Troskvöld Lions á Skagaströnd.

Um helgina stóð Lionsklúbbur Skagastrandar fyrir Troskvöldi í Fellsborg. Fram voru bornir 10 sjávarréttir m.a. kúlaður vestfirskur steinbítur, skötustappa í fiðringi og siginn norskur þorskur. Eldamennska og framreiðsla var öll unnin af klúbbfélögum. Yfirkokkar voru Gunnar Reynisson og Sigurbjörn Björgvinsson. Klúbburinn nýtur þess oft að innan vébanda hans eru frábærir matreiðslumenn. Fjölmargir gestir voru mættir á Troskvöldið m.a frá Lionsklúbbi Blönduóss. Auk glæsilegs veisluborðs var boðið upp á tónlist og gamanmál. Sr. Gísli Gunnarsson frá Glaumbæ í Skagafirði flutti ræðu kvöldsins. Þótti Troskvöldið takast mjög vel. Er ljóst að þessi viðburður er að festast í sessi í menningarlífi okkar. Lionsklúbbur Skagastrandar var stofnaður árið 2004. Hefur klúbburinn þegar beitt sér fyrir mörgum góðum málum. Eitt af stærstu verkefnum klúbbsins í dag er að koma upp útsýnisskífu á Höfðanum. Formaður Lionsklúbbs Skagastrandar er Guðmundur Finnbogason

Námskeið í skrifstofutækni

Nú er að hefjast námskeið í skrifstofutækni á vegum sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu, Svæðisvinnumiðlunar og stéttarfélaga. Námskeiðið er sett upp í samstarfi við Farskóla Norðurlands vestra og kallað: Skrifstofubrautin Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga fyrir að bæta stöðu sína með tilliti til þess að ný skrifstofustörf eru væntanleg bæði á Skagaströnd og Blönduósi. Kennslan fer fram í grunnskólanum á Blönduósi, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl 19.00 – 22.00. Námið hefst 20. febrúar og stendur til 30. maí 2006. Ákveðið hefur verið að þeir sem að námskeiðinu standa muni greiða niður kostnað og að hver þátttakandi greiði aðeins 10.000 kr. í námskeiðsgjald. Á “skrifstofubrautinni” verður lögð áhersla á eftirtaldar námsgreinar: Sjálfstraust og samskipti Námstækni Windows Fingrasetningu og þjálfun Ritvinnslu Töflureikni Tölvupóst og internet Verslunarreikning Bókhald Þjónusta við viðskiptavini Framkvæmdaáætlun Ferilsskrá Skráning og nánari upplýsingar eru hjá Svæðisvinnumiðlun á Blönduósi í síma 455 4200 og hjá Farskólanum í síma 455 6010. Reiknað er með að takmarkaður fjöldi nemenda komist að og eru áhugasamir því hvattir til að skrá sig hið fyrsta.

Arnar HU-1 með mikinn afla úr Barentshafi.

Arnar landaði 372 tonnum af frystum afurðum í sl. viku á Skagaströnd, aflaverðmæti var um 115 m.kr. Þess má geta að upp úr sjó var aflinn um 630 tonn. Skipið var 30 daga í túrnum og þar af hafa farið um 23 dagar í veiðar. Afli á veiðidag var því um 27 tonn. Uppistaða aflans var þorskur. Þessi góði afli var sóttur í Barentshaf.

Bréf frá Lionsklúbbi Skagastrandar vegna styrktarsjóðs

Ágætu Skagstrendingar og nærsveitamenn Lionsklúbbur Skagastrandar hefur opnað reikning til styrktar einum af íbúum okkar, Dóru Sveinbjörnsdóttur, sem hefur greinst með alvarlegan sjúkdóm. Baráttan við veikindi og fjarvera frá vinnu mun óhjákvæmilega hafa fjárhagslega erfiðleika í för með sér. Lionsklúbburinn telur mikilvægt að fólk sem lendir í slíkum erfiðleikum geti nýtt alla sína orku til að ná bata og að þungar fjárhagsáhyggjur trufli ekki batahorfur. Lionsklúbburinn hefur stofnað reikning nr. 0160-05- 63000 kt. 700704-3270 í Landsbankanum á Skagaströnd þar sem tekið er á móti frjálsum framlögum sem að renna til þessa verkefnis. Tryggt er að ekki verði hægt að rekja hvaðan framlög berast. Með von um góðar viðtökur Lionsklúbbur Skagastrandar

Næsti fundur hreppsnefndar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í hreppsnefnd Höfðahrepps mánudaginn 6. febrúar 2005 á skrifstofu hreppsins kl 1630. Dagskrá: 1. Þriggja ára áætlun Höfðahrepps. 2. Snorraberg ehf a) Rekstrarreikningur 2005 b) Uppgjör byggingakostnaðar 3. Brunavarnaáætlun slökkviliðs Skagastrandar 4. Bréf: a) Útflutningsráðs Íslands, dags. 6. janúar 2006. b) Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 21. desember 2005. c) Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 26. janúar 2006 d) Varasjóðs húsnæðismála, dags. 4. janúar 2006. e) Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi, dags. 2. janúar 2006. f) Rarik, dags. 28. desember 2005. g) Varasjóðs húsnæðismála, dags. 30. desember 2005. h) Lionsklúbbs Skagastrandar, dags. 28. desember 2005 5. Fundargerðir: a) Skólanefndar, 9. janúar 2006. b) Leikskólanefndar, 10. janúar 2006. c) Héraðsnefndar, 15. desember 2005. d) Aðalfundar Félagsþjónustu A-Hún, 15. desember 2005 e) Heilbrigðisnefndar Nl.vestra, 16. janúar 2006. f) Norðurár bs. 9. janúar 2006. g) Norðurár bs. 17. janúar 2006. 6. Önnur mál. Sveitarstjóri

Steypuvinna á miðjum þorra

Starfsmenn Trésmiðju Helga Gunnarssonar steyptu í dag plötu undir nýja Heilsugæslu sem er í byggingu við Ægisgrund. Einmuna veðurblíða hleypti mönnum kapp í kinn og hefur verið mikill gangur í útivinnu síðustu daga á miðjum þorra. Steypunni er ekið frá Sauðárkróki og er steypt í einu lagi, sökkull og plata. Myndirnar sem teknar voru í morgun við upphaf steypuvinnunar eru teknar af Árna Geir Ingvarssyni.

Þorrablót leikskólans Barnabóls 2006

Árlegt Þorrablót leikskólans var haldið 26. janúar s.l. Með hverju ári sem líður verða börnin vanari þorramatnum. Eða eins og við segjum gjarnan „gamla íslenska matnum“ og börnunum líkar yfirleitt vel við þennan mat og blessaður harðfiskurinn stendur upp úr og ekki spillir fyrir að hann er verkaður hér á Skagaströnd. Sem dæmi um aukanr vinsældir gamla matsins má nefna að í fyrra gerðu þau lifrarpylsu og blóðmörnum lítil skil en í ár kláraðist lifrarpylsan. Sum börnin borða hákarl af bestu lyst og önnur borða hann ekki en flest leggja í að smakka hann. Og það er einmitt það sem við gerum á leikskólanum, við smökkum allan mat áður en við segjum til um hvort okkur líkar hann eða ekki. Því hvernig eigum við að vita að eitthvað er gott ef við þorum ekki að smakka það. Einn drengur smakkaði hákarl en sagði að hann væri ekki góður og starfsmaður spurði hvort hann hefði smakkað hákarl áður; „ já, og mér finnst hann miklu betri hjá pabba því hann sýður hann“ og eins og allir vita er ekki sama hvernig matur er matreiddur sem hefur sitt að segja um bragðgæðin! Nú og ein telpan var sýnilega ekki hrifin af hákarlinum en fann út að hún vildi alveg borða hann, en því miður væri hún með ofnæmi fyrir hákarli og gæti ekki borðað hann. Á þorrablótinu var ekki bara etið, það voru sungin gömul íslensk lög, börnin gerðu þorrablótskórónur og það var dansað og skemmt sér. Börnin sem áttu að fara heim um kl. 12 fengu að vera áfram til kl. 13 sem auðséð var að þeim fannst gaman. Á Sæbóli, yngstu barna deildinni, tóku börnin virkan þátt en borðuðu heldur minna en af Þorramatnum en eldri börnin en vonandi eigum við eftir að hafa þau í nokkur ár í viðbót til að kenna þeim að meta þennan frábæra mat. Með kveðju frá Barnabóli Þórunn Bernódusdóttir Leikskólastjóri

Svið og súrmatur

Kvennfélagskonur hafa staðið í ströngu við undirbúning þorrablótsins sem fram fer á laugardaginn í Félagsheimlinu Fellsborg. Hefur þorrailmurinn smátt og smátt tekið völdin í sölum hússins auk þess sem hlátrasköll og skarkali sem berst ofan af sviðinu, frá þorrablótsskemmtinefndarfólki, gefur vísbendingar um að allt sé að verða klárt. Ekki hefur farið miklum sögum af þeim atriðum sem taka á fyrir enn víst má telja að stiklað verði á helstu viðburðum ársins. Kvennfélagskonur höfðu á orði að matarborðið ætti að verða í hefðbundnum stíl svo það er ekki hægt annað en að láta sér hlakka til.

Svipmyndir frá Skagaströnd

Áhugaljósmyndarar eiga oft í fórum sínum einstakt safn mynda sem segja sögu liðinna ára. Skagaströnd státar af mörgum slíkum og hefur einn þeirra, Árni Geir Ingvarsson nú komið sér upp heimasíðu með eigin ljósmyndum og myndum úr safni Herberts Ólafssonar. Það er ómetanlegt fyrir söguna að eiga aðgang að þessum myndum og gaman af þegar það er opnað öllum með aðgangi á netinu. Árni Geir hefur í gegnum tíðina tekið mikið af myndum og hafa þær mikið gildi þar sem þær segja sögu og þær breytingar sem skýrast koma fram þegar litið er um öxl. Hægt er að heimsækja myndasíðu Árna Geirs á slóðinni: http://www.123.is/arnigeir/default.aspx?page=albums

Hljómsveitin “SPOR” vann til verðlauna í Vestmannaeyjum

Laugardaginn 21. janúar keppti hljómsveitin “SPOR” frá Skagaströnd í árlegri hljómsveitarkeppni, “Allra veðra von”, í Vestmannaeyjum. Skemmst er frá því að segja að Skagstrendingarnir ungu stóðu sig frábærlega og urðu í öðru sæti af þrettán hljómsveitum í keppninni. Verðlaunin eru að spila á “Þjóðhátíð 2006”. Hljómsveitina “SPOR” skipa fjórir ungir menn, Almar söngvari, Ómar gítarleikari, Sævar trommuleikari og yngsti meðlimurinn er Kristján bassaleikari. Hljómsveitin spilar svokallað “Heavy Metal” rokk og hefur verið iðin við að semja lög. Umfjöllun um þessa keppni var í þættinum “Rokkland” á Rás 2 á sunnudaginn og verður þátturinn endurtekinn eftir 10 fréttir þriðjudaginn 24. janúar. Tómstunda- og íþróttafulltrúi.