagsmorgni var byrjað á að fara í skólann, skólinn var skoðaður og unnið eitt vinaverkefni. Síðan var haldið í jeppaferð upp að Langavatni. Hátt í 15 jeppar fluttu alla upp að vatni. Þar voru bátar fyrir þá sem vildu veiða en frekar kalt var uppfrá, þannig að veiðimenn héldu ekki lengi út. Grillað var í hádeginu, bæði pylsur og fiskurinn sem veiddist. Allir voru sælir og ánægðir með þessa skemmtilegu ferð. Eftir heimkomuna fóru allir heim með sínum gestgjöfum og tóku til farangurinn sinn og eftir það var haldið á ný í Fellsborg þar sem kveðjukaffi var drukkið. Síðan hélt norski hópurinn af stað suður en ferðin þeirra er alls ekki búin. Þau ætla að skoða sig um fyrir sunnan og halda síðan af stað til Noregs á mánudaginn. Þessum samskiptum er síður en svo lokið því nemendur í 9. og 10. bekk Höfðaskóla halda svo af stað til Noregs þann 7. júní og ætla þau að heimsækja norsku krakkana, ásamt því að skoða sig um í Osló og nágrenni. Höfðaskóli, nemendur og foreldrar í 9. og 10 bekk vilja þakka öllum þeim fjölmörgu sem komu að þessari heimsókn og hjálpuðu við að gera ferðina fyrir Norðmennina sem eftirminnilegasta.

Tannlæknastofa á Skagaströnd

Tannlæknastofan á Skagaströnd hefur verið opnuð að nýju eftir nokkurt hlé. Erling Ingvason tannlæknir mun vera á stofunni á miðvikudögum og Berglind Guðmundsdóttir tanntæknir starfar með honum og annast m.a. skráningu. Tímapantanir og upplýsingar í síma 452 2697. Tannlæknastofan er til húsa í heilsugæslunni að Bogabraut 7.