Unnið við gatnaframkvæmdir

Vinnu við malbikun götu á milli hafnarvogar og Fiskmarkaðar lauk í gær. Malbikinu var keyrt frá Akureyri og kom vinnuflokkur þaðan sem vann við útlagningu malbiksins. Í þessum áfanga voru lagt um 100 tonn en stefnt er að frekari malbikun síðar í sumar þegar malbikunarstöðin verður staðsett á Sauðárkróki. Fiskmarkaðurinn er að flytja í nýja aðstöðu og er verið að leggja lokahönd á frágang við skrifstofu- og þjónustuálmu Fiskmarkaðsins og verður þá öll starfssemi hans í sama húsi.

Námsstofan á Skagaströnd

Prófum sem fjarnámsnemendur fá leyfi til að taka í Námsstofunni er lokið nú í maí. Þetta voru 27 próf sem 14 fjarnámsnemendur tóku við 4 skóla. Síðan eru nokkrir fjarnámsnemendur sem taka próf í sínum skóla. En alls eru 25 einstaklingar með samning um að nýta aðstöðuna í Námsstofunni. Í Námsstofunni er góð aðstaða til að stunda fjarnám, nokkrar tölvur og lestofa. Frá áramótum hafa 29 einstaklingar nýtt sér þá aðstöðu. Fjarfundabúnaðinn hafa 8 einstaklingar notað til að sitja kennslustundir í Námsstofunni. Þessa dagana og næstu vikur er Þóra Ágústsdóttir í Námsstofunni að vinna að lokaverkefni sínu við háskólann í Álaborg í Danmörku.. Verkefnið er á sviði Evrópufræði og fjallar um hvers vegna Ísland hefur ekki sótt um aðild að ESB. Nú fer að hefjast innritun hjá þeim skólum sem eru með fjarnám. Því ættu þeir sem hafa verið að hugsa um að fara í fjarnám að taka sig til og kynna sér hvað þeim stendur til boða. Hér eru nokkrir skólar sem bjóða upp á fjarnám: Kennaraháskóli Íslands Háskólinn á Akureyri Verkmenntaskólinn á Akureyri Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra Fjölbrautarskólinn við Ármúla Háskóli Íslands Háskólinn á Hólum Háskólinn í Reykjavík Tækniháskóli Íslands Viðskiptaháskólinn á Bifröst Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri Menntafélag byggingariðnaðarins Rafiðnaðarskólinn Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins Hótel- og matvælaskólinn Borgarholtsskólinn Iðnskólinn í Reykjavík Þessi listi er ekki tæmandi og skólarnir bjóða ekki upp á alla sína námsskrá í fjarnámi. Auk skólanna bjóða ýmsir aðilar alls konar áhugaverð námskeið í fjarnámi. Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan. Maí 2005 Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson S: 8440985

Hátíðarhöld sjómannadags færð á laugardag

Hefðbundin dagskrá sjómannadags færist fram um einn dag og verður laugardaginn 4. júní. Í tengslum við dagskrána verður nýju björgunarskipi gefið nafn og það vígt formlega. Björgunartækjasýning verðu einnig sett upp á hafnarsvæðinu í tilefni dagsins. Á sunnudeginum er fyrirhugað að hafa hoppukastala á skólalóð fyrir yngstu kynslóðina og þá verðu einnig bíósýning í Fellsborg. Drög að dagskrá sjómannadags: Laugardagurinn 4.júní 2005. 10: 30 Skrúðganga frá höfn að kirkju. 11:00 Sjómannadagsmessa í Hólaneskirkju. 13:15 Skemmtisigling 14:00 Skemmtun á hafnarsvæðí Kappróður Vígsla á nýju björgunarskipi Björgunartækjasýning Leikir á Hafnarhúsplani 15:30 Kaffisala í Höfðaskóla 23:00 Dansleikur í Fellsborg Sunnudagurinn 5. júní 2005. 14:00 Hoppukastali fyrir börn á skólavelli 18:00 Barna- og fjölskyldumynd sýnd í Fellsborg Björgunarsveitin Strönd

Jósef Ægir varð Evrópumeistari í gouren

Jósef Ægir Stefánsson einn af hraustustu sonum Skagastrandar gerði garðin frægan út í Frakklandi um helgina en þar sigraði hann í glímu sem kölluð er gouren. Þessi tegund glímu er satt að segja ekki algeng á Skagaströnd en Jósef hefur ekki verið þekktu fyrir að setja smámuni fyrir sig og lærði glímuna eftir óhefðbundnum leiðum. Að vonum eru Skagstrendingar mjög stoltir yfir afreki Jósefs. Eftirfarandi frétt er tekin af vef Glímusambands Íslands, www.glima.is Evrópumóti fangbragða lauk nú fyrir skömmu en mótið fór fram í Landerneau í Frakklandi um helgina. Spánverjar urðu Evrópumeistarar í þriðja sinn en þeir unnu einnig árin 1999 og 2001. Ísland hafnaði í fimmta sætinu sem verður að teljast mjög góður árangur miðað við að Ísland hefur ekki tekið þátt síðan 1991 og auk þess að vera aðeins með sex menn. Fyrir utan þetta þá meiddist Jón Örn og hafði það mikil áhrif á heildarstigakeppnina. Það sem stóð upp úr hjá Íslenska liðinu var þegar Jósef Ægir Stefánsson varð Evrópumeistari í gouren –100 kg flokki. Hann var síðan mjög óheppinn í back hold keppninni því hann tapaði tvisvar 3-2. Pétur Eyþósson vann brons í gouren –81 kg flokki og Eiríkur Óskar Jónsson náði einnig í brons í back hold en hann keppti í +100 kg flokki... Jósef Ægir varð í dag Evrópumeistari í gouren7. maí 2005 Evrópumót fangbragða hófst í dag með keppni í gouren. Helstu úrslit af mótinu eru þau að Jósef Ægir Stefánsson sigraði glæsilega í -100 kg flokki og er þar með Evrópumeistari í gouren. Önnur úrslit af mótinu eru þau að Pétur Eyþórsson hafnaði í þriðja sæti í -81 kg flokki og þeir Ólafur Oddur Sigurðsson og Snær Seljan Þóroddsson lentu í fjórða sæti í sínum flokkum. Ólafur í -90 kg flokki en Snær í -74 kg flokki. Eiríkur Óskar Jónsson og Jón Örn Ingileifsson urðu síðan báðir að hætta keppni vegna meiðsla og er óvíst hvort þeir keppi á morgun í back-hold. Glímusambandið óskar strákunum innilega til hamingju með frábæran árangur í gouren.

Kynning á fjarnámi við Háskólann á Akureyri 2005-2006 í Námsstofunni mánudaginn 2. maí

Haldinn verður kynningarfundur á fjarnámi við Háskólann á Akureyri veturinn 2005-2006 í Námsstofunni á Skagaströnd mánudaginn 2. maí kl. 17:30 – 19:00. Kynningin er send út frá Háskólanum á Akureyri í fjarfundi á ellefu staði á Norður- og Vesturlandi. Fjórar deildir skólans af sex bjóða nú upp á fjarnám. Þetta eru auðlindadeild, heilbrigðisdeild, kennaradeild og viðskiptadeild. Allir áhugasamir eru velkomnir. Námsstofan á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson

Tölvunámskeið fyrir 55+

Tölvunámskeið fyrir 55 ára og eldri var haldið í tölvuveri skólans á Skagaströnd. Alls sóttu 11 námskeiðið sem var samtals 24 kennslustundir. Flestir þeirra sem námskeiðið sóttu höfðu lítið eða ekkert unnið á tölvu og miðaðist þessi fyrsta nálgun við að fólk næði tökum á að vinna með tölvumús, lærði að nota lyklaborð og fengi grunnþjálfun í notkun algengustu forrita ss. ritvinnslu og að fara á internetið. Námskeiðið þótti takast mjög vel og nemendur mjög áhugasamir. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Dagný Rósa Úlfarsdóttir.

Skagstrendingaball !

Halló halló ! Skagstrendingar ungir sem aldnir ! Nú endurvekjum við gömlu góðu stemminguna með stórdansleik laugardaginn 7 maí kl. 22:00 í Skaftfellingabúð Laugavegi 178 hljómsveit Hilmars Sverrissonar sér um fjörið. Óvæntar uppákomur að hætti Skagstrendinga mætum öll með góða skapið. Nefndin. Valdi Hún & Reynir Sig. 894-1388 & 820-6006

Næsti hreppsnefndarfundur

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps þriðjudaginn 26. apríl 2005 á skrifstofu hreppsins kl 800. Dagskrá: 1. Grunnskólinn – umsóknir um stöðu skólastjóra. 2. Leikskólinn – drög að samningi við Skagabyggð um rekstur leikskólans. 3. Sameining sveitarfélaga. 4. Byggðakvóti. 5. Bréf: a) Siglingastofnunar, dags. 15.03.2005 b) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 15.03.2005. c) Formanns jafnréttis og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar, 1.04.2005. d) Samvinnunefndar um svæðisskipulag í A-Hún, dags. 12.04.2005. e) Sóknarnefndar Hólaneskirkju dags. 19.04.2005 6. Fundargerðir: a) Skólanefndar, 23.03.2005 b) Húsnæðisnefndar, 29.03.2005. c) Hafnarnefndar 20.04.2005. d) Stofnfundar um Hollvinasamtök HSB, dags. 15.03.2005. 7. Önnur mál. Sveitarstjóri

Sumardagurinn fyrsti hjá FISK á Skagaströnd

Landvinnsla FISK á Skagaströnd var með opin dag og bauð í heimsókn í vinnsluna, sumardaginn fyrsta. Þar var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt. Starfsfólk vinnslunnar stóð að skemmtilegri kynningu á afurðum og vinnsluaðferðum og sýndi hvernig fiskurinn er meðhöndlaður í vinnslunni. Andrúmsloftið var svo gert léttara með lifandi tónlist og einnig boðið upp á sælkerarétti úr saltfiski svo og fiskisúpu. Í hluta vinnslusalarins var uppi myndlistasýning leikskólabarna sem þau unnu eftir heimsókn í vinnsluna fyrr í vikunni. Aðalviðfangsefni þeirra í myndgerðinni var fiskur, einkum saltfiskur og óhætt að segja að túlkun þeirra á viðfangsefninu hafi verið lífleg og skemmtileg. Fjöldi fólks lagði leið sína í landvinnsluna í blíðunni á sumardaginn fyrsta og greinilegt að fólk kunni vel að meta framtak FISK og það sem í boði var.

Kynning á iðnfræði í fjarnámi frá HR í Námsstofunni laugardaginn 23. apríl

Haldinn verður kynningarfundur á iðnfræðinámi frá Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 23. apríl kl. 14:00 – 16:00. Kynningin fer fram í fjarfundi í Námsstofunni á Skagaströnd, Mánabraut 3, Námsstofunni á Hvammstanga, Höfðabraut 6, Námstofunni Gránugötu 24, Siglufirði og SÍMEY, Þórsstíg 4 á Akureyri og eru allir áhugasamir velkomnir. Markmið iðnfræðináms HR er að styrkja stöðu nemenda á vinnumarkaði og gera þá hæfari til að takast á við fleiri og fjölbreyttari störf. Iðnfræðin er í boði hjá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og er hagnýtt 45 eininga nám á háskólastigi. Iðnfræði er eingöngu kennd í fjarnámi og er gert ráð fyrir að námið taki þrjú ár samhliða vinnu. Með fullu námi má ljúka iðnfræði á einu og hálfu ári. Skilyrði fyrir inngöngu er iðnmenntun að viðbættri einni önn á frumgreinasviði HR eða sambærilegur undirbúningur. Námsstofan á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson