06.10.2008			
	
	FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 8. október 2008 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
 
1.       Fjármál og framkvæmdir
2.       Erindi til fjárlaganefndar
3.       Atvinnumál
4.       Félags- og skólaþjónusta A-Hún
a)    Fundargerð stjórnar, 1. okt. 2008.
b)   Fjárhagsáætlun 2008, endurskoðuð útgáfa.
c)    Ábyrgð vegna lántöku í Lánasjóði sv.fél.
 
5.       Aðalskipulag
a)    Drög að aðalskipulagi (sept 08)
b)   Matslýsing vegna aðalskipulags (18.09.2008)
c)    Fornleifaskráning Skagastrandar (tilboð í verkið)
 
6.       Bréf:
a)    Eignarhaldsfélag BÍ, dags. 2. okt. 2008.
b)   SSNV atvinnuþróunar
c)    Umboðsmanns barna, dags. 20. sep. 2008.
d)   Stjórnar smábátafélagsins Skalla, dags. 18. sept. 2008.
e)    Alþjóðahúss á Norðurlandi, dags. 23. sept. 2008.
f)     Strætó bs. dags. 17. sept. 2008.
g)    Þórðar Skúlasonar, dags. 1. sept. 2008.
h)   MX-klúbbs Skagastrandar, dags. 4. sept. 2008.
 
7.       Fundargerðir
a)        Skipulags- og byggarnefnd, 15.09.2008
b)       Stjórnar Tónlistarskóla A-Hún, 10.09.2008
c)        Stjórnar Byggðasaml um menningar og atvinnum. 31.07.08
d)       Heilbrigðisnefndar Nl.vestra, 26.08.2008.
e)        Stjórnar Norðurár bs. 20.08.2008
f)         Stjórnar SSNV, 3.09.2008
g)        Ársþings SSNV, 19.-20.09.2008
h)       Stjórnar Sambands ísl. sv.fél, 22.08.2008.
 
8.       Önnur mál
 
					
		
		
			
					06.10.2008			
	
	 
 
Rósamál heitir hin nýja ljóðabók Steinunnar P. Hafstað. Hún mun lesa upp úr bókinni fimmtudaginn 9. október næstkomandi í Kaffíhúsinu Bjarmanesi á Skagaströnd.
Bók sem verð er allrar athygli. Í bókinni eru mögnuð ljóð, rík að lífsvisku og dýpt sem snertir strengi í hjarta lesandans.
Steinunn P. Hafstað er fædd í Reykjavík og gaf út fyrstu bók sína fyrir fjórum árum ljóðabókina „Vertu sem lengst“.
Í ljóðum Steinunnar er sannarlega engin lognmolla, en í þeim felst samt mikill friður, gleði og einlæg sátt.
 
					
		
		
			
					03.10.2008			
	
	 
 
Núna um mánaðamótin komu nýjir listamenn í Nes-listamiðstöðina á Skagaströnd. Nokkur forföll hafa verið úr hópnum en þessir koma og eru þeir að sjálfsögðu boðnir velkomnir:
 
Anna S. Björnsdóttir  - rithöfundur og ljóðskáld 
Sverrir Sveinn Sigurðsson - rithöfundur
William Schlough - myndlistarmaður
Kate Dambach - myndlistarmaður en hún kom í byrjun september og verður út nóvember
Noemi Romano - hönnuður og textíllistamaður
 
Tveir listamenn af þeim sem voru hér í september munu koma aftur eftir áramótin, en það eru Jessica Langley og Ben Kingsley, bæði myndlistamenn frá Bandaríkjunum.
 
 
 
					
		
		
		
			
					01.10.2008			
	
	Námskeið á vegum Fræðsluskrifstofu A-Hún.
 
Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hélt námskeið fyrir kennara leik- og grunnskóla Húnavatnssýslna og Borðeyrar 25. september síðast liðinn. Umfjöllunarefnið var gagnkvæm virðing og umhyggja og hvernig  byggja á upp góðan bekkjar- og skólabrag og styrkja nemandann félagslega og námslega.
Nálgaðist hún efnið þannig að fræði og framkvæmd voru tengd nánum böndum. Sérstaka áherslu lagði hún á leiðir við að leysa árekstra og ágreiningsmál.
Þátttakendur unnu einnig verkefni í hópum.
Myndir: Þátttakendur og  leiðbeinandi.
 
 
					
		
		
			
					01.10.2008			
	
	Guðbjörg Ólafsdóttir og Finnur Kristinsson sigruðu í spurningakeppninni „Drekktu betur“ í Kántrýbæ. Tæplega sextíu manns mættu og skemmtu sér hið besta enda spurningarnar frekar léttar.
 
Mjótt var á mununum í keppninni. Guðbjörg og Finnur fengu 23 stig en tvö önnur lið komu þétt á hæla þeirra með 22 stig. Bjórspurningin taldist líklega allt of létt. því henni svöruðu líklega þriðjungur liða rétt og í kjölfarið varð mikil örtröð á barnum enda bjórglas í verðlaun. 
Keppnin þótti ágæt skemmtun og þátttakendur voru allir vel með á nótunum og létu til dæmis stjórnanda heyra það óþvegið þegar hann hélt því fram að KR væri Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu. Yfirleitt er sá sem spyr bæði dómari og alvaldur og þýðir ekkert að tjónka við hann jafnvel þó hann hafi sannarlega rangt fyrir sér. Í þetta skipti sá hann hins vegar að sér og var ljúfur og góður það sem eftir lifði leiks þrátt fyrir framíköll og glósur þátttakenda.
 
Spurningar í keppninni voru þrjátíu og var keppt í tveggja manna liðum. Gera má ráð fyrir að það taki rétt tæplega tvo tíma að spyrja spurninganna og fara yfir svörin, en hluti af leiknum er að fara yfir svör annarra. 
Næsta keppni verður föstudaginn 10. október og stjórnandi verður þá Ólafía Lárusdóttir, starfsmaður BioPol ehf. á Skagaströnd.
 
					
		
		
		
			
					30.09.2008			
	
	Þann 26. september lögðu skólastjórar Grunnskóla Húnavatnssýslna land undir fót og heimsóttu  Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Tilgangur ferðarinnar var að hitta Birnu Sigurjónsdóttur, sérfræðing á menntasviði, og hlýða á hana útskýra hvernig staðið er að ytra og innra mati á skólastarfi grunnskóla borgarinnar.
Í nýjum lögum um grunnskóla er enn meiri áhersla en áður lögð á mikilvægi mats á skólastarfi.
Þátttakendur héldu margs fróðari af fundinum  og telja sig betur í stakk búna að framfylgja lagaákvæðum nýrra grunnskólalaga.
Mynd: Skólastjórar Húnavatnssýslna á fundi í Reykjavík
 
					
		
		
		
			
					25.09.2008			
	
	 
 
Leikritið Þórdís spákona verður frumsýnt á Skagaströnd laugardaginn 4. október næstkomandi. Það er Spákonuarfur á Skagaströnd sem stendur fyrir sýningunni. 
Söguritunin var í höndum Sigrúnar Lárusdóttur, Dagnýjar Marínar Sigmarsdóttur og Svövu G.Sigurðardóttur en Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson færði sögu Þórdísar í leikrænan búning. Leikstjóri er Bryndís Petra Bragadóttir  og öll hlutverk eru í höndum heimamanna. 
Meðfylgjandi mynd var tekin á æfingu af Jénsínu Lýðsdóttur og Helenu Mara Velemir.
 
Í október árið 2007 fékk félagið Spákonuarfur á Skagaströnd styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra til þess að rita sögu Þórdísar spákonu, en hún var kvenskörungur en sagt er frá henni í nokkrum fornritum og einnig þjóðsögum. Samkvæmt heimildum bjó Þórdís við rætur Spákonufells á Skagaströnd og er hún fyrsti íbúinn sem sögur fara af á þessum slóðum. Hún var sögð tveggja framsýn og fjölkunnug og þekkt fyrir að hafa fóstraði Þorvald víðförla.
 
Í framhaldi af sögurituninni  hefur Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson fært sögu Þórdísar í leikrænan búning. 
Æfingar hafa staðið yfir undanfarnar vikur undir leikstjórn Bryndísar Petru Bragadóttur. Eru öll hlutverk í höndum heimamanna.
Verkið verður frumsýnt laugardaginn 4. október og síðan verður einnig sýning kvöldið eftir. Í upphafi sýningar verður leikhúsgestum boðið upp á þjóðlegar veitingar í formi kjötsúpu.
 
 
					
		
		
		
			
					24.09.2008			
	
	 
Listamennirnir í Nes-listamiðstöðinni verða með opið hús á laugardaginn frá kl. 14 til 18. Ben Kingsley frá Bandaríkjunum ætlar að vera með margmiðlunarverkefni og  filma fjölda manns sem hrópar hina amerísku upphrópun „Yee-Haw“. Það útleggst á voru ástkæra og ylhýra sem „Jí-ha“. Merkingin er dularfull en án efa fjölbreytt enda er þetta notað í alls kyns kringumstæðum, meðal annars hefur það oft heyrst í kábojmyndum. Ekki eru gerðar neinar sérstakar kröfur um klæðnað í tilefni dagsins.
 
Klukkan 18 mun rússneski rithöfundurinn Ivetta Gerasimchuk lesa upp úr verkum sínum á ensku í Kántrýbæ. Mðal annars mun hún lesa það sem hún hefur skrifað á Skagaströnd, þar á meðal „Óðinn til Skagastrandar“ í máli, myndum og tónlist.
 
Átæða er til að hvetja fólk til að hitta septemberfólkið í Nes- listamiðstöðinni en þau eru kát og hress og líkar greinilega lífið hér á Skagatrönd. Þess ber auðvitað að geta að listamennirnir eru margir nokkuð þekktir í heimalöndum sínum.
 
 
					
		
		
			
					24.09.2008			
	
	Fimmtudaginn 25. september  n.k. leggur línudanshópur Skagastrandar land undir fót  og flýgur út til Glasgow.  Er stefnan tekin á Linedance festival in Bute 26-29 sept 2008.
Festivalið er haldið í lítilli eyju rétt utan við Glasgow sem nefnist  Rothesay the ISLAND of Bute. Festivalið hefur verið haldið um árabil og þangað koma margir víða að til að nema þá skemmtilegu danslist sem línudansinn er.  Toppkennarar eru fengnir til að kenna ásamt góðum kántrý hljómsveitum.
Þeim sem langar að fræðast um festivalið  geta farið inn á heimasíðu þess sem er : http://www.butelinedance.co.uk/
Ákveðið var þann 10 september 2007  að fara á línudansfestivalið  í september 2008 og hefur því biðin verið löng en er nú komið að fardögum og  ríkir að sjálfsögðu mikil eftirvænting í hópnum.
Gaman er að segja frá því að meðlimir hópsins koma nú úr 3 sveitarfélögum af 4 í sýslunni en æfingar fara fram 1 sinni í viku á Skagaströnd að sjálfsögðu.
Heimasíða hópsins er : http://hofarnir.blogcentral.is/
Fyrirhugað er að halda byrjendanámskeið  í  október  til að efla hópinn enn frekar og hvet ég alla til að skrá sig sem áhuga hafa á dansi, bæði karla sem konur þegar það verður auglýst.
 
					
		
		
			
					16.09.2008			
	
	Nú byrjar þessi skemmtilega spurningakeppni í Kántrýbæ föstudagskvöldið 26. september næstkomandi, og verður framvegis hálfsmánaðarlega ef áhugi er fyrir hendi. Tilgangurinn er  fyrst og fremst að skemmta sér, spurningarnar eiga ekki að vera erfiðar, heldur fjölbreyttar og draga fram almenna þekkingu, síður sérhæfða.
Keppnin hefur verið haldin vikulega í mörg ár á skemmtistaðnum Grand Rokk í Reykjavík, á Langa Manga á Ísafirði, Café Riis á Hólmavík, Sjallanum á Akureyri og víðar.
Tveggja manna lið
Leikurinn fer þannig fram að keppt er í liðum og eru tveir í hverju liði. Að loknum spurningum er farið yfir svör og má óska eftir að spyrill lesi einstaka spurningar aftur. Liðin fara ekki yfir eigin svarblöð heldur er svarblöðunum safnað saman og þeim svo dreift aftur af handahófi.
Spyrillinn er dómari
Í leiknum er aldrei sami spyrillinn tvisvar í röð. Spyrillinn semur spurningarnar og er dómari og raunar alvaldur.
Hafi tvö eða fleiri lið jafnmörg rétt svör eftir 30 spurningar skal gripið til bráðabana. Þá er fyrst spurt 5 spurninga og reynt að knýja fram sigurvegara með flestum svörum réttum. Ef ekki fæst sigurlið úr þessum 5 spurningum skal spyrja 3 spurninga að auki. Ef ekki fást niðurstöður eftir það, skal spyrill spyrja spurninga, einnar og einnar í einu þar til úrslit fást.
Bjórspurning
Í hverri keppni er „bjórspurning“. Þau lið sem ná að svara þeirri spurningu rétt eiga þá inni tvo litla bjóra á barnum. Til að eiga möguleika á bjórkassanum sem er í verðlaun þarf sigurliðið að vera með 15 svör eða fleiri rétt.
Keppnisgjöld eru engin, en mælst til að keppendur kaupi á bjór á barnum, kaffi eða gosdrykki - þess vegna heitir keppnin „Drekktu betur“.
Spyrill í fyrsta skiptið verður Sigurður Sigurðarson, markaðsráðgjafi Sveitarfélagsins Skagastrandar. Ekki hefur verið ákveðið hver verður næsti spyrill en auðvitað eru allar tillögur vel þegnar.