Fréttir frá leikskólanum Barnabóli 29. september 2006

Ný eldhúsálma og fleira Í vor kom Magnús sveitarstjóri ásamt Braga tæknimanni frá Stoð ehf í heimsókn á leikskólann Barnaból. Erindið var að mæla upp eldhús leikskólans í því augnarmiði að stækka það út undir þakið sem fyrir var yfir pallinum. Magnús og Bragi fóru strax á fullt að mæla og finna hornrétta fleti á meðan Þórunn leikskólastjóri reyndi að sjá fyrir sér hvaða skápa og skúffur best væri að velja inn í nýtt eldhús. Eftir mælingar og umræður var ákveðið að fara í framkvæmdir og stækka eldhúsið sem verið hefur óbreytt frá 1977 og orðið of lítið og óhentugt fyrir starfsemi í dag. Á s.l. ári var eldað fyrir um 44 börn og 7 starfsmenn í eldhúsinu sem í upphafi var eingöngu ætlað til að framreiða nesti úr og ekki gert ráð fyrir rekstri stórs mötuneytis. Framkvæmdir hófust í júní og fyrir sumarfrí leikskólans var búið að steypa nýja gólfplötu, smíða glugga og veggeiningar og panta innréttingu frá Ikea. Í ágúst var hafist handa við að byggja nýju „álmuna“ við þá gömlu og fram í september einkenndist miðjuálma leikskólans af umgangi iðnaðarmanna, miklu ryki, límlykt, hamarshöggum og vélsagarhljóði. Föstudaginn 22. september var verkinu lokið og nýja eldhúsið var síðan opnað með formlegum hætti 25. september. Elsta og og yngsta barn leikskólans, drengur og telpa, þau Auðunn Árni Þrastarson 5,8 ára og Halldóra Eiríksdóttir 2,1 árs klipptu á borða og þar með var eldhúsið tekið í notkun við fagnaðarlæti viðstaddra. Leikskólabörnum (en þau hafa fylgst með framkvæmdum frá upphafi af miklum áhuga), starfsmönnum leikskólans og hreppsnefnd Höfðahrepps var boðið að þiggja léttar veitingar að athöfn lokinni. Almenn ánægja er með hvernig til hefur tekist með fyrirkomulag, nýtingu og útlit á nýja eldhúsinu og þó stækkunin sé kannski ekki mikil í fermetrum talið (um 12-13 fermetrar) er þetta góð stækkun og mikil breyting, mun rýmra og innréttinging stærri og hentugri. Trésmiðja Helga Gunnarssonar á Skagaströnd sá um verkið og aðalsmiðir á staðnum voru Einar Gunnarsson og Sigurður F. Björnsson. Stoð ehf á Sauðárkrók sá um að teikna nýbygginguna og Björn Hallbjörnsson frá Neistanum ehf sá um raflagnir. Og þökkum við öllum sem komu að verkinu kærlega fyrir gott starf. Vetrarstarf Barnabóls 2006-2007 er fjölbreytt að vanda og ýmsar nýjungar í gangi. T.d. verða sérstakir listgreinadagar einu sinni í mánuði sem viðbót við annað listrænt starf. Á þessum dögum verður glímt við listræna sköpun af ýmsu tagi t.d. flutt leikrit, söngleikir, málaralist og hönnun svo eitthvað sé nefnt. Í vetur verður ekki leikfimikennari með okkur í íþróttahúsinu á þriðjudögum en starfsmenn sjá um skipulag tímanna. Börnum á leikskólaaldri úr Skagabyggð, sem ekki eru á leikskólanum, er boðin þátttaka í leikfiminni eins og undanfarin ár. Þar sem aðeins 3 börn koma í leikskólanum kl. 13-17 og ekki er skynsamlegt að vera með leikfimi fyrir þetta fá börn koma þau líka á milli kl. 11-12 í þriðjudagsleikfimina. Með kveðju frá Barnabóli Þórunn Bernódusdóttir Leikskólastjóri

Arnar HU 1 kominn úr slipp

Frystitogarinn Arnar HU 1 hélt til veiða í gær eftir að hafa verið í slipp á Akureyri síðan um mánaðarmót. Arnar er því að hefja veiðar á nýju kvótaári en á síðasta kvótaári sem lauk 31. ágúst sl. veiddi skipið fyrir um 1.000 milljónir króna. Í slippnum var fyrst og fremst verið að sinna almennu viðhaldi og m.a. var skipið málað og fékk nýjan lit þar sem það var málað í einkennislitum skipa Fisk seafood. (ljósm: ÁGI)

Áhugaverð námskeið

Samvil ehf - símenntun býður upp á áhugaverð námskeið í fjarnámi. Sjá nánar www.simnet.is/samvil eða www.fjarkennsla.com. Skráning á námskeið er á vefnum www.simnet.is/samvil, í tölvupósti samvil@simnet.is eða í síma 5537768 eða 8987824. Námskeið sem boðið er upp á í október og nóvember eru: 9.okt.- 6.nóv. Vefsíðugerð í FrontPage. Námskeið í gerð heimasíðu skóla/bekkja. 4 vikur. Staðbundin lota haldin 14.okt., kl. 10.00-15.00. Verð 30.000,-kr. Umsjón: Kristín Helga Guðmundsdóttir, M.Ed. í kennslufræði og upplýsingatækni. 11.okt.-6.des. Heildstætt bókhalds- og tölvubókhaldsnámskeið, 8 vikur. Verð 48.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur 16.okt.-13.nóv. Bókhald II (Framhaldsnámskeið í hefðbundnu bókhaldi), 4 vikur. Verð 25.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur 6.nóv.-4.des. Skattskil fyrirtækja, 4 vikur. Verð 25.000,-kr. 4 vikur. Verð 25.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur 20.nóv.-18.des.Tölvubókhald. Breytt/endurhannað, 4 vikur. Verð 25.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur ------------------------------------- F.h. SamVil ehf. Kristín Helga Guðmundsdóttir, http://www.simnet.is/samvil http://www.fjarkennsla.com http://www.konur.is samvil@simnet.is konur@konur.is gsm 898 7824 s. 553 7768 -------------------------------------

Fiskmarkaður Örva hefur selt 4000 tonn

Alls hefur Fiskmarkaðurinn Örvi selt 4000 tonn af fiski á þessu ári sem er 800 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Af þessum 4000 tonnum hefur 3500 tonnum verið landað á Skagaströnd. Aflinn kemur fyrst og fremst af hraðfiskibátum af stærðinni 6-15 tonn en 20 - 30 bátar hafa stundað veiðarnar að jafnaði í sumar á Skagaströnd og eru flestir þeirra á línu. Einnig hafa nokkrir dragnótabátar landað afla sínum hér. Sala fiskmarkaðarins hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti. Þá hefur hlutfall ýsu í sölunni vaxið mjög frá árinu 2002 og það sem af er þessu ári er sala á ýsu orðin meiri en á þorski. Aðalveiðitíminn hefur lengst jafnt og þétt þó toppurinn hafi alltaf verið í ágúst en síðastliðinn ágústmánuður var söluhæsti mánuðurinn frá upphafi.

Ævintýrið Skrapatungurétt

Fréttatilkynning Dags. 7. september 2006 Ævintýrið Skrapatungurétt Stóðsmölun og réttir í A-Húnavatnssýslu Dagana 16. og 17. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur geta leigt hesta hjá heimamönnum eða mætt með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 16. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Athugið að ekki er aðstaða til að geyma hross yfir nótt á Strjúgsstöðum að þessu sinni. Aðstaða verður til að geyma bíla og taka niður hross við sandnámu við Strjúgsstaði (norðari afleggjari). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal er hópurinn um kl 14. Þar hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu. Ferðamannafjallkóngur líkt og í fyrra verður Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Honum til halds og trausts að þessu sinni verður Ferðamannafjalldrottningin Jóna Fanney Friðriksdóttir bæjarstjóri á Blönduósi. Þau eru bæði heimavön á þessum slóðum og munu sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín. Á laugardagskvöldinu kl 20 verður grillað við reiðhöllina á Blönduósi. Þeir sem vilja vera með í grillpartýinu er beðnir að panta fyrir hádegi föstudaginn 15.september í síma 898 5695 eða 891 7863. Að sjálfsögðu verður spilað á gítar og sungið að hestamannasið. Partýstemningin nær svo hámarki á dansleik síðar um kvöldið í Félagsheimilinu Blönduósi. Þar leikur fyrir dansi stuðhljómsveitin Signýja. Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 11. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna karlar og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum. Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað, sungið og skemmt sér að sið Íslendinga. Allir gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um gistimöguleika eða aðra þjónustu og bókanir í stóðsmölun, hjá Upplýsingamiðstöð ferðamála á Blönduósi: ferdamal@simnet.is , sími 452 4520 og í síma 891 7863 eða í netfangi haukur@ssnv.is.

Úrslit á Opna KB banka mótinu í golfi á Skagaströnd.

Mótið sem jafnframt er minningarmót um Karl Berndsen var haldið laugardaginn 19. ágúst. Keppendur voru 44 úr 11 golfklúbbum. Leiknar voru 18 holur með og án forgjafar í frábæru veðri. Úrslit urðu sem hér segir: Konur án forgjafar Árný Árnadóttir GSS 87 högg Ingibjörg Guðjónsdóttir GSS 99 - Dagný M Sigmarsdóttir GSK 100 - Karlar án forgjafar Svanþór Laxdal GHR 71 - Guðmundur Rúnar Vífilsson GSS 84 - Rafn I. Rafnsson GSS 86 - Konur með forgjöf Dagný M. Sigmarsdóttir GSK 74 - Ingibjörg Guðjónsdóttir GSS 77 - Guðrún Jónsdóttir GÓS 78 - Karlar með forgjöf Svanþór Laxdal GHR 71 - Guðmundur Rúnar Vífilsson GSS 73 - Sverrir B.Berndsen GSK 76 - Aðalstyrktaraðili mótsins var KB banki Blönduósi.

Kántýdagar - fjölskylduhátíð norðursins

Bæjarhátíðin "Kántrýdagar" tókst í alla staði mjög vel. Í sólskini og logni föstudagsins 18. ágúst komust íbúarnir í ótrúlega gott skreytingaskap og út um allan bæ flugu upp skreytt bönd, blöðrur, seríur og hvað eina sem til hátíðabrigða mætti verða. Yngsta kynslóðin hóf hátíðina með því að halda "Smábæjarhátíð" og ljúka með því kofasmíði sumarsins. Íbúar Smábæjar tóku af myndarskap á móti gestum og gangandi og buðu ýmsar veitingar m.a. djús, poppkorn og saltstangir og sýndu húsakynni sín með þeirri einlægni sem börnum einum er lagið. Sjávarréttasúpa að hætti Steindórs var svo í boði á hátíðarsvæðinu og bragðaðist auðvitað frábærlega við gítarundirleik Hjartar, Dóra, Jonna og Valda Skafta sem tók einnig lagið í gömlu slögurunum. Þegar leið á föstudagskvöldið var orðinn húsfyllir í Viðvíkurkaffi þar sem þeir félagar Gunnar Rögnvaldsson og Jón Hallur Ingólfsson ásamt Írisi Olgu Lúðvíksdóttur sungu, léku og sprelluðu í bráðskemmtilegu uppstandi. Í Kántrýbæ héldu félagar í hljómsveitinni Sólon upp góðri stemningu fram á nótt. Laugardagurinn heilsaði lognkyrr í sólskini og þáttakendur í dorgveiðikeppninni gátu speglað sig í veiðsvæðinu sem rétt gáraðist við að færi var dregið upp með gapandi marhnúti eða fýllinn tók auka sundsprett til að góma beitu sem dottið hafði af öngli. Andrúmsloftið í kringum veltibíl Sjóvá var dálítið meira spennuþrungið þar sem börn og fullorðnir biðu spennt eftir að komast að því hvernig það er að vera í bíl sem veltur. Ekki síðri var stemningin í kringum hoppikastala þar sem kófsveittir krakkar veltust um á sokkaleistunum, í sólskini, liðlangan daginn. Á golfvellinum fór fram opið golfmót sem kennt var við Kb banka og var jafnframt minningarmót um Karl Berndsen. Góð þátttaka var í mótinu og þátttakendur ánægðir í fallegu umhverfi á góðum degi. Dagskrá á hátíðarsvæði var leidd af leikkonunni og skemmtikraftinum Helgu Brögu sem birtist sem Lóa ókurteisa og magadansmær sem sýndi og kenndi ungum sem öldnum afrískan dans. Dagskráin um miðjan daginn einkenndist að öðru leyti af heimafengnu efni þar sem leikskólakórinn söng nokkur lög og keppendur í söngvakeppni grunnskólans "Garg" endutóku vinningsnúmer keppninnar. Lilli klifurmús og Mikki refur áttust einnig við í kafla úr leikritinu Dýrin í Hálsaskógi. Sá kafli var dálítið áður en öll dýrin í skóginum ákváðu að verða vinir og Mikki var því bæði svangur og í mjög miklum veiðihug. Hljómsveitin S.P.O.R. átti síðasta tóninn í þessum hluta dagskrárinnar og spiluðu "Skandinavískt Metal Rokk". Kvölddagskráin var einnig undir stjórn Helgu Brögu sem var nú hætt að vera Lóa ókurteisa en sagði þess í stað sögur af skyldfólki sínu sem var ókurteisara en Lóa sjálf og dansaði sjöslæðudans með einni slæðu sem endaði auðvitað með skelfingu. Auk Helgu Brögu kom fram hæfileikaríkt heimafólk. Þar má nefna Eygló Amelíu sem söng gullfallega nokkur lög við undirleik Hjartar frænda síns og Angelu Basombrio sem flutti frábæra tónlist við gítarundirleik Hans Birgis. Idolstjarnan Briet Sunna mætti svo á svæðið eða öllu fremur í hátíðartjaldið og söng sinni björtu rödd nokkur kántrýlög við mikin fögnuð. Inni á gistiheimilinu Dagsbrún var boðið að horfa á gamlar myndir frá Skagaströnd sem var varpað var upp með skjávarpa. Vakti þessi myndasýning mikla lukku og umræðu um fólk og fyrirkomulag fyrri ára. Hljómsveitin Oxford hóf kvölddagskrána með kraftmiklum tónlistarflutningi í hátíðartjaldinu og þeir enduðu einnig daginn eða öllu heldur nóttina með dúndrandi dansleik í Kántrýbæ. Fer ekki sögum af þeirri skemmtun en nokkrir voru glærleitir til augnanna sem mættu til Gospelmessunnar á sunnudeginum þótt hún væri ekki fyrr en eftir hádegi. Talandi um gospellmessuna þá verður ekki sögð saga af Kántrýdögum öðru vísi en nefna þann frábæra og ómissandi dagsrkárlið. Óskar Einarsson kórstjóri og gospelmeistari mætti kl 11 á sunnudagsmorgni með tvær öflugar söngkonur úr Gospellkór hvítasunnusafnaðarins og hóf æfingar með kirkukórunum á þeim lögum sem átti að flytja við messuna kl 13.30. Þessa stund virtust hann og kórinn hafa notað vel því hvergi bar skugga á í líflegum og bráðskemmtilegum tónlistarflutning við sjálfa messuna. Séra Guðmundur Karl Brynjarsson messaði og rifjaði upp gamla takta frá því á gospelmessum Kántrýhátíða með smellnum athugasemdum og frásögnum sem hann var ótrúlega hittinn að finna trúarlega skírskotun. Í stuttum máli sagt þá varð úr þessu öllu frjálsleg, lifandi og skemmtileg en samt mjög hátíðleg athöfn sem gestir nutu til hins ítrasta. Með gospellmessunni lauk dagskrá Kántrýdaga sem tókust í alla staði mjög vel. Það var farið af stað með það markmið að halda skemmtun fyrir íbúana og þá gesti sem vildu njóta daganna með þeim. Allmargir sáu ástæðu til að koma og líta á einstaka dagskrárliði eða dvelja helgina alla og vonandi hafa þeir ekki verið vonsviknir. Íbúar á Skagaströnd skemmtu sér í það minnsta vel og það var jú stóri tilgangurinn með þessu öllu. Veðurblíðan var líka einstök og má kannski segja að gott viðmót hátíðargesta og frábært veður hafi verið stóru dagskrárliðirnir sem gerðu Kántrýdaga í heild að gleðidögum.

Framkvæmdum lokið við heilsugæslustöð á Skagaströnd 18.08.2006

Byggingu heilsugæslu á Skagaströnd er lokið og fór lokaúttekt fram föstudaginn 11. ágúst 2006. Byggingin stendur austan við hús dvalarheimilisins Sæborgar og tengist því með tengigangi. Húsið er 267 m² timburhús, byggt á steyptri grunnplötu með sökkulbitum. Kemur þessi aðstaða í stað þeirrar sem heilsugæslan hefur haft til afnota á Skagaströnd og mun hýsa skrifstofu læknis og hjúkrunarfræðings ásamt tilheyrandi aðgerða- og rannsóknarstofu, sjúkraþjálfun, auk móttöku og biðstofu. Á verkefniskynningu FSR er fjallað nánar um verkefnið. (Frétt á www.fsr.is )

Opið Golfmót á Háagerðisvelli, Skagaströnd 19. ágúst.

Opna KB banka mótið/minningarmót um Karl Berndsen verður laugardaginn 19. ágúst. Leiknar verða 18 holur með og án forgjafar í karla og kvennaflokki. Skráning á www.golf.is og í síma 8925089. Golfklúbbur Skagastrandar(GSK)

Kántrýdagar á Skagaströnd 18.-20. ágúst

Undirbúningur fyrir fjölskylduhátíðina “Kántrýdagar á Skagaströnd” er vel á veg komin. Stefnt er að því að skapa notalega og skemmtilega fjölskyldustemningu sem hefst á föstudagskvöldi með því að gestum og gangandi verður boðið í sjávarréttasúpu í tjaldi á hátíðarsvæðinu. Súpan verður að hætti Steindórs meistarkokks sem er sérfræðingur í sjávarréttum og heimsmeistari í pizzubakstri. Laugardaginn 19. ágúst verður ýmislegt til skemmtunar svo sem dagskrá fyrir yngri kynslóðina um sem hefst kl 11 með dorgveiðikeppni. Um miðjan daginn verður fjölskylduskemmtun á palli þar sem boðið verður upp á ýmis skemmtiatriði undir stjórn hinnar landskunnu Helgu Brögu. Á laugardagskvöldi verður síðan dagskrá á palli þar sem ýmsir góðir skemmtikraftar munu koma fram. Bæði á föstudags og laugardagskvöldi verða dansleikir og kántrýstemming í Kántrýbæ. Ekki liggur fyrir hvort hin góðkunna gospelmessa verður á sunnudeginum en það mun skýrast á næstu dögum. Leiktæki fyrir börn verða á hátíðarsvæðinu og verða sett upp á föstudag kl 18 og eftir hádegi á laugardag og fram eftir kvöldi. Unnið er að útgáfu dagskrár hátíðarinnar og verður hún send í hús í héraðinu á næstu dögum og birt með ýmsum hætti.