Breyttur opnunartími í íþróttahúsi

Til reynslu ætlum við að bjóða upp á breyttan opnunartíma í íþróttahúsinu frá 9. apríl til 10. maí. Húsið opnar kl. 6:00 þriðjudaga og föstudaga. Fyrirhugað er að vera með þrek-og þoltíma fyrir konur og karla í salnum þessu sömu morgna sem Halla Karen verður með. Venjulegur opnunartími verður aðra daga. Húsvörður

Truflanir á vatni vegna viðgerða

Milli kl.10:00 og 12:00 föstudaginn 5.apríl gætu orðið truflanir á vatni í Mýrinni. Bæjarverkstjóri

Mynd vikunnar

Útbæingar Þessir krakkar voru öll alin upp í útbænum - undir Höfðanum. Frá vinstri: Finnur Kristinsson úr Héðinshöfða, Unnur Gunnarsdóttir, sem átti heima á neðri hæðinni í Stórholti er í vagninum, Ólafur Bernódusson sem átti heima á efri hæðinni í Stórholti og Eygló Gunnarsdóttir systir Unnar. Myndin var tekin um 1960 á blettinum framan við Stórholt. Kárastaðir, sem nú eru horfnir og Höfðabrekka í baksýn. Stórholt er Bankastræti 3, Kárastaðir voru Bankastræti 5, en Höfðabrekka er Bankastræti 10.

Mynd vikunnar

Á Lanz Alldog dráttarvél Bernódus Ólafsson situr við stýrið á Lanz Alldog dráttarvél sem hann átti. Í farþegasætinu situr Steingrímur Jónsson í Höfðakoti, á pallinum stendur Björg Ólafsdóttir systir Bernódusar. Jóhanna Sigurjónsdóttir fylgist íbyggin með. Lanz Alldog dráttarvélar þóttu mjög undarlegar á sinni tíð með stóran sturtupall framan við ökumanninn. Myndin var tekin einhverntíma seint á sjöunda áratugnum.

Góð mæting í bíó

Það var stór hópur fólks sem fyllti Rannsóknarsetur HÍ í Gamla kaupfélaginu í gærkvöldi en alls mættu um 70 manns á aldrinum 10-80 ára. Sýndar voru þrjár myndir þar sem starfsemi og mannlíf á vestanverðum Skaga fyrr á tímum var í fyrirrúmi. Fyrsta myndin var hluti af heimildarmynd um Austur-Húnavatnssýslu sem tekin var upp á árunum 1951-1955 en í þeim hluta var sjónum beint að byggðinni frá Laxá á Refasveit og út á Skagatá. Í annarri myndinni var viðtal sem Ernst Berndsen tók við Benedikt Guðmundsson bónda á Saurum um 1980. Síðasta myndin fjallaði um starfsemina í Hólanesfrystihúsinu á árunum 1985-1990 og þær breytingar sem þá urðu á aðstöðu og tækjakosti.Mátti oft sjá bros á andliti áhorfenda er þeir litu sjálfan sig og aðra að störfum í frystihúsinu fyrir aldarfjórðungi. Það var Gleðibankinn á Skagaströnd sem stóð fyrir þessu bíókvöldi. Í Gleðibankanum eru innstæður mældar í brosum og því ljóst að þær hafa vaxið töluvert við þennan viðburð.

Mynd vikunnar

Bæirnir undir Höfðanum Laufás er lengst til vinstri þá Melstaður og Ægissíða lengt til hægri. Svarta húsið sem ber yfir Melstað var einhvers konar útihús. Í Laufási bjuggu Sigurður Guðmundsson og Margrét Björnsdóttir með dóttur sinni Fjólu. Sigurður var smiður og var með trésmíðaverkstæði í húsnæðinu lengst til hægri í Laufási. Seinna byggðu svo Fjóla og Jón Kr. Jónsson þáverandi maður hennar hús, sem enn stendur, við enda bygginganna í Laufási til vinstri. Melstaður er nú horfin en þar bjuggu Björgvin Guðmundsson frá Saurum og Margrét ? kona hans. Þau voru barnlaus og eftir að þau fluttu burt var Melstaður rifinn. Neðan við götuna stóð Ægissíða en þar bjuggu Guðni Sveinsson og Klemensína Klemensdóttir með syni sínum Guðmundi. Guðmundur Guðnason var mjög lengi póstur á Skagaströnd og vinsæll og góður ljósmyndari. Þessi mynd er t.d. tekin af honum. Eins og algengt var á þessum árum eru fjárhús og hlöður gjarnan sambyggðar íbúðarhúsum fólks eins og glögglega sést á Melstað. Þessi mynd var líklega tekin einhventíma upp úr 1960.

Helstu niðurstöður íbúaþings

Fimmtudaginn 7. mars sl. var haldið íbúaþing á Skagaströnd þar sem það var sett að markmiði að fá fram viðhorf íbúa til nokkurra grundvallaratriða. Jafnframt var það markmið með þinginu að auka aðgengi almennings að ákvarðanatöku í samfélaginu. Á þinginu var unnið í hópum undir stjórn starfsmanna SSNV þar sem leitað var eftir hugmyndum og tillögum fundarmanna um málefni sem varða framtíðarsýn íbúa í atvinnumálum og almennri byggðaþróun sveitarfélagsins. Á þinginu voru lagðar fram eftirfarandi spurningar sem unnið var úr í nokkrum hópum: · Hvað gerir Skagaströnd aðlaðandi? · Hvernig viljum við sjá Skagaströnd eftir 10 ár? · Hver eru helstu atvinnutækifærin? Undir styrkri stjórn starfsmanna SSNV, sem stýrðu hópunum, voru fyrrgreindar spurningar ræddar og bæði svör og hugmyndir tekin saman til frekari úrvinnslu. Nú liggur fyrir fyrsta samantekt á því efni sem varð til á íbúaþinginu og er aðgengilegt hér. Áfram verður unnið með niðurstöður þingsins á vettvangi SSNV atvinnuþróunar og farið betur yfir flokkun og leitast við að samræma og einfalda niðurstöður. Að lokum er síðan gert ráð fyrir að niðurstöður verði teknar saman í skýrslu.

Landsmönnum boðið í bíó - Íslensk kvikmyndahelgi 21.-24. mars.

Í tilefni af hækkun framlaga í Kvikmyndasjóð Íslands bjóða íslenskir kvikmyndagerðarmenn, í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands og 18 sýningarstaði, landsmönnum í bíó helgina 21. – 24. mars. Fjölbreytt úrval íslenskra kvikmynda verður sýnt víðs vegar um land og í einhverjum tilfellum verða leikstjórar eða aðrir aðstandendur viðstaddir sýningar og svara spurningum að þeim loknum. Alls verða sýningar á 18 stöðum, þar af tveimur í Reykjavík – Háskólabíó og Bíó Paradís. Sýningarstaðir voru valdir í samráði við menningarfulltrúa hvers landshluta og eftir aðstöðu til sýninga. Frekari upplýsingar og dagskrá Íslenskrar kvikmyndahelgi má nálgast á miðvikudaginn á heimasíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands: www.kvikmyndamidstod.is Í tilefni af íslensku kvikmyndavikunni verða tvær myndir sýndar frítt á í Félagsheimilinu á Blönduósi! Fimmtudaginn 21. mars munum við sýna kvikmyndina Brim kl 20:00. Sunnudaginn 23. mars munum við sýna kvikmyndina Duggholufólkið kl 15:00 og mun leikstjóri myndarinnar, Ari Kristjáns verða viðstaddur sýninguna! Látum þennan frábæra menningarviðburð ekki fram hjá okkur fara :)

Félagsvist í Fellsborg

Í kvöld (mánudagskvöld) klukkan 20:00 verður þriðja og síðasta spilakvöldið hjá kvenfélaginu í bili. Sjáumst í Fellsborg :) Kvenfélagið Eining

Fjársjóður í fjölskyldualbúminu

Eggert Þór Bernharðsson prófessor mun halda fyrirlestur um ljósmyndir og fjölskyldualbúmin í Rannsóknarsetri Háskóla Íslands í gamla kaupfélaginu á Skagaströnd næst komandi laugardag 23. mars klukkan 15:00. Flestir hafa reynslu af því að fletta gömlum fjölskyldualbúmum og haft gagn og gaman af. Í erindinu veltir Eggert Þór Bernharðsson prófessor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands upp ýmsum spurningum sem vaknað hafa við skoðun og könnun á fjölskyldualbúmum frá tiltekinni fjölskyldu, einkum frá árunum 1930 til 1970. Hugað verður að því hvers konar sögu sé hægt að lesa út úr myndaalbúmum af þessu tagi, hvert sé hugsanlegt gildi fjölskyldumynda, hvað kunni að einkenna þær og hvaða möguleika þær bjóði upp á sem heimildir. Heitt verður á könnunni og eftir fyrirlesturinn mun Eggert sitja fyrir svörum um það sem brennur á fólki í sambandi við myndirnar sínar. Hver veit nema það felist fjársjóður í fjölskyldualbúminu þínu. Við þetta tækifæri verður líka sett upp lítil ljósmyndasýning á staðnum á fjölskyldumyndum úr Ljósmyndasafninu Skagastrandar. Fólk verður beðið um að hjálpa til við að þekkja þá sem óþekktir eru á myndunum. Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Skagaströnd