Hæfileikamiklir ungir tónlistarmenn á Skagaströnd

Jólatónleikar Tónlistarskóla A-Hún voru haldnir í Hólaneskirkju þriðjudaginn 7. desember . Stigu þá á svið fjölmargir efnilegir tónlistarmenn framtíðarinnar. Ótrúlega margir ungir Skagstrendingar læra á hljóðfæri og vekur það mikla athygli hversu hæfileikaríkir þeir eru. Meðfylgjandi myndir voru teknar af hinum ungu tónlistarmönnum.

Börnin hlusta með andakt á jólasögurnar

Spákonuarfur hefur á aðventunni undanfarin tvö ár staðið fyrir jólastemningu og sögustund fyrir börn í Árnesi. Litla húsið fyllist af áhugasömum börnum sem sitja í stólum eða gólfi og sum standa en öll hlusta með andakt á jólasögurnar. Síðasta miðvikudag var Árnes fullt af börnum. Inni var rökkur, aðeins kveikt á kertum og litlum rafljósum. Andrúmsloftið var eins og í gamla daga þegar skammdegið grúfði yfir og fólk skemmti hverju öðru. Skuggarnir urðu langir og sögurnar lifnuðu við og hver veit nema jólasveinarnir hafi legið á glugga og hlustað. Næst verður jólastemning og sögustund í Árnesi miðvikudaginn 15. desember kl. 17 og það er verður sú síðasta fyrir þessi jól.

Blómlegt félagsstarf aldraðra

Félagsstarf aldraðra á Skagaströnd er með miklum blóma og hefur verið svo í meira en fjórtán ár eða frá því til þess var stofnað. Í hverri viku, á mánudögum og fimmtudögum, hittast allt að 26 manns á besta aldri og unir sér í góðum félagsskap við ýmiskonar handavinnu, spil og spjall. Á fimmtudögum koma til viðbótar fimm manns utan af Skaga og er þá haft fyrir satt að enn við að aukist skemmtunin að miklum mun. Meðfylgjandi myndir voru teknar í Fellsborg. Fyrir utan þá sem sátu við borð og spiluðu beindist athyglin að fjölbreyttu föndrinu sem fólkið var með í höndunum. Þarna var unnið að ýmsu, jafnvel jólagjöfum. Máluð voru jólatré úr keramík, listaverk prjónuð og ýmislegt fleira.

Eining býður upp á kaffi, súkkulaði og kökur

Kvenfélagið Eining býður Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa í aðventustund í kvöld, fimmtudaginn 9. desember kl. 20. Boðið verður upp á kaffi, heitt súkkulaði og kökur, tónlistaraðtriði og upplestur úr bókum. Fólk er hvatt til að koma og eiga notalega stund saman á aðventunni. Aðgangur er ókeypis en viðburðurinn er styrktur af Minningarsjóði hjónanna frá Garði og Vindhæli.

Meðalhitinn 0,5 gráður á Skagaströnd í nóvember

Nú verða sagðar veðurfréttir. Veðrið á Skagaströnd í nóvember var með miklum ágætum. Skiptist á frost og frostleysur. Vindur blés eins og lög gera ráð fyrir, stundum hressilega en oftar en ekki var hann frekar máttlaus. Þessa skýru staðreyndir liggja nú ljósar fyrir vegna þess að veðurstöð var tekin í notkun á Skagaströnd þann 9. nóvember síðastliðinn. Hún er staðsett við höfnina og upplýsingar um mælingar er að finna á hér vinstra megin.  Veðurstöðin geymir upplýsingar um vindstyrk, vind í hviðum, vindátt, loftþrýsting og lofthita og hægt er að vista þær á Excel skjal. Stöðin skráir ofangreindar staðreyndir á tíu mínútna fresti. Samanteknar upplýsingar um vindstyrk og hitastig í nóvember má sjá á meðfylgjandi línuritum. Meðalhitinn í nóvember, frá 9. til 30. var 0,5 gráður. Hæstur meðalhitinn var 6,7 gráður miðvikudaginn þann 19. Lægstur meðalhitinn var -3,9 gráður sunnudaginn 12. Í tólf daga var frost í nóvember en 8 daga var hitinn yfir frosmarki. Líklegast hefur það engan tilgang að birta meðalvindstyrk mánaðarins. Engu að síður var hann 6 m/s. Fimm daga í nóvember var hvassara en 10 m/s. Yfirleitt var lygnara. Til dæmis hreyfði vart vind dagana 19. til 25. nóvember. Raunar bera að geta að svo lygnt er á Skagaströnd að allan mánuðinn bærðist ekki hár á höfði þess sem þessar línur ritar. Enn hafa ekki verið teknar saman upplýsingar um vindátt. Þó má gera ráð fyrir að vindur hafi staðið úr einhverjum höfuðáttunum eða um það bil. Vandinn hér lýtur að því að búa til vindrós á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Kunni einhver skil á því væri gott að fá aðstoð við það. Væntanlega verður haldið áfram að segja frá því indæla veðri sem alltaf ríkir á hér og það stutt með tölum frá Veðurstofu Skagastrandar. Að vísu sagði glöggur maður einhvern tímann að sennilegasta lygin væri sú sem byggir á meðaltali. 

Jólatónleikar Siggu Beinteins á Skagaströnd

Sem sólargeisli í myrkasta skammdeginu kemur Sigga Beinteins til Skagastrandar og heldur jólatónleika í Hólaneskirkju miðvikudaginn 15. desember kl. 20. Þetta er auðvitað stórfrétt. Söngkonan heldur fimm tónleika víðs vegar um landið nú á aðventunni en lýkur ferð sinni á Skagaströnd. Ekki er það svo síðri frétt að aðgangurinn er öllum án endurgjalds. Eins og svo oft áður býður Minningarsjóðurinn um hjónin frá Garði og Vindhæli og nú, eins og svo oft áður, leggur sjóðurnn sitt af mörkum til að efla menningarlíf á Skagaströnd og gefur íbúunum kost á að njóta landsþekktra skemmtikrafta þrátt fyrir fámennið. Sjálf segir Sigga að jólatónleikarnir verði hugljúfir og einlægir og á persónulegum nótum. Við hin þökkum boðið, tökum miðvikudagskvöldið frá og fjölmennum.

Gunna og Óli Benna sigruðu

Þau sæmdarhjón Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Bernódusson sigruðu í síðustu spurningarkeppni ársins sem hér gengur undir nafninu Drekktu betur. Þau voru vel að sigrinum komin, fengu 25 stig af 30 mögulegum, sá næsti var með 23. Raunar er þetta hvorki í fyrsta né annað sinn sem þau Gunna og Óli ganga út úr Kántrýbæ með bjórkassa í verðlaun. Að þessu sinni stjórnuðu þau Péturína Laufey Jakobsdóttir og Vigdís Elva Þorgeirsdóttir spurningarkeppninni og gerðu það af miklum myndarskap. Spurningarnar voru skemmtilegar og fróðlegar en alls ekki of erfiðar.

Málþing um skotveiðtengda ferðaþjónustu

Málþing um skotveiðitengda ferðaþjónustu verður haldið í Háskólanum á Akureyri 13. desember nk. Kl. 13:00-17:30.  Yfirskrift málþingsins er Skotveiðitengd ferðaþjónusta – þróunarmöguleikar í dreifðum byggðum.  Á málþinginu verða kynntar niðurstöður rannsókna sem hafa verið gerðar á Íslandi í tengslum við skotveiðar og skotveiðitengda ferðaþjónustu. Auk þess verða kynntar ýmsar hliðar á málinu út frá sjónarmiðum hagsmunaðila um þróun þessarar greinar ferðaþjónustu á Íslandi.    Aðgangur að málþinginu er ókeypis. Vinsamlegast sendið skráningu til Eyrúnar Bjarnadóttur á netfangið ejb@unak.is   

Styrkir í boði til að auka verðmæti sjávarfangs

AVS sjóðurinn auglýsir eftir umsóknum, en framundan er áttunda starfsár sjóðsins. Að þessu sinni stendur umsækjendum til boða að sækja um í nýjan flokk verkefna, atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum landsins, auk hefðbundinna verkefna. Atvinnuþróun og nýsköpun Eins og kemur fram í auglýsingu sjóðsins þá stendur umsækjendum til boða að senda inn umsóknir þar sem sérstök áhersla er lögð á atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum landsins.  12 mánaða verkefni Þarna verður fyrst og fremst lögð áhersla á styttri verkefni sem eiga að vinnast á innan við 12 mánuðum og geta skapað ný störf og aukin verðmæti í sjávarbyggðum vítt og breitt um landið.  Styrkur allt að 50% AVS sjóðurinn er tilbúinn til að leggja fram að hámarki 50% af kostnaði verkefnanna og verður hámarksstyrkur 3 m.kr. Umsóknin Mikilvægt er að leggja fram vel rökstuddar og arðvænlegar hugmyndir að verkefnum sem geta aukið fjölbreytni og eflt atvinnu og verðmætasköpun. Sigurður Sigurðarson, atvinnu- og markaðsráðgjafi getur aðstoðað íbúa og fyrirtæki á Skagaströnd við gerð umsókna. Ferðaþjónusta Lykilhugtök í þessum nýja verkefnaflokki AVS eru m.a. matarferðamennska, hönnun, nýtt hráefni, sjálfbærni, uppruni, ferðaþjónusta, vöruþróun, fullvinnsla, vörur í smásölu eða á borð neytenda, nýjar tegundir, smáframleiðsla o.fl.  Sérstök umsóknaeyðublöð fyrir þennan flokk umsókna eru að finna á heimasíðu sjóðsins, sjá http://www.avs.is/umsoknir/. Niðurskurður AVS sjóðurinn býður áfram upp á hefðbundin verkefni með sömu áherslum og áður, en því miður þá verður framlag til sjóðsins skorið umtalsvert niður þannig að ekki verður mögulegt að styðja jafnmörg verkefni á næsta ári og undanfarin ár.  Umsóknafrestur er þriðjudagurinn 1. febrúar 2011. Hvað er AVS? AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi starfar á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. AVS rannsóknasjóður veitir styrki til rannsóknaverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum. Stjórn sjóðsins forgangsraðar tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um styrki til rannsókna í þágu verkefna sem auka verðmæti sjávarfangs og styrkja samkeppnishæfni sjávarútvegsins.

Jólatónleikar Tónlistarskólans

Jólatónleikar Tónlistarskóla A-Hún verða haldnir í Hólaneskirkju þriðjudaginn 7. desember kl. 17.00. Foreldrar og aðrir gestir velkomnir.