Námskeið í olíumálun í Nesi listamiðstöð

Nes listamiðstöð býður upp á námskeið í olíumálun helgina 14. til 15. nóvember. Kennari á námskeiðinu er Halldór Árni Sveinsson en hann hélt námskeið hjá Nesi listamiðstöð í júní 2008 við góðan orðstír. Halldór Árni sem kennir að öllu jöfnu fjölmiðlun við Flensborgarskóla í Hafnarfirði hefur jafnframt kennt olímálun við Námsflokka Hafnarfjarðar og víðar síðustu tuttugu árin. Á námskeiðinu, sem er ætlað bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir, verður farið í val á myndefni, myndbyggingu og blöndun, notkun og meðferð olíulita. Námskeiðið í olíumálun hjá Nesi listamiðstöð er liður í verkefninu Lifandi list, sem styrkt er af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.  Nánariupplýsingar fást hjá Nesi listamiðstöð, nes@neslist.is, og í síma 452 2816.

Unnið að endurbyggingu Tunnunnar

Lokið er nú við að endurnýja stærsta hluta af ytra byrði braggans sem í daglegu tali er nefndur Tunnan en var áður samkomuhús Skagastrandar. Að verkinu hefur Trésmiðja Helga Gunnarssonar ehf. unnið ásamt starfsmönnum áhaldahúss Skagastrandar. Fyrirhugað er að gera braggann upp í upprunalegri mynd og endurvekja menningarhlutverk hans með því að tengja hann við þau verkefni sem nú eru í uppbyggingu í menningarmálum á staðnum. Bragginn stendur á þeim reit sem sveitarfélagið hefur markað undir menningar- og safnastarfsemi. Í framhaldi af endurgerð ytra byrðis hússins verður unnið að endurbótum og endurgerð innréttinga hússins. Forsagan Samkomuhúsbragginn var reistur á Skagaströnd árið 1945 en hann hafði áður verið notaður sem hjúkrunarskýli á Blönduósi á hernámsárunum. Bragginn var keyptur fyrir fimm þúsund krónur og honum fundinn staður við aðalgötu bæjarins. Hlutverk hans var að leysa úr brýnni þörf á samkomuhúsi fyrir bæjarfélagið. Bragginn er, eins og nafnið og útlitið bendir til, herbraggi, byggður með hefðbundnu sniði slíkra bygginga. Hann er 22,1 m x 6,4 m eða 141,4 fm, byggður á steyptri undirstöðu og upphaflega með trégólfi og litlu leiksviði í öðrum enda en anddyri, salerni, fatahengi og klefa fyrir kvikmyndasýningarvélar í hinum endanum. Samkomustaðurinn Þótt kaupin á setuliðsbragganum hafi verið álitin skammtímalausn á sínum tíma var hann aðalsamkomustaður Skagstrendinga um aldarfjórðung. Í honum voru, á tímabilinu 1945-1970, haldnar nær allar samkomur á staðnum og má þar nefna: leiksýningar, kvikmyndasýningar, fundi, dansleiki, erfidrykkjur og íþróttakennslu skólans. Frá 1970 hefur hann hins vegar verið notaður til ýmissa annarra þarfa og hin síðari ár gegnt hlutverki áhaldahúss sveitarfélagsins. Menningarsögulegt gildi Bragginn, Samkomuhúsið eða Tunnan eins og hann hefur ýmist verið kallaður, hefur því verið órjúfanlegur hluti byggðar og mannlífs í 64 ár og hefur þar af leiðandi mikið menningarsögulegt gildi fyrir Skagaströnd og Skagstrendinga. Auk þess menningargildis sem bragginn hefur fyrir Skagaströnd og Skagstrendinga er hann einn fárra uppistandandi bragga eftir sem Íslendingar tóku til annarra nota eftir að setulið breska hersins hvarf á braut í stríðslok. Braggar eru ekki varanlegar byggingar á nútíma mælikvarða og hafa flestir orðið ónýtir eða eru að verða það. Í raun gildir það sama um samkomuhúsbraggann á Skagaströnd en þó virðist burðargrind hússins vera það heilleg að vel gerlegt er að endurgera hann í upprunalegri mynd. Bragginn er því bæði menningarsögulegur fyrir samfélagið og einn fárra stríðsminja á þessu svæði.

Þokkaleg nýting á sólinni í skammdeginu

Í daglegu lífi skiptir sólin öllu. Hún er uppspretta lífsins og endalaust getum við talað um hana, notið geisla hennar, horft á hana kvölds og morgna, kvartað undan henni þegar hún lætur ekki sjá sig og lofað þá hún loksins birtist. Hvort sem sólin er sjáanleg heldur hún sömu göngu sinni dag eftir dag, ár eftir ár. Mannsaugað greinir enga breytingu á hringrásinni nema ef vera skyldi með ofurnæmum tækjum eða sjónaukum sem segja til um upphafið fyrir svona á að giska „skrilljörðum“ ára og jafnvel endalokunum eftir álíka tíma. Tilviljun kallast það að vera óvart á réttum stað á réttum tíma þegar einhver sá atburður gerist sem áhugaverður þykir. Svo sem eins og að vera staddur á bryggjum Skagastrandar á nákvæmlega þeim stað er sólin sendir geisla sína yfir Flóann og beint í stóru gluggana á íþróttahúsinu sem samstundis endurvarpa þeim aftur yfir út á víkina. Ef til vill er það enn meiri tilviljun að vera með myndavélina tiltæka og ná í hana tvöfaldri speglun sólargeisla. Ef til vill fer vel á því að segja að svona er bara þokkaleg nýting á sólinn í skammdeginu.

Er kisan nokkuð villiköttur?

Eins og fram kom í auglýsingu um skráningu katta 18. september sl. er reglulega ráðist í að eyða villiköttum sem annars fjölga sér margfalt. Nú stendur yfir handsömun og eyðing villikatta og því eru kattaeigendur áminntir um að skrá ketti sína og hafa þá merkta til að þeir verði ekki teknir sem villikettir. Sveitarstjóri

Fundur um atvinnutækifæri í ferðaþjónustu

Margir velta því fyrir sér hvort það sé mikill vandi að stofna og reka fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þessari spurningu og öðrum er ætlunin að svara á fundi sem haldinn verður í Fellsborg á Skagaströnd fimmtudaginn 5. nóvember næstkomandi  og hefst hann klukkan 18. Fundurinn er ætlaður þeim sem áhuga hafa á ferðaþjónustu eða eru að velta fyrir sér góðri hugmynd. Á fundinn koma nokkrir reynsluboltar sem eitt sinn áttu sér góða hugmynd og ákváðu að framkvæma hana. Þeir segja frá reynslu sinni, hindrunum og lausnum. Af þeim má margt læra enda var gott fyrirtækja einu sinni aðeins hugmynd. Fundarboðendur eru Sveitarfélagið Skagströnd, SSNV, Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi og Ferðamálasamtök Norðurlands vestra. tilgangurinn er að hvetja fólk til að kanna möguleika á aukinni ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra enda getur hún verið grundvöllur góðra atvinnutækifæra rétt eins og í Þingeyjarsýslum sem hugsanlega má taka til fyrirmyndar. Fundurinn er öllum opinn. Boðið verður upp á lítilsháttar hressingu, súpu, brauð og kaffi og er allt án endurgjalds. Fundarstjóri verður Jón Óskar Péursson, framkvæmdastjóri SSNV. Dagskrá fundarinns er sem hér segir: Setning, Adolf Berndsen oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar Getur skipulag ferðaþjónustunnar í Þingeyjarsýslum verið módel fyrir Norðurland vestra? Edward H. Huijbens forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála við Háskólann á Akureyri Afþreying, Sigurður Sigurðarson, markaðsráðgjafi á Skagaströnd Hvalaskoðunarferðir, Ásbjörn Björgvinsson Sjóstangveiði, Árni Halldórsson, Hauganesi, Árskógsströnd Gisting; hótel, gistihús og heimagisting, Stefán Haraldsson, atvinnuráðgjafi SSNV og formaður Farfugla Akstur, gönguferðir, skoðunarferðir, Kristján Eldjárn, Svarfaðardal Menningartengd ferðaþjónusta, Örlygur Kristfinnsson, Síldarminjasafninu á Siglufirði Umræður, fyrirspurnir og vangaveltur, Jón Óskar Pétursson stjórnar Fólk er hvatt til þess að láta ekki fundinn framhjá sér fara. Gera má ráð fyrir að hann standi til klukkan 21.

Náttúrufræði

Náttúrufræðikennarar Húnavatnssýslna voru boðaðir á fund þriðjudaginn 27. október í Húnavallaskóla. Markmið fundarins var að ræða saman, skiptast á verkefnum, hugmyndum og kennsluaðferðum í náttúrufræði. Kennurunum var gert að koma með kennsluáætlanir, verkefni, bækur og önnur gögn sem tengjast greininni og reynst hafa vel í kennslunni. Allir höfðu eitthvað fram að færa og jókst því hugmyndabanki kennaranna mikið. Þátttakendur ákváðu að hefja reglubundið samstarf með aðstoð netsins. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Jóhanna Stella Jóhannsdóttir, kennari Húnavöllum. Námskeiðið var haldið á vegum Fræðsluskrifstofu A- Hún. Mynd: Þátttakendur og Leiðbeinandi.

Kirkjan í bleiku

Allan október hefur Hólaneskirkja verið lýst með bleikum ljósum. Þetta er gert til að sýna á táknrænan hátt stuðning við baráttuna við brjóstakrabbamein. Fjöldi bygginga á landinu er á sama hátt orðinn bleikur þegar skyggja tekjur. Óhætt er að segja að kirkjan líti ákaflega vel út svona upplýst. Signý Ó. Richter tók meðfylgjandi myndir sem sýna ákaflega vel hversu falleg kirkjan er.  

Listin: Hinn kaldi klaki, íslandið, sjósettur

Í köldu Norður-Atlantshafinu marar hvítur klakinn. Ísland er réttnefni, bundið í viðjar frosts, ekki vottar fyrir funa. Báran blá er hins vegar ekki svo ýkja köld er hún gælir blíðlega við bláan ísinn. Atlotin eru banvæn og auðvitað missir hann smám saman tök sín á sjálfum sér og umhverfinu. Landið lætur strax á sjá og allir vita sem vilja að innan skamms muni hafið umbreyta því og allt verður sem fyrr. Kalt Norður-Atlantshafið heldur áfram iðju sinni, hin óútreiknanlega bláa bára líður áfram sem örlagavaldur lands og íss. Klakinn hverfur. Sunnan úr höfum kom brasilíska listakonan Renata Pavdovan að strönd Skagans. Hún fékk starfsmenn tveggja fyrirtækja, Vélaverkstæðis Skagastrandar og Rafamagnsverkstæðisins Neistans til að útbúa mót með útlínum Íslands. Hún frysti vatnið og í síðla dags í gær var hvítur klakinn, íslandið, flutt niður í Vík og sjósett. Fjöldi manns var vitni að því er báran bláa, sem þó var frekar grá, tók á móti ísnum, slípaði hann til, lagfærði hann, gerði straumlínulagaðra, ef svo má að orði komast. Og svo hvarf hann, varð ósýnileg viðbót fyrir Atlantshafið. Og hver er svo hin dulda merking í uppákomunni, innsetningunni svo gripið sé til orðfæris listamanna? Birting listarinnar á að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Um leið skiptir tilgangur listamannsins minna máli.   Var þarna verið að lýsa stöðu þjóðarinnar um þessar mundir? Ísland bundið í klafa skulda og efnahagurinn harðfrosinn. Framtíðin er líklega sú að skuldirnar greiðast upp og þíða kemst í efnahaginn en um leið verður landið að engu. Eða er harðfrosið landið í miskunarlausum sjó Evrópusambandsins þar sem sérkennin verða að engu og með tímanum hverfur þjóðin í haf mannfjöldans. Nöturlegar framtíðarhorfur en hver veit nema brasilíska listakonan á Skagaströnd hafi aðra, bjartsýnni og háleitari sýn með listaverkinu Ísland. Það er nú það ... 

Menningarráðið úthlutar styrkjum í Kántrýbæ

Fjórir aðilar á Skagaströnd fengu styrki hjá Menningarráði Norðurlands vestra en ráðið stóð fyrir úthlutun í Kántrýbæ miðvikudaginn 21. október.  Lárus Ægir Guðmundsson fékk styrk til að skrifa bók um skip og báta á Skagaströnd 1908-2008, Sveitarfélagið Skagaströnd fékk styrk til stofnunar ljósmyndasafns og söfnunar eldri og yngri ljósmynda, Nes listamiðstöð fékk dvalar- og verkfnastyrki fyrir listamenn og loks fékk Guðmundur Ólafsson styrk til heimildarmyndagerðar. Síðari umsóknarfrestur ársins 2009 um verkefnastyrki Menningarráðs Norðurlands vestra rann út 15. september sl. Alls bárust 65 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 47 milljónum króna.  Á fundi sínum, 7. október sl., ákvað menningarráðið að úthluta verkefnastyrkjum til 52 aðila alls að upphæð 18.300.000 kr. Af þessum átján milljónum er um fjórðungi upphæðarinnar varið til tónlistarverkefna og rúm 20% renna til varðveislu menningararfsins og safnamála. Eftirtaldir aðilar hlutu styrki:    1.750.000 kr. Skotta ehf. kvikmyndafjelag - Tvö verkefni: Bjarni Har. og Dansað á fáksspori 1.500.000 kr. Söngskóli Alexöndru, Tónlistarskóli A-Hún.  Tónlistarskóli V-Hún. – Draumaraddir norðursins 1.000.000 kr. Byggðasaga Skagafjarðar - Byggðasaga Skagafjarðar Sögusetur íslenska hestsins - Tvö verkefni: Íslenski hesturinn, yfirlitssýning til 1950 og Söfnun, skráning og skönnun heimilda um íslenska hestinn. 850.000 kr. Helga Rós Indriðadóttir - Tvö verkefni: Klassík 2010 – Óperutónleikar í Skagafirði og Sönglög Jórunnar Viðar - útgáfutónleikar. 750.000 kr. Nes listamiðstöð - Dvalar- og verkefnisstyrkir fyrir listamenn í Nes listamiðstöð 2010 500.000 kr. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga - Stafrænn ljósmyndagrunnur Sigríður Tryggvadóttir - Sumardagurinn fyrsti, heimildarmynd. 400.000 kr. Landnám Ingimundar gamla - Hljóðleiðsögn um slóðir Vatnsdælasögu Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og Jenný Karlsdóttir - Altarisdúkar í íslenskum kirkjum. Jón Þorsteinn Reynisson - Tvö verkefni: Útgáfa geisladisks og Gömlu slagararnir Karlakórinn Heimir - Upp skaltu á kjöl klífa. Fluga hf. - Hrossaræktandinn Sveinn Guðmundsson. Ævi og störf. Reiðhallarleiksýning Nemendafélag FNV - Söngleikurinn Sódóma Kvæðamannafélagið Vatnsnesingur - Minnisvarði um Guðmund Bergþórsson Vesturfarasetrið - Minningarstofa um vestur-íslenska rithöfundinn Bill Holm. 350.000 kr. Karlakórinn Lóuþrælar - Tvö verkefni: Í vesturveg og Haust- og jólatónleikar 300.000 kr. Elinborg Sigurgeirsdóttir - Lauf, útgáfa geisladisks Bróðir Svartúlfs - Útgáfa geisladisks 250.000 kr. Sögufélagið Húnvetningur og Ingi Heiðmar Jónsson - Húnvetnskir ættstuðlar Héraðsskjalasafn V-Hún. - Ljóð húnvetnskra skáldkvenna dregin fram í dagsljósið Lárus Ægir Guðmundsson - Skip og bátar á Skagaströnd 1908-2008 Lafleur ehf. - Hinn svali blær / Glíman við Glám Háskólinn á Hólum – Hólarannsóknin - Björgunarrannsókn við Kolkuós í Skagafirði Sveitarfélagið Skagaströnd - Stofnun ljósmyndasafns og söfnun eldri og yngri ljósmynda Guðmundur Ólafsson - Heimildarmyndagerð Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga - Skagfirska kirkjurannsóknin Guðný Káradóttir, Valgeir Kárason o.fl. - Raddir fólksins Skagabyggð - Örnefnaskráning í Skagabyggð Fornverkaskólinn - Uppbygging á aðbúnaði og aðstöðu Fornverkaskólans Rósmundur Ingvarsson - Fornleifaskráning í Skagafirði Jón Hilmarsson - Skín við sólu Skagafjörður – ljósmyndabók Róbert Óttarsson - Æskudraumar – útgáfa geisladisks Verslunarminjasafn Bardúsa, Grettistak og Ferðamálafélag V-Hún. - Forn handbrögð – handverksnámskeið Hólmfríður Bjarnadóttir - Hvalrekinn á  Ánastöðum – einleikur Leikfélag Sauðárkróks - Barnaleikritið Rúi og Stúi Guðrún Brynleifsdóttir - Skotta – einleikur    200.000 kr. Kirkjukór Glaumbæjarprestakalls - Þýsk messa eftir Franz Schubert Skagfirski kammerkórinn - Á vetrarbraut 150.000 kr. Heimilisiðnaðarsafnið Blönduósi - Kynningar og markaðssetning Vefnaðarbókar Halldóru Bjarnad. Minningarsjóður Aðalheiðar E. Gunnarsdóttur – Styrktartónleikar 100.000 kr. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Sauðárkróksbíó - Kvikmyndalestin RIFF um land allt Háskólinn á Hólum - Fornleifar í landi Keldudals – heimasíða Héraðsskjalasafn A-Hún. - Horfnir tímar – hver er maðurinn/staðurinn? Málmblásarakvintett Norðurlands og Karlakórinn Heimir - Kórbrass á aðventu Rökkurkórinn - Jólatónleikar Sönghópur Félags eldri borgara í Skagafirði - Skagfirskir tónar Kammerkór Norðurlands - Tónleikahald – íslensk kórtónlist Kirkjukór Sauðárkrókskirkju - Kirkjukvöld í Sæluviku Samkórinn Björk - Lúsíuhátíð Hestamannafélagið Neisti - Börn og unglingar á hestasýningum Matarkistan Skagafjörður - Málþing um íslenskan mat á MATUR-INN 2009 

September lofar góðu

Landaður afli í Skagastrandarhöfn var 37,5% meiri á síðasta aflaári en árið áður. Engu að síður er aflinn enn um 11,5% lakari en aflaárið 2006-7. Alls komu 8.227.828 tonn á land frá september 2007 til loka ágúst 2008. Þar áður var landað 5.984.077 tonnum og enn áður 9.273.396 tonnum. Nýbyrjað aflaár lofar góðu en í september var landað 883.425 tonnum sem er miklu meira en undanfarin þrjú ár.