Opnun Námsstofu

Laugardagninn 6. september sl. var Námsstofan á Skagaströnd opnuð formlega. Námsstofan er til húsa að Mánabraut 3 og hefur verið sett upp aðstaða þar fyrir fólk til að stunda fjarnám. Í Námsstofunni er boðið upp á aðgang að öflugum tölvum með góðri nettengingu en einnig aðstöðu til að lestrar. Við opnun Námsstofunnar komu margir til að skoða aðstöðuna og 11 manns skráðu sig til afnota af stofunni. Adolf H. Berndsen, oddviti afhenti Hjálfríði Guðjónsdóttur stofuna formlega, en hún hefur verið ráðin til að annast leiðsögn og stuðning við þá sem þar stunda nám.

Starfsfólk Barnabóls á Haustþingi

Haustþing leik og grunnskóla á Norðurlandi-vestra var haldið á Blönduósi, föstudaginn 22. ágúst síðastliðinn. Þetta er í fyrsta sinn sem haldið er sameiginlegt haustþing leikskóla og grunnskóla á Norðurlandi vestra. Í kring um 250 manns sóttu þingið. Finnbogi Sigurðsson formaður Félags grunnskólakennara og Björg Bjarnadóttir formaður Félags leikskólakennara fluttu ávörp. Lýstu þau ánægju sinni með sameiginlegt haustþing grunn- og leikskólanna á Norðurlandi vestra Leikskólastarfsfólkið hlýddi síðan á fyrirlestra hjá Guðjóni Ólafssyni sérkennslufræðingi og skólamálstóra í Austur- Húnavatnssýslu um hegðun og aga og hjá Antoni Bjarnasyni kennara um gildi hreyfingar Fimm námskeið voru í boði sem starfsfólk leikskóla gat valið um; Hagnýtt námskeið um aðalþætti í tónlistaruppeldi ungra barna, kennari Robert Faukhner Listsmiðja þar sem unnið var í anda Reggio Emilia hugmyndafræðinnar, en hún byggir á mikilvægi þess að virkja skynfæri barnanna og okkar sjálfra í gegnum leik og skapandi starf., Arna Guðný Valsdóttir fyrrverandi kennari í leikrænni tjáningu við Háskólann á Akureyri. Borghildur Blöndal kennari fjallaði um mataræði barna. Anna Gilsdóttir hjúkrunarfræðingur, stiklaði á stóru um grunnþætti í yoga fyrir börn á leikskólaaldri, Myndlist hjá Ólínu Geirsdóttur, litaæfing þar sem unnið var með blöndun lita þar sem ímyndunaraflið og hugmyndaflugið fékk að njóta sín. Aðrir fyrirlestrar voru í boði fyrir grunnskólakennarana; stærðfræði, lestrarkennsla í 1.-4. bekk, heimspeki fyrir börn, náttúrufræði, og margt fleira. Rauði Kross Íslands, Námsgagnastofnun og fleiri voru í anddyri Félagsheimilisins með kynningu á efni og vörum sem tengjast skólastarfinu. Fram kom eftir þingið að margir hefðu viljað sjá lengri sameiginlega dagskrá en vonandi er þetta bara byrjunin á farsælu starfi sem eflir þekkingu og styrkir samstafið á milli þessara nátengdu skólastiga. Þinginu lauk svo með hátíðarkvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik í Félagsheimilinu á Blönduósi. Helga Bergsdóttir leikskólastjóri

Námsstofa Skagastrandar

“Mennt er máttur” Námsstofa Skagastrandar er metnaðarfullt verkefni sem sveitarstjórn Höfðahrepps hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd. Námsstofan verður til húsa að Mánabraut 3 á Skagaströnd. Þessa dagana er unnið hörðum höndum að undirbúningi og ætlunin er að opna Námsstofuna formlega þann 6. september næstkomandi kl. 14:00. Allir bæjarbúar og þeir sem hafa áhuga á skólamálum eru hjartanlega velkomir. Markmiðin með starfsemi Námsstofu eru að hvetja og auðvelda bæjarbúum að afla sér aukinnar menntunar, hvort sem um er að ræða starfsmenntun eða einstök námskeið. Þessu markmiði hyggjumst við ná með því m.a. að veita einstaklingum námsaðstöðu og námsaðstoð auk þess að kynna þá námsmöguleika sem í boði eru. Það er von okkar að Námsstofan verði miðstöð fjar- og endurmenntunar á svæðinu. Námstofan er ekki skóli. Heldur miðstöð allra þeirra sem stunda fjarnám, sama við hvaða skóla. Staður til að læra, fá aðstoð og upplýsingar og síðast en ekki síst staður til að hitta aðra sem eru í fjarnámi. Námsstofan er því opin öllum sem eru í fjarnámi og þeim sem vilja kynna sér nám og námsmöguleika. Á Námsstofu verður öll aðstaða til fjarnáms: • Nettengdar tölvur • Góð vinnuaðstaða • Upplýsingar um nám og námskeið • Kennari til aðstoðar við námið. Þeir sem hyggjast nýta sér vinnuaðstöðu og búnað Námsstofu fá lykil sem veitir þeim aðgang að húsnæðinu hvenær sem þeim hentar. Kennari verður á staðnum á eftirfarandi tímum: Á þriðjudögum kl. 20:00 – 22:00 Á miðvikudögum kl. 17:00 – 19:00 Á fimmtudögum kl. 10:00- 12:00 og 14:00 – 17:00 Allar nánari upplýsingar fást hjá umsjónarmanni Námsstofu, Hjálmfríði Guðjónsdóttur í símum 4522747/8916170 eða með því að senda tölvupóst á netfangið: --- namsstofa@skagastrond.is ---- Fyrir hönd Námsstofu Skagastrandar Hjálmfríður Guðjónsdóttir

Líkami og sál – nýtt námskeið að hefjast..........

Í næstu viku hefst nýtt þriggja mánaða námskeið á vegum Líkama og Sálar. Kynningarfundur vegna námskeiðsins var haldinn í Kántrýbæ miðvikudagskvöldið 27. ágúst og að venju fjölmenntu konur á Skagaströnd á fundinn. Nú þegar eru á milli 30 – 40 konur búnar að skrá sig. Þetta er fjórða námskeiðið sem Líkami og Sál stendur fyrir. Eins og áður verður lögð áhersla á efla líkamlega og andlega líðan kvenna. Eða eins og segir í kynningarbréfi námskeiðsins “við ætlum að hittast, hreyfa okkur, hlæja saman og keppast við að halda okkur í góðu formi, líkamlega og andlega” Meðal þess sem boðið er upp á að þessu sinni er: leikfimi þrisvar í viku, námskeið í magadansi, jólagleði og margt fleira skemmtilegt. Sjúkraþjálfari mælir styrk og metur líkamlegt ástand allra þátttakenda og gefur góð ráð í byrjun námskeiðs, um miðbik þess og við lok. Þeir sem ekki komu á fundinn en langar að vera með þá er enn hægt að skrá sig. Bara að taka upp tólið og hafa samband við Bryndísi í síma: 8997919, Fríðu í síma: 8916070 eða Sólrúnu í síma:8629207 fyrir mánudaginn 1. september næstkomandi.

Brúðuleikhús í blíðunni

Brúðubíllinn var á ferðinni á Skagaströnd í gær og kom sér fyrir á Hnappstaðatúni eftir hádegið í blíðskaparveðri. Margir sóttu sýninguna sem var í boði Höfðahrepps. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum skín áhugi og einbeiting úr hverju andliti og vissara að vera við öllu búin þegar Blárefurinn ógnvænlegi fer á kreik.

Kántrýtónleikar og gospelmessa

Kántrýtónleikarnir á laugardagskvöldið tókust einstaklega vel. Þeir hófust með því að hljómsveitin The Hefners sté á svið og lék létta diskósmelli. Hljómsveitarmeðlimir voru uppábúnir í stíl fyrri tíma, með hárkollur og lituð andlit. Þeir voru hressir og skemmtilegir og tónlist þeirra lífleg. Næstir á svið voru KK og Magnús Eiríks sem léku m.a. lög af metsöludiski sínum 22 ferðalög. Áhorfendur sem voru á bilinu 1000-1500 kunnu vel að meta skemmtilegan flutning þeirra félaga og tóku undir sönginn, fullum hálsi. Hljómsveitin BSG sem skipuð er þeim Björgvin Halldórssyni, Sigríði Beinteinsdóttur, Grétari Örvarssyni og Kristjáni Grétarssyni tók næstu syrpu þar voru á ferð atvinnumenn sem kunnu sitt fag og enn magnaðist frábær stemming við kraftmikinn tónlistarflutning þeirra. Næstur á pall var kántrýkóngurinn sjálfur Hallbjörn Hjartarson. Hann brást ekki aðdáendum sínum fremur enn fyrri daginn og renndi sér í gegnum sína þekktu kántrýslagara við undirleik BSG manna. Hljómsveitin Brimkló tók svo lokahnykk á tónleikana og óhætt að segja að það hafi verið hnykkur sem um munaði. Tónlist þeirra félaga var hreint út sagt frábær. Hafi einhver komið með hálfum hug yfir því að þarna yrðu einungis fluttar útjaskaðar dægurflugur af hálfryðguðum poppurum, þá fékk sá hinn sami heldur betur aðra afgreiðslu. Gömlu góðu dægurflugurnar voru keyrða út af rafmögnuðum krafti og greinilegt að þeir sem að því stóðu voru hvergi ryðgaðir í fræðunum. Hljómsveitin sem núna er skipuð þeim Björgvin Halldórssyni, Arnari Sigurbjörnssyni, Haraldi Þorsteinssyni, Guðmundi Benediktssyni, Magnúsi Einarssyni, Þóri Baldurssyni og Ragnari Sigurjónssyni var gífurlega þétt og skemmtileg. Áhorfendur skemmtu sér hið besta og bæði sungu og tóku línudansaspor á túninu fyrir framan sviðið. Þótt margir ágætir listamenn hafi komið fram á kántrýhátiðum á Skagaströnd undanfarin ár er ekki á neinn hallað þótt fullyrt sé að þessir tónleikar hafi í heild verið besta dagskráratriði sem setti hafi verið á svið á þeim hátíðunum. Á sunnudeginum var hin hefðbundna gospelmessa. Séra Magnús Magnússon messaði og kór Hólaneskirkju söng gospellög undir stjórn og undirleik Óskars Einarssonar. Einsögnvarar í messunni voru: Björgvin Halldórsson, Sigríður Beinteinsdóttir, Fannar Viggósson og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir. Messan var að vanda létt og skemmtileg og tónlistarflutnigur allur eins og best verður á kosið.

Kántrý

Uppsetning tækja og búnaðar vegna Kántrýtónleika er á lokastigi. Leiktæki frá Hopp og skopp verða sett upp á svæðinu og nokkur söluborð. Helsta nýmæli í búnaði fyrir helgina er myndaspjald sem Kjartan Keen hefur málað. Þar er um að ræða stóra málaða mynd af kúreka á hesti. Myndin hefur þann ágæta eiginleika að hægt er að stinga andlitinu út í gegnum gat á myndinni og ljá kúrekanum sitt eigið andlit.

Krókabátar með góðan afla

Góður afli hefur verið hjá krókabátum gerðir eru út frá Skagaströnd að undanförnu. Gæftir hafa verið góðar og aflabrögð með ágætum. Vikuna 18.-25. júli var landað 235 tonnum úr 51 bát. Þeim bátum sem stunda veiðarnar frá Skagaströnd hefur farið fjölgandi og föstudaginn 25. júlí töldust þeir vera 58 en þá var bræla og allir bátar í höfn.

Nýr sorpbíll

Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar tók í notkun nýjan sorpbíl fimmtudaginn 24. júlí sl. Bíllinn sem er af gerðinni Volvo FM 9 er sambærilegur við eldri bíl sem er frá árinu 1994 en búin ýmsum nýjum búnaði, m.a. er tölvuvog til að magntaka og tvær myndavélar til að fylgjast með því sem gerist aftan við bílinn. Sorphreinsun VH hefur annast gámaþjónustu og sorphreinsun í Austur Húnavatnssýslu sl. 13 ár.

Togarinn Arnar HU 1 - metveiði í Barentshafi

Togarinn Arnar HU 1 er á leið til heimahafnar úr Barentshafi með góðan afla. Veiðarnar gengu með afbrigðum vel og afli var reyndar svo góður að það var eingöngu hraði á vinnslunni sem stýrði því hve mikill afli var tekinn á hverjum sólarhring. Upphaflega var áætlað að togarinn kæmi til heimahafnar í ágústmánuði og túrinn gæti tekið um 40 daga. Þessi góðu aflabrögð hafa hins vegar leitt til þess að Arnar HU verður einungis 22 daga í túrnum þrátt fyrir rúmlega fjögurra daga siglingu hvora leið á miðin. Það tók því ekki nema um 13 sólarhringa að veiða 720 tonna kvóta sem skipið hafði í Barentshafi. Veiðin var því um 33 tonn á úthaldsdag en var í raun rúmlega 55 tonn á þá daga sem skipið var að veiðum. Aflaverðmæti skipsins er áætlað um 117 milljónir króna.