Djásn og dúlleri opið um Kántrýdaga

Um 1600 manns hafa komið í Djásn og dúllerí það sem af er sumri og vænta má þess að talan eigi eftir að hækka nokkuð um kántýdagana.  Í galleríinu er gott og vandað vöruúrval handverks, hönnunar og myndlistar eftir fólk af væðinu og það er alltaf heitt á könnunni.  Á kántrýdögum verður opnunartíminn legndur aðeins, það verður opið frá 11-18. 

Skagaströnd skreyttur fyrir Kántrýdaga

Þetta er dagurinn. Já, dagurinn sem þetta allt byrjar á. Á Skagagströnd er sól og rjómalogn og sextán stiga hiti og undirbúningur fyrir Kántrýdaga sem hefjast á morgun er á fullu. Út um allan bæ er fólk að störfum. Við liggur stríði á milli gatna. Allir vilja skreyta sína götu sem best og helst miklu meir og betur en nágrannarnir. Og í gærkvöldi var línan lögð. Íbúar á Suðurvegi byrjuðu að skreyta. Sunnuvegurinn vildi ekki láta sitt eftir liggja og marglitar veifur skreyta Fellsbrautina. Í miðbænum er verið að reisa hátíðartjaldið. Þar ganga vörpulegir kallar um völl, betir að ofan og hnykla vöðvana. Fjöldi kvenna hefur lagt leið sína um svæðið og segist vera að fylgjast með framkvæmdum. En framkvæmdirnar þurfa ekki alltaf að vera stórkostlegar þó árangurinn af hinu smáa sé frábær. Borðar prýða allar hurðir á Suðurveginu, á Hólabrautinni er stór borði og þangað eru allir boðnir velkomnir.  Og mannlífið hefur tekið breytingum. Spenna er í loftinu og hamarhögg og hlátrasköll bergmála um bæinn. Börnin hlaupa til og frá og segjast vera að aðstoða, gægjast yfir í næstu götur og njósna um það sem þar er að gerast. Hallbjörn kúreki Hjartarson gengur heimspekilegur um götur og spáir í Kántrýdaga og honum hugast áreiðanlega vel það sem hann sér.

Margrét Eir í Bjarmanesi á föstudagskvöldið

Söngkonan Margrét Eir syngur lög úr söngleikjum á Kaffi Bjarmanes. Hún kemur víða við og syngur meðal annars lög úr söngleikjunum Cabaret, Les Misarable og Hárinu.   Margrét hefur tekið þátt í mörgum uppfærslum á söngleikum á Íslandi þar á meðal var hún í Hárinu 1994, Rent íÞjóðleikhúsinu, Óliver í uppfærslu Leikfélags Akureyrar og í janúar 2012 hefjast hjá Margréti æfingar á Vesalingunum hjá Þjóðleikhúsinu.  Með Margéti á píanó er Vignir Þór Stefánsson en hann hefur líkað starfað mikið í leikhúsunum hér á landi og erlendis. Vignir kennir við Tónlistarskóla FÍH.

Veðrið í júlí á Skagaströnd

Veður var almennt gott í júlí á Skagaströnd rétt eins og hina ellefu mánuði ársins. Meðalhitinn var 10,5 gráður, vindgangur var einungis 4 metrar á sekúndu (m/s) og af uppruna vindsins má það segja að hann var frekar vestlægur en annars sitt lítið af hverju. Þeir sem flust hafa á Skagaströnd frá höfuðborgarsvæðinu finna mikinn mun á veðurfari á þessum tveimur stöðum. Á þeim síðarnefnda rignir talsvert, stundum mikið, og fylgir úrkomunni iðulega talsverður vindgangur. Slík slagveðursrigning er afar sjaldgæf á Skagaströnd. Gera því heimamenn minna af því að svekkja sig út af veðrinu en ræða þess í stað þjóðþrifamál. Á móti kemur sú staðreynd að norðaustanáttin er leiðinleg á Skagaströnd. Hún er iðulega köld sérstaklega ef hreyfiþörf vindsins er mikil. Fer þá oftast allt fjör úr heimamönnum og þeir loka sig inni og spjalla lítt. Hitatölurnar Fyrstu tíu daga júlímánaðar voru lítið eitt svalari en seinni hlutinn. Raunar byrjaði mánuðurinn svo vel að þann 1. júlí var meðalhiti dagsins 10,5 gráður og þar með var línan gefin, meðalhiti hans var nebbnilega 10,5 gráður eins og áður sagði. Lægst fór meðalhitinn þann miðvikudaginn 6. júlí í 7,1 gráðu, en hæst fór hann í 13,9 gráður miðvikudaginn 27. júlí. Meðalhitinn segir nú aðeins einfalda sögu. Sú flóknari fjallar um hitann án meðaltalsins. Það er hins vegar löng saga en hér verður aðeins tíundaður lægsti og hæsti hiti.  Þó furðulegt megi teljast fór hitinn lægst í 3,5 gráðu sunnudaginn 10. júlí kl. 05:10. Ansi kalt var alla þessa nótt og hjakkaði hitinn þarna í kringum fjórar gráðurnar. Merkilegt er þó að þetta er sú dagsetning sem áður var nefnd og upp frá því tók að hlýna á Skagaströnd. Að vísu féll hitinn allhressilega viku síðar, þann 17. júli, og mældist þá 3,6 gráður um 01:40 en tók þó umsvifalaust að stíga á ný. Sannarlega var oft napurt fyrstu tíu daga mánaðarins eins og áður sagði, en hins vegar voru þar margir fínir dagar í júlí. Hæst fór meðalhitinn í 18,2 gráður laugardaginn 23. júlí kl. 17:50. Sá dagur var ansans ári hlýr og sérstaklega var kvöldið gott, var lengi í 16 gráðum og þar fyrir ofan. Vindgangurinn Fátt er að segja um vindinn á Skagaströnd. Meðalvindhraðinn var 4,0 m/s og það þýðir næstum því logn. Best náði hann sér upp fimmtudaginn 28. júlí, 7,8 m/s. Ótal sinnum mældist engin hreyfing á vindi og oft aðeins einn m/s. Hvassast mældist síðla dags föstudaginn 15. og sunnudaginn 31, 14 m/s. Þetta var nú bara smávægilegur viðrekstur því hann lægði aftur. Vindátt Upprunin vindisins í júlí er fjölbreyttari en fyrri mánuði. Hin ömurlega norðaustanátt lét lítt á sér kræla, mældist aðeins í 5,5% tilvika. Ráðandi áttir voru norðlægar og suðlægar. Skagstrendingar hefðu getað þegið meira af austanátt eða suðaustan. Þær eru ansi auðugar og vítamínríkar af sól og hita. Vænta má þess að veður verði áfram á Skagaströnd um ókomin ár þó hér verði ekki frekar um það fjallað.

Hvað viltu selja úr geymslunni?

Á Kántrýdögum verður opinn götumarkaður á Bogabrautinni (Strikinu) frá kl. 11-14 á laugardeginum.  Á götumarkaði er hægt að versla með hvað sem er. Stórt, smátt, notað, nýtt, gamalt og gott.  Við sjáum fyrir okkur að það verði hægt selja gömul húsgögn, notuð föt, bækur, skrautmuni, hjól, leikföng, lampa ... Hvað átt þú í geymslunni þinni?? Gatan er löng og breið - það er nóg pláss fyrir alla sem vilja vera með í að skapa skemmtilega kolaports-stemningu á Kántrýdögum.   Það kostar ekkert að vera með, þú skaffar sjálf/sjálfur borð og stól og finnur þér bara góðan stað. Þarft ekkert að hafa samband við einn eða neinn, bara að mæta. Tónlistarfólk og annað listafólk er líka hjartanlega velkomið og hvatt til að vera með. Athugið, auglýstur tími götumarkaðsins er 11-14 en við hvetjum þá sem vilja að vera lengur fram eftir degi.   Götumarkaðsnefndin.

Dagskrá Kántrýdaga 12. til 14. ágúst 2011

Fimmtudagur 11. ágúst Íbúar skreyta götur, garða og hús Föstudagur 12. ágúst 11:00 – 18:00 Djásn og Dúlleri  Handverk og hönnun í gamla kaupfélagshúsinu við höfnina. 13:00 – 17:00 Málverkasýning í íþróttahúsinu Yfirlitssýning Sveinbjörns H. Blöndals. 13:00 – 17:00 Árnes, elsta húsið á Skagaströnd Sýning: Alþýðuheimili 1900-1920.  13:00 – 18:00 Nes listamiðstöð, listsýning  Samsýning listamanna ágústmánaðar í Frystinum.  13:00 – 19:00 Spákonuhof  Sýning um Þórdísi spákonu. Spáð í spil, bolla, rúnir og lesið í lófa. 18:00 Kántrýdagar hefjast með fallbyssuskoti 18:00 – 19:00 Dótakassamarkaður við Fellsborg Skiptimarkaður fyrir dót og bækur. Krakkar bjóða upp á veitingar, þrautir fyrir fullorðna. 19:00 – 20:00 Kántrýsúpupartí í hátíðartjaldi BioPol ehf. býður öllum sem vilja í gómsæta súpu. 19:00 – 21:00 Hoppukastalar við hátíðarsvæði 20:00 – 21:30 Stórtónleikar í hátíðartjaldi Hljómsveiting Janus. Blue grass hljómsveitin Brother Grass. Gott ráð að koma með garðstólinn til að njóta tónleikanna. 21:30 – 23:00 Varðeldur og söngur í Grundarhólum Jonni og Fannar leiða söng. 21:00 Tónleikar í Bjarmanesi Margrét Eir syngur lög úr söngleikjum. 23:00 – 3:00 Ball í Kántrýbæ Hljómsveitin Janus heldur uppi fjörinu. Laugardagur 13. ágúst 10:00 Þórdísarganga á Spákonufell Gangan hefst hjá golfskálanum við Háagerði. Skemmtileg ganga með einstaklega fróðum leiðsögumanni. 11:00 Dorgveiðikeppni á höfninni Verðlaun fyrir þyngsta, ljótasta og minnsta fiskinn.  Mætum stundvíslega. 11.00 - 14:00 Götumarkaður á Bogabraut Allir velkomnir í fjörlega kolaportsstemningu á Bogabrautinni, á meðan göturými leyfir.   11:00 – 18:00 Djásn og Dúlleri  Handverk og hönnun í gamla kaupfélagshúsinu við höfnina. 12:00 Fallbyssuskot við Bjarmanes 13:00 – 17:00 Árnes, elsta húsið á Skagaströnd Sýning: Alþýðuheimili 1900-1920.   13:00 – 17:00 Málverkasýning í íþróttahúsinu Yfirlitssýning Sveinbjörns H. Blöndals.  13:00 – 18:00 Nes listamiðstöð, listsýning  Samsýning listamanna ágústmánaðar í Frystinum.  13:00 – 19:00 Spákonuhof Sýning um Þórdísi spákonu. Spáð í spil, bolla, rúnir og lesið í lófa.  13:00 – 20:00 Hoppukastalar við hátíðarsvæði  15:00 – 17:00 Barna- og fjölskylduskemmtun í hátíðartjaldi Pollapönk, grettukeppni, andlitsmálun og Kántrýhvolpar, söngvakeppni barna frá þriggja til sextán ára, fjöldi veglegra verðlauna. 17:00 Kántrý-stórtónleikar í Bjarmanesi Óperuídífurnar; Davíð Ólafsson, bassi, og Stefán Islandi junior, tenór, fara á kostum ásamt Þorsteini Eggertssyni. 18:00 – 20:00 Útigrill við hátíðartjald Heitt í kolunum fyrir þá sem vilja. 20:30 – 23:00 Dagskrá í hátíðartjaldi  Kántrýsveitin Klaufar, Pollapönk, Guðlaugur Ómar og Sara Rut, Lára Rúnarsdóttir og hljómsveit. 23:00 Tónleikar í Bjarmanesi „Óperukántrý.“ Óperuídífurnar; Davíð Ólafsson, bassi, og Stefán Íslandi junior, tenór, syngja lög eftir Þorstein Eggertsson sem kynnir og segir frá 23:00 Harmonikkuball í Fellsborg Hljómsveit Viggós B. og harmónikkusveitin Nikkólína, Erna og Valdi kynna lög af nýja disknum og Guðlaugur Ómar og Sara Rut taka lagið. 23:00 – 03:00 Ball í Kántrýbæ Kántrýsveitin Klaufar skemmta, skvetta úr klaufunum og leika sér. Sunnudagur 14. ágúst 11:00 – 17:00 Spákonuhof Sýning um Þórdísi spákonu. Spáð í spil, bolla, rúnir og lesið í lófa.  11:00 – 18:00 Djásn og Dúllerí Handverk og hönnun í gamla kaupfélagshúsinu við höfnina. 12:00 Fallbyssuskot við Bjarmanes 13:00 – 17:00 Málverkasýning í íþróttahúsinu Yfirlitssýning Sveinbjörns H. Blöndals. 13:00 – 17:00 Árnes, elsta húsið á Skagaströnd Sýning: Alþýðuheimili 1900-1920.   13:00 – 18:00 Nes listamiðstöð, listsýning  Samsýning listamanna ágústmánaðar í Frystinum. 14:00 – 15:00 Kærleiksmessa í hátíðartjaldi  Friðrik Ómar og félagar sjá um söng. 15:00 – 17:00 Bjarmanes, glæsilegt, ilmandi kaffihlaðborð

Góður árangur Skagstrendinga á unglingalandsmótinu

Unglingalandsmót UMFÍ – 11-18 ára - fór fram á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Um 1.200 keppendur voru á mótinu sem fór í alla staði vel fram. Þangað mættu 11 keppendur frá Skagaströnd og tóku þátt í fótbolta og frjálsum íþróttum.  Í fótboltanum stóðu krakkarnir sig með miklum ágætum en unnu ekki til verðlauna en helsti árangur þeirra í frjálsum íþróttum var sem hér segir:   Stefán Velemir  vann í  kúlu og kringlu í flokki 16-17 ára, Egill Örn Ingibergsson var í sigurliði í 4x100 m boðhlaupi, Valgerður Guðný Ingvarsdóttir varð önnur  í 60 m og þriðja í 600 m í flokki 11 ára, Viktor Már Einarsson varð þriðji í spjótkasti í 11 ára flokki og Páll Halldórsson varð þriðji í kúlu í 12 ára flokki.

2GOOD í Kántrýbæ á föstudagskvöld

Föstudagskvöldið 29. júlí ætlar dúettinn 2GOOD að spila í Kántrýbæ.  Dúettinn skipa þau Sigurjón Alexandersson, gítarleikari, og Vigdís Ásgeirsdóttir, söngkona.  2GOOD spilar allt allt frá kraftmiklu rokki niður í rólegar og ljúfar jazz/blús ballöður.   Miðaverð kr. 1.000

Happadráttur strandveiðimanns

Í Morgunblaðinu í morgun er sagt frá sannkölluðum happadrætti. Ólafur Bernódusson fréttaritari blaðsins á Skagaströnd skrifar fréttina og tók meðfylgjandi mynd: Guðmundur Þorleifsson, strandveiðimaður á Fannari SK11, datt heldur betur í lukkupottinn þegar hann setti í stórlúðu á miðunum norður af Skaga. Lúðan vó 163 kg slægð þannig að fullyrða má að hún hafi verið a.m.k. 175 kg þegar hún beit á krókinn hjá Guðmundi. „Sem betur fer var hún frekar róleg en það tók nú samt tvo og hálfan tíma frá því hún kom á, þangað til ég var búinn að koma á hana spotta og binda við bátinn. Það var ekki möguleiki að ég næði henni einn inn fyrir. Ég var skíthræddur allan tímann að missa hana því hún hékk á einum krók í kjaftvikinu og hann var farinn að réttast upp,“ sagði Guðmundur um viðureign sína við lúðuskrímslið. Eftir að hafa komið böndum á lúðuna hætti Guðmundur veiðum og stímdi í land á rúmlega hálfri ferð. Yfirleitt eru þeir tveir á Fannari, Guðmundur og faðir hans, en í þessum túr var Guðmundur einn því faðir hans var að fylgja vini sínum til grafar. Guðmundur kvaðst vera viss um að hann hefði orðið var við lúðuna á sama stað daginn áður því þá kom einhver fiskur á færið hjá honum og sleit það með það sama. Það kom svo í ljós þegar lúðan var slægð að í maga hennar voru tveir færakrókar þannig að líklega er þetta rétt hjá honum. Í maganum voru líka tvær hálfmeltar smálúður þannig að stórlúður virðast ekki hika við að éta ættingja sína ef svo ber undir. Lúðan var seld á fiskmarkaðnum og fengust um 1.100 krónur fyrir kílóið.

Námskeið í klippimyndagerð í Nesi listamiðstöð

Listræn notkun á klippimyndum kom fram í byrjun tuttugustu aldar og dreifðist sem byltingarkennd tækni bæði í list og pólitískum áróðri.  Frá dadaisma til pönks hafa klippimyndir verið tengdar stefnum sem takast á.  Núna eru klippimyndir orðnar táknmynd fyrir post modernisma sem fjölhyggjustefna sem hentar blöndun í nýtíma menningu. “Klippa”, “afrita” og “líma” úr fjöllaga notendaviðmóti er hluti af okkar daglega lífi. Í þessari vinnusmiðju munum við skoða og æfa klippimyndagerð. Þáttakendur eru hvattir til að koma með þau áhöld og efni sem þeir vilja nota við klippimyndagerðina, t.d. : skæri, pappírslím, dagblöð og tímarit til að klippa úr, pappír og karton. Dagskrá: 17 til 19:00 Saga klippimynda / sýndar stuttmyndir / grunn hugtök 19 til 19:30 Matarhlé 19:30 til 22 Klippimyndagerð Námskeiðið fer fram í húsnæði Ness listamiðstöðvar að Fjörubraut 8, Skagaströnd fimmtudaginn 28.júlí / frá klukkan 17 til 22. Áhugasamir hafi samband í síma 8987877 eða olafia@neslist.is