25.01.2005
Gistiheimilið Dagsbrún á Skagaströnd hefur verið
starfrækt um langt árabil að Túnbraut 1-3. Eigendur
hótelsins eru Fisk Seafood en reksturinn hefur verið í
höndum Kántrýbæjar undanfarin ár. Í byrjun desember
sl. tók hlutafélagið Hörfell ehf. við rekstrinum en það er
í eigu hjónanna Guðrúnar Magnúsdóttur og Þrastar
Líndal. Hótelið er opið allt árið og er boðið upp á
gistingu í eins eða tveggja manna herbergjum með
morgunmat. Lögð er áhersla á notarlegt umhverfi og
þægindi, einnig er á hótelinu fundarsalur sem hægt er
að nota við ýmis tilefni.
25.01.2005
Eldsnemma á sunnudagsmorgni 23. janúar s.l. lögðu
fimm ungir menn úr Umf. Fram hér á Skagaströnd af
stað á “Gríslingamót ÍA” á Akranesi. Það þurfti að
mæta á Akranes kl. 10,00 og keppnin átti að byrja kl.
10,30. Færðin var þokkaleg og því gafst tími til að
skoða sparkvöllinn í Borgarnesi í leiðinni. Um leið var
nestið borðað og spjallað um mótið framundan.
Þessir ungu menn sem sjást hér á myndinni eru í 4 og
5 bekk Höfðaskóla. Þeir eru talið frá vinstri: Stefán
Velemir, Unnar Leví Sigurbjörnsson, Elías Gunnar
Hafþórsson, Sæþór Bragi Ágústsson og Guðjón Páll
Hafsteinsson.
Nokkrar ungar stúlkur á sama aldri úr Umf. Fram höfðu
sýnt því áhuga að fara en af ýmsum ástæðum áttu þær
ekki heimangengt. Þær fá tækifæri til að fara seinna.
Mótið fór þannig fram að skipt var í 6 lið sem báru nöfn
landa og þannig spiluðu allir 5 leiki. Hér er mynd af
sigurliðinu “England” og þar má sjá Stefán.
Með þátttöku sinni og framkomu opnuðu ungu
mennirnir ýmsar dyr fyrir aðra Skagstrendinga. T.d. eru
þeir foreldrar sem eru á ferð í Reykjavík með börn sín
velkomnir með þau á æfingar fyrir byrjendur hjá TBR
alla virka daga kl. 14-17. Aðeins þarf að segjast vera frá
Skagaströnd og spyrja eftir Árna Þór. Börnin geta
síðan tekið þátt í æfingunni eða horft á æfinguna.
Badmintonæfingar eru á þriðjudögum í íþróttahúsinu.
Tómstunda- og íþróttafulltrúi.
24.01.2005
Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd mun standa fyrir
gospellnámskeiði nk. laugardag, þann 29. jan. 2005.
Kennari og stjórnandi verður að vanda Óskar
Einarsson.
Þeir sem áhuga hafa á þátttöku eru vinsamlegast
beðnir um að skrá sig hjá Ingu í síma 452 2795. Gjald
fyrir námskeiðið er kr 2.000
Námskeiðið endar með Gospellmessu í Hólaneskirkju
sunnudaginn 30.janúar kl 14.00.
21.01.2005
Auglýsing og kynning
vegna vinnu við matsáætlun fyrir sorpförgun á NV
Undanfarin misseri hefur samstarfsnefnd um sorpförgun á NV unnið að
því að leita hentugra leiða fyrir sameiginlegt sorpurðunarsvæði fyrir
Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð. Samkvæmt lögum um mat á
umhverfisáhrifum nr. 106/2000 er slík framkvæmd matsskyld og ber
framkvæmdaraðila að kynna “tillögu að matsáætlun” bæði
umsagnaraðilum og almenningi.
Skilgreining á matsáætlun skv. lögum er eftirfarandi:
Áætlun framkvæmdaraðila byggð á tillögu hans um á hvaða þætti
framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu í matsskýrslu og
um kynningu og samráð við gerð matsskýrslu.
Fyrir liggja drög að “tillögu að matsáætlun” sem Ómar Bjarki
Smárason jarðfræðingur hefur unnið og eru þau til kynningar á
eftirfarandi stöðum frá og með 23. janúar til 6. febrúar 2005:
Útprentuð eintök liggja frammi:
- á skrifstofu sveitarfélagsins Skagafjarðar
- á skrifstofu Akrahrepps
- á skrifstofu Blönduóssbæjar
- á skrifstofu Höfðahrepps
Jafnframt er hægt að nálgast drögin á eftirfarandi vefsíðum:
- www.blonduos.is
- www.skagastrond.is
- www.skagafjordur.is
Hægt er að koma á framfæri skriflegum athugasemdum, fyrirspurnum
og ábendingum vegna “tillögu að matsáætlun” til:
Stapi - Jarðfræðistofa
Ómar Bjarki Smárason
Ármúla 19, 108 Reykjavík
eða á netfangið: stapi@xnet.is
F.h. samstarfsnefndar um sorpförgun á Norðurlandi vestra
Bjarni Maronsson, Skagafirði.
Jóna Fanney Friðriksdóttir, Blönduósi
Magnús B. Jónsson, Skagaströnd
21.01.2005
Fjárveitingar til byggingar heilsugæslu á Skagaströnd
voru samþykktar á alþingi í haust. Um er að ræða
nýbyggingu sem tengist við Sæborg, dvalarheimili
aldraðra og á hún að rísa við Norðurbraut. Fjárveitingin
á að koma verkefninu vel af stað og er stefnt að því að
bjóða hana út á síðari hluta ársins. Með þessari
framkvæmd næst sá áfangi að heilsugæslan verður á
einni hæð og aðgengi allt annað, en í dag er hún á
annari hæð og engin lyfta í því húsi.
20.01.2005
Fyrsta sumarhúsið er að rísa í nýju sumarhúsahverfi við
Skagaströnd. Húsið stendur við Hólaberg en gatan sem
húsin standa við var nefnd eftir bergjunum sem þau
standa við ofan við Vetrarbrautina. Skipulögð hefur verið
byggð fyrir 10 hús í þessum áfanga og er Snorraberg
ehf að byggja fyrsta húsið. Gert er ráð fyrir því að húsið
sé leigt út til almennra nota og ætlunin að það verði
tilbúið fyrir sumarið. Húsið er flutt inn í einingum frá
Lettlandi og er Trésmiðja Helga Gunnarssonar verktaki
við að reisa húsið og innrétta.
19.01.2005
Nokkrir vaskir krakkar ætla á sunnudaginn að taka þátt
í Gríslingamóti ÍA í badminton á Akranesi. Lagt verður
af stað í bítið og komið heim að kvöldi. Mótið er ætlað
11 ára og yngri og fara foreldrar með undir fararstjórn
Hjálms, tómstunda- og íþróttafulltrúa sem veitir allar
nánari upplýsingar í síma 844 0985.
19.01.2005
Vetur konunugur hefur ráðum ríkjum á síðustu vikum og
minnt á sig í ýmsum myndum. Snjór hefur lagst yfir allt
sem bætir þó birtuleysið í dimmasta skammdeginu.
Vel hefur gengið að halda götum og gönguleiðum
opnum og tækifærin á milli þegar dúrar notuð til að
hreinsa snjó út úr götum og breikka þær þar sem það á
við. Þannig hafa orðið til snjófjöll víða og eru þau
sumstaðar notuð til þess að stýra snjóum og að draga
úr skafrenningi þar sem það er hægt. Með þeim hætti
næst jákvæðri árangur út úr snjómokstrinum og hann
hjálpar til við að draga úr enn meiri snjósöfnun. Lögð
hefur verið áhersla á að auka hálkuvarnir og eru götur
og gangstéttar sandaðar þegar svellar til að draga úr
slysahættu.
03.01.2005
Áramótin voru haldin með hefðbundnu sniði á
Skagaströnd. Björgunarsveitin Strönd og
Ungmennafélagið Fram stóðu fyrir flugeldasölu í Gamla
Kaupfélagshúsinu. Þar fóru allir viðskiptavinir sem
versluðu fyrir 12 þúsund krónur eða meira í pott, síðan
var dregið úr pottinum og var Árni Sigurðsson skipstjóri
sá heppni og fékk í verðlaun tertur og flugelda að
verðmæti 20 þúsund.
Hátiðahöldin um kvöldið hófust með blysför að
brennunni og var svo kveikt í henni, við brennuna er
öllum gefin stjörnuljós, sem vekur sérstaka ánægju hjá
unga fólkinu og síðan hófst glæsileg flugeldasýning að
hætti Björgunarsveitarinnar Strandar.
Veðurútlit fyrir kvöldið lofaði ekki góðu, en
Björgunarsveitin Strönd og Umgmennafélgaið Fram
voru bænheyrðir og fór brennan og flugeldasýningin
fram í góðu veðri og skyggni.
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram vilja
þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við
undirbúning brennu og flugeldasýningar, gestum og
styrktaraðilum.
03.12.2004
Fimmtudagskvöldið 2. des. sl. var aðventustemming í
Viðvíkurkaffi. Boðið var upp á upplestur og lifandi
tónlist. Guðný, Steindór og Árdís lásu upp úr
áhugaverðustu bókunum og Hrafnhildur söng nokkur
jólalög við undirleik Elíasar. Allt þetta fólk skilaði sínu
með miklum ágætum. Steindór gat auðvitað ekki stillt
sig um að fleyta nokkrum skemmtisögum frá eigin
brjósti með upplestrinum og var í sínum besta ham.
Hrafnhildur skilaði jólalögunum á einstaklega
skemmtilegan hátt. Húsfyllir var á kaffihúsinu og
stemningin notaleg. Í kjallara kaffihússins var opið
jólahús þar sem handverksfólks á Skagaströnd hafði
muni sína til sölu. Þar gat m.a. að líta listmuni úr gleri
og járni, silfursmíð, trémuni, kort úr þangi, ýmis plögg
úr flóka og fjörusteina með jólaandlitum svo eitthvað sé
nefnt. Í Viðvíkurkaffi stendur einnig yfir málverkasýning
Jóns Ívarssonar sem sýnir olíumyndir á striga.
Kaffihúsið og markaðurinn verða opin laugardaginn 4.
des. kl 18-22 og sunnudaginn 5. des. kl 14-19. Einnig
verður opið þriðudaginn 7. des. og fimmtudaginn 9.
des. kl 20-22. Á þriðjudagskvöldinu verður upplestur.
Heimsókn í Viðvíkurkaffi og jólahús góð tilbreyting í
amstri jólaundirbúnings og sjón sögur ríkari.