25.08.2008
Góð mæting var á Kaupþings golfmótinu á laugardag. Þátttakendur voru 40 og léku þeir
18 holur í blíðskapar veðri á golfvellinum á Háagerði. Mótið var jafnframt minningarmót um Karl Berndsen sem lést árið 1995. Hann var mikill áhugamaður um golfíþróttina og vann mikið og gott starf fyrir Golfklúbb Skagastrandar.
Helstu úrslit urðu sem hér segir:
Kvennaflokkur án forgjafar:
1. Árný L.Árnadóttir Golfkl.Sauðárkróks 91 högg.
2. Dagný M.Sigmarsdóttir Golfkl.Skagastrandar 101 högg.
3. Ingibjörg Ó.Guðjónsdóttir Golfkl.Sauðárkróks 103 högg.
Karlaflokkur án forgjafar:
1. Bergur R.Björnsson Golfkl.Ólafsfjarðar 69 högg.
2. Fylkir Þ.Guðmundssson Golfkl.Ólafsfjarðar 80 högg.
3. Rafn Ingi Rafnsson Golfkl.Sauðárkróks 83 högg.
Punktakeppni:
1. Bergur R. Björnsson Golfkl.Ólafsfjarðar 42 punktar.
2. Adolf H. Berndsen Golfkl.Skagastrandar 37 punktar.
3. Dagný M. Sigmarsdóttir Golfkl.Skagastrandar 34 punktar.
Mótið var einnig þriðja og síðasta mótið í svokallaðri Norðvesturþrennu sem er samstarfs verkefni golfklúbbanna á Blönduósi, Sauðárkrók og Skagaströnd. Keppt var um besta samanlagða árangur í karla og kvennaflokki. Sigurvegari í kvennaflokki var
Árný L.Árnadóttir Golfkl.Sauðárkróks en í karlaflokki sigraði Sævar Steingrímsson Golfkl.Akureyrar.
21.08.2008
Opna Kaupþings/Minningarmótið um Karl Berndsen fer fram á Háagerðisvelli við Skagaströnd laugardaginn 23. ágúst. Leikinn er höggleikur án forgjafar í karla og kvennaflokki og punktakeppni í einum flokki. Mótsgjald er kr. 3.000 en unglingar 14 ára og yngri kr. 1.500. Skráning er í fullum gangi á netinu á http://www.golf.is/pages/forsida1/motaskra/upplysingarummot/?idegaweb_event_classname=e34b3d46-4509-406f-9616-530b7975fb41&tournament_id=10117.
Frétt af www.huni.is
20.08.2008
Námskeið um grenndarfræði, umhverfi og menningu var haldið á vegum Fræðsluskrifstofunnar þann 15. ágúst s.l. í félagsheimilinu á Hvammstanga.
Fyrirlesarinn Bragi Guðmundsson, prófessor útskýrð með áhugaverðum dæmum að staðarmenning hvers skólasvæðis leggur skólunum takmarkalítil tækifæri í hendur til að auka fjölbreytni í viðfangsefnum í öllum námsgreinum fyrir alla aldurshópa.
Námskeiðið sóttu 60 kennarar grunn- og leikskóla Húnavatnssýslna og grunnskólans á Borðeyri.
Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með daginn.
Myndir: Þátttakendur og Leiðbeinandi.
19.08.2008
Föstudaginn 15.ágúst fór Ari H.Einarsson GÓS holu í höggi á braut 1 á Háagerðisvelli á Skagaströnd. Þetta er í annað skipti sem þetta gerist í sögu Golfklúbbs Skagastrandar, en á síðasta ári fór Frímann Guðbrandsson GSS holu í höggi á braut 7.
Ari er því orðinn félagi í Einherjaklúbbnum sem er klúbbur þeirra sem afrekað hafa að fara holu í höggi á golfvöllum landsins. Ari sem varð sjötugur á árinu fékk því sönnun þess að allt er sjötugum fært í þessari skemmtilegu íþrótt.
19.08.2008
„Tómstunda- og menningarmálanefnd Skagastrandar er það mikil ánægja að veita Soffíu S. Lárusdóttur viðurkenningu fyrir að hafa átt frumkvæði að samstöðu meðal íbúa við að gera Skagaströnd skrautlegri og skemmtilegri um Kántrýdaga.
Fyrir það ber að þakka.“
Svo segir á viðurkenningarskjali sem Jensína Lýðsdóttir, formaður nefndarinnar, afhenti Soffíu á laugardagskvöldi Kántrýdaga.
Við afhendinguna sagði Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, að skreytingar í bænum væru heillandi og afar skemmtilegar. Í byrjun áttu margir það til að skreyta garða sína en það þurfti einhvern til að hvetja menn til dáða, að taka höndum saman og vinna markvisst að skreytingum gatna. Soffía átti þetta frumkvæði. Hún tók upp símann, hringdi í nágranna sína, safnaði þeim saman og fyrir vikið var heil gata skreytt. Þetta barst út og íbúar í öðrum götum ákváðu að skreyta nágrenni sitt. Og nú er bærinn er allur skreyttur, öllum til gleði og ánægju.
18.08.2008
Magnús V. Guðlaugsson ljósmyndari færði fyrir helgi Sveitarfélaginu Skagaströnd listaverk að gjöf. Um er að ræða stóra mynd sem samsett er úr fjölda ljósmynda sem Magnús hefur tekið af görðum í bænum.
Listaverkið afhenti Magnús við opnun málverkasýningar Halldórs Árna Sveinssonar í Kælinum í Nes-Listamiðstöðinni við upphaf Kántrýdaga.
Adolf H. Berndsen tók við gjöfinni fyrir hönd sveitarfélagsins og færði hann listamönnunum að gjöf bókina Byggðin undir borginni.
Þess má geta að Magnús er fæddur á Skagaströnd og ólst þar upp til sextán ára aldurs.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri, Adolf, Halldór og Magnús og í baksýn hangir listaverk Magnúsar á vegg.
18.08.2008
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að umsóknarfrestur um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2007/2008 skuli framlengdur fyrir neðangreind byggðarlög. Athuga ber að umsóknarfrestur er til og með 1. september 2008, og vakin er athygli á að áður sendar umsóknir gilda áfram. Sveitarfélagið Árborg (Eyrarbakki) Sveitarfélagið Ölfus (Þorlákshöfn) Sveitarfélagið Gerðahreppur (Garður) Snæfellsbær (Rif og Ólafsvík) Grundarfjarðarbær (Grundarfjörður) Stykkishólmsbær (Stykkishólmur) Sveitarfélagið Vesturbyggð (Brjánslækur, Patreksfjörður, Bíldudalur) Tálknafjarðarhreppur Sveitarfélagið Bolungarvík Sveitarfélagið Ísafjarðarðarbær (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdalur, Ísafjörður) Árneshreppur (Norðurfjörður) Kaldrananeshreppur (Drangsnes) Húnaþing vestra (Hvammstangi) Blönduósbær (Blönduós) Sveitarfélagið Höfðahreppur (Skagaströnd) Sveitarfélagið Fjallabyggð (Siglufjörður, Ólafsfjörður) Grímseyjarhreppur (Grímsey) Dalvíkurbyggð (Hauganes og Árskógssandur) Akureyrarbær (Hrísey) Langanesbyggð (Þórshöfn og Bakkafjörður) Borgarfjarðarhreppur (Borgarfjörður eystri) Seyðisfjörður, Fjarðabyggð (Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður) Sveitarfélagið Djúpavogshreppur Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér.
15.08.2008
ATH. Breyttur opnunartími sundlaugar um Kántrýdaga
Föstudag 15.ágúst kl. 13:00 – 19:00
Laugardag 16.ágúst kl. 11:00 – 15:00
Sunnudag 17.ágúst kl. 11:00 – 15:00
Ekki er hleypt ofaní laugina hálftíma fyrir lokun.
14.08.2008
Ágætu Skagstrendingar
Við gerum okkur dagamun um næstu helgi á fjölskylduhátíðinni Kántrýdögum.
Hátíðin er að verða hefðbundin í dagskrá en auðvitað eru alltaf einhverjar breytingar og vonandi nýmæli.
Skemmtileg nýjung eru listasýningar sem allir eru hvattir til að skoða. Við höfum auðvitað miklar væntingar til að „Buskaranámskeiðið“ lífgi mikið upp á Kántrýdagana.
Núna verður opnað leikhús í Smábæ á Kofavöllum því brúðubíllinn verður með sýningu þar sem hefst kl 18, föstudaginn 15. ágúst. Sýnd verða tvö leikrit. Annað fjallar um fyrstu víkingana sem komu til Íslands. Hitt heitir heitir Pylsusalinn og er um hann Kobba sem ætlar að fá sér pylsu en það gengur heldur brösulega.
Sem fyrr er markmið hátíðarinnar fyrst og fremst að skapa góða stemningu í bænum og að við gerum okkur dagamun á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Það þarf ekki að nefna skreytingar því þær hafa verið svo ótrúlega skemmtilegar og hugmyndaauðgin mikil.
Við væntum þess að allir taki þátt í dagskrá hátíðarinnar og verði í léttu hátíðarskapi.
Tómstunda- og menningarmálanefnd
12.08.2008
Fimmtudaginn 14.ágúst halda Lausir og Liðugir tónleika í Kántrýbæ frá kl.22-01.
Liðin eru 10 ár síðan hljómsveitin kom síðast fram. En hana skipa: Birkir Rafn Gíslason, Jón Ólafur Sigurjónsson, Sigurður Berndsen og Þröstur Árnason. Frítt er inn og 100 fyrstu gestirnir fá frían bjór.