Opnun útboðs í urðunarstað að Sölvabakka

Fimmtudaginn 6. maí, kl. 14 voru opnuð tilboð í útboðsverkið „Urðunarstaður Sölvabakka, Blönduósbæ“. Alls bárust 11 tilboð í verkið: Bjóðendur: Kt. Upphæð kr. % af áætlun Suðurtak ehf. 561109-0790 169.662.476 52,8% Nesey ehf. 700693-2369 186.517.600 58,1% G.V. Gröfur ehf. 500795-2479 198.362.641 61,8% Héraðsverk ehf. 680388-1489 198.787.131 61,9% Skagfirskir verktakar ehf. 660106-0490 198.992.000 61,9% Háfell ehf. 690186-1609 219.417.000 68,3% Suðurverk hf. 520885-0219 219.961.854 68,5% KNH ehf. 710795-2239 237.373.474 73,9% Borgarverk  ehf. 540674-0279 282.136.286 87,8% G. Hjálmarsson hf. 630196-3619 283.850.000 88,4% Ísar ehf./Árni Helgason/Verk.Glaumur ehf. 421000-2630 289.760.000 90,2% Kostnaðaráætlun verkkaupa   321.227.500 100,0%    

Vel heppnuð söngskemmtun í Hólaneskirkju

Kór eldri borgara í Húnaþingi bauð upp á skemmtilega samkomu í Hólaneskirkju á Skagaströnd síðastliðinn mánudag. Auk söngs var boðið upp á upplestur í bundnu og óbundnu máli.   Stjórnandi kórsins var Kristófer Kristjánsson en hann lék jafnframt á hljómborð. Einar Þorláksson lék einnig undir á harmoniku. Tónleikarnir voru styrktir af Menningarráði Norðurlands vestra.

Kennarar á námskeiði um ritlist

Þriðjudaginn 27. apríl hittust kennarar úr Húnavatnssýslunum á Skagaströnd til að fræðast um ritun.  Baldur Sigurðsson, lektor í Háskóla Íslands var þar mættur á vegum Fræðsluskrifstofu A-Hún. með seinni hluta námskeiðs sem hófst á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember sl. Kennararnir hittu þar kollega sína og ræddu þeir m.a. saman í hópum um málefni dagsins auk þess að hlýða á fyrirlestur Baldurs. Að venju voru allir alsælir þegar þeir héldu heim á leið, enda fátt skemmtilegra en að fræðast um áhugaverða hluti í góðum félagsskap.

Vorið er komið og golfvöllurinn opinn

Golfvöllurinn hefur verið opnaður. Um það er vitnað. Hrossagaukurinn hlakkar ofan brauta, lóan stendur móð og másandi á þriðju braut, gæsir hægja sér við grínið á annarri braut, rjúpur spóka sig og korra í jólafötunum og hettumáfar deila.  Kliður er í lofti enda farfuglarnir nýkomnir. Líklega fer betur á því að kalla þá komfugla á vorin og farfugla á haustin, en það er annað mál.  Utan girðingar á þriðju braut stendur brúnt hross og horfir á þegar maður nokkur mundar sig líklegan við teiginn. Það færir sig nær þegar hann tíar, reisir makka er hann sveiflar drævernum fagmannlega en hristir svo höfuðið er hann slær í jörð og kúlan skoppar fáeina metra. Lágvær hnegg, greinilega með neikvæðum tón, heyrist um leið og það skokkar að nærstöddum hryssum sem rökræða um vorið, folöld og fugla og grasneyslu. Já, grasið er óðum að lifna við. Víða er enn frostlyfting á brautum, en smám saman losnar um og vatnið sitrar hægt út í skurði.  Sami maður og hrossið hló að fann samt örlítið fyrir sjóveiki er hann gekk yfir öldótta áttundu braut og kerran valt og úr henni allt … Vorið er kraftaverk á  Háagerðisvelli. Þá verða breytingar sem gera golfvöllinn að perlu.  Og allir eru sammála manninum sem sagði: „Golfvöllurinn á Skagaströnd er líklega best geymda leyndarmálið á meðal kylfinga á Íslandi.“ Samt var hann ekki sá er hesturinn hló að.

Sveitarfélagið Skagaströnd leitar eftir starfsfólki í ýmis sumarstörf

Sveitarfélagið Skagaströnd leitar eftir starfsfólki í eftirfarandi sumarstörf: · Flokksstjórum til starfa í Vinnuskóla Skagastrandar frá 17. maí eða fyrr. Gerð er krafa um að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. · Almennum starfsmönnum til ýmissa sumarstarfa, 16 ára og eldri. · Starfsmanni til að hafa m.a. umsjón með „Kofavöllum“ fyrir börnin í samstarfi við Umf Fram. Starfið felst í umsjón með kofasmíði skólagörðum og leikjanámskeiði. · Umsjón með gæsluvelli á meðan sumarlokun leikskólans stendur yfir. · Sundlaugarvarsla í sumarafleysingum. Umsóknareyðublöð fást á skrifstofu sveitarfélagsins eða á www.skagastrond.is. Umsóknum skal skilað á skrifstofu sveitarfélagsins og er frestur til að sækja um starf flokksstjóra til 10. maí 2010 Nánari upplýsingar veitir Árni Geir Ingvarsson í síma 861 4267 eða á ahaldahus@skagastrond.is Skagaströnd, 3. maí 2010 Sveitarstjóri

Skagastrandarlistinn býður fram til sveitarstjórnar

Skagastrandarlistinn samþykkti á fundi í Kántrýbæ 26. apríl sl. svohljóðandi framboðslista til sveitarstjórnakosninga 2010:   1.    Adolf H. Berndsen 2.    Halldór G. Ólafsson 3.    Péturína L. Jakobsdóttir 4.    Jón Ó. Sigurjónsson 5.    Jensína Lýðsdóttir 6.    Baldur Magnússon 7.    Valdimar J. Björnsson 8.    Svenný H. Hallbjörnsdóttir 9.    Björn Hallbjörnsson 10. Birna Sveinsdóttir Skagastrandarlistinn hefur boðið fram undir bókstafnum S frá árinu 1994 en nú hefur verið ákveðið að þar sem Samfylkingin hafi fengið þann bókstaf úthlutaðan á landsvísu verði Skagastrandarlistinn að velja annan listabókstaf. Ákveðið hefur verið að Skagastrandarlistinn bjóði fram undir bókstafnum H. Listinn heitir því H-listi, Skagastrandarlisti.

Fullkomin rannsóknarstofa BioPol opnuð

„Við teljum nauðsynlegt að afla meiri upplýsinga um auðlindir sjávar og jafnframt að standa að nýsköpun sem gæti leitt af sér ný sóknarfæri hvað varðar atvinnusköpun. Þetta tvennt  er einmitt meðal þeirra stefnumiða sem fyrirtækinu er ætlað að starfa eftir.“ Þetta sagði Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf. á Skagaströnd í ræðu sinni föstudaginn 23. apríl er fyrirtækið tók formlega í notkun nýja og fullkomna rannsóknarstofu.  Fjölmenni var við vígsluna enda mikið um að vera á Skagaströnd þennan dag. Haldin var ráðstefna á vegum Fræðaseturs Háskóla Íslands og kynnt var starfsemi Nes listamiðstöðvar og Spákonuarfs. Svar við breyttum aðstæðum „Sjósókn og fiskvinnsla eru þær atvinnugreinar sem íbúar Skagastrandar hafa að mestu reitt sig á til lífsviðurværis í gegnum aldirnar. En síldin hvarf, rækjan, skelfiskurinn og kvótar í flestum fisktegundum hafa degist saman. Allt hefur þetta haft áhrif á Skagaströnd með beinum eða óbeinum hætti.  Stofnun Sjávarlíftæknisetursins BioPol ehf. er að hluta til svar við breyttum aðstæðum. Við teljum nauðsynlegt að afla meiri upplýsinga um auðlindir sjávar og jafnframt að standa að nýsköpun sem gæti leitt af sér ný sóknarfæri hvað varðar atvinnusköpun. Þetta tvennt  er einmitt meðal þeirra stefnumiða sem fyrirtækinu er ætlað að starfa eftir.“ Ör vöxtur Starfsemi BioPol ehf. hefur verið nokkuð fjölbreytt. Hér má nefna nokkur dæmi:  Rannsóknir á hrognkelsum sem lúta bæði að atferli og líffræði tegunarinnar sem og nýjum nýtingarmöguleikum.   Rannsókn sem miðaði að útbreiðslu og líffræði beitukóngs í Húnaflóa. Rannsókn á fæðunámi sela er og vinna við vöktunarverkefni sem tengjast áhuga manna við Húnaflóa á kræklingarækt.  Einnig hefur félagið fengið styrk til að gera athugun á sýkingarástandi hörpudisks í Húnaflóa.  Ræktun og einangrun á smáþörungum úr sjó með framleiðslu á hágæða fiskiolíum og öðrum verðmætum efnum að markmiði.  Góður stuðningur stórnvalda „Við segjum hér að Einar Oddur heitinn Kristjánsson hafi fyrstur skotið þessari hugmynd að okkur á vordögum 2007,“ sagði Adolf Berndsen, stjórnarformaður BioPol ehf. í ræðu sinni.  „Jón Bjarnason var einnig mikill talsmaður þess að við horfðum til rannsóknarstarfsemi. Öflugur stuðningur Háskólans á Akureyri hefur skipt sköpum við uppbyggingu  BioPol frá upphafi. Rannsóknir og verkefni hafa frá byrjun miðast við öflugt samstarf við aðila innanlands sem erlendis.  Á engan er hallað að nefna sérstaklega Hjörleif Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri sem hefur frá upphafi verið lykilmaður í þessu verkefni með okkur. Þorsteinn Gunnarsson þáverandi rektor sýndi einnig þessari uppbyggingu góðan stuðning.   Þingmenn kjördæmisins með Einar Kristinn Guðfinnsson þáverandi sjávarútvegsráðherra í broddi fylkingar studdu á afgerandi hátt við hugmyndina, auk fleiri ráðherra.“ 

40% nemenda grunnskólans leika á hljóðfæri

Um 40% nemenda í Höfðaskóla, grunnskólanum á Skagaströnd, stunda líka nám í Tónlistarskólanum. Þetta er nokkuð hátt hlutfall og án efa með því hæsta sem gerist á landinu. Það verður því áreiðanlega mikið líf og fjör þegar Tónlistarskólinn heldur vortónleika sína, en það verður á miðvikudaginn 28. apríl kl. 17. Nemendur skólans leika á hljóðfæri sín í lúðrasveit, hljómsveitum, leika einleik eða spila með öðrum. Þetta er viðburður sem enginn má láta fram hjá sér fara enda eru allir velkomnir.

Þórdís spákona er loksins komin heim

Þórdís spákona hefur verið fjarri Skagaströnd um hríð, í um það bil eitt þúsund ár, en er nú loksins komin heim. Hún hefur tekið sér bólfestu í Gamla Kaupfélagshúsinu, að minnsta kosti í bili. Það er Spákonuarfur sem hefur látið búa til líkneskið af Þórdísi. Fyrirmynd Þórdísar er Jensína Lýðsdóttir sem lék hana í leikriti sem sýnt var í Fellsborg fyrir rúmu ári.  Líkneskið gerði Ernst Backman sem var frumkvöðull að stofnun Sögusafnsins í Perlunni í Reykjavík. 

Vel heppnaður hátíðisdagur Fræðaseturs á Skagaströnd

Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tók formlega til starfa á föstudaginn með opinni athöfn á loftinu í Kaupfélagshúsinu.  Fjöldi manns kom á opnunina, sem Lárus Ægir Guðmundsson stjórnaði af röggsemi.  Á samkomuna voru mættir ýmsir aðilar sem Fræðasetrið hefur hug á samstarfi við og má þar nefna fólk frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Tónlistarsafni Íslands, Miðstöð munnlegrar sögu og Forsvari  ehf. á Hvammstanga. Sömuleiðis mættu til leiks stjórnarmenn Fræðasetursins ásamt fólki frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ýmsum öðrum. Það er mikill stuðningur við starf og framtíðarsýn hins nýja Fræðaseturs að allt þetta fólk skuli hafa komið til að fagna þessum merka degi.   Ræðumenn sem tóku til máls í tilefni opnunar Fræðasetursins voru Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Lára Magnúsardóttir forstöðumaður setursins.  Fram kom í máli Láru að Elín Hannesdóttir hefur boðið Fræðasetrinu að þiggja að gjöf bókasafn eiginmanns hennar, Halldórs Bjarnasonar sagnfræðings sem lést í haust. Safnið telur um 3000 titla og vonar Lára að hægt verði að gera safninu sóma á Skagaströnd, enda myndi það bæta stöðu Fræðasetursins stórkostlega, þar sem vinnutæki sagnfræðinga eru bækur.  Hún kynnti að lokum Soffíu Guðnýju Guðmundsdóttur íslenskufræðing til leiks, en hún hefur verið ráðin verkefnisstjóri hjá Fræðasetrinu næstu þrjá mánuðina til að sinna sérstökum málum.  Síðan færðu Anna Agnarsdóttir, prófessor og forseti Sögufélags, og Eggert Þór Bernharðsson, deildarforseti sagnfræði- og heimspekideildar, setrinu bókagjafir frá Sögufélagi og Sagnfræðistofnun HÍ.   Gestum var síðan sýnd Nes listamiðstöðin og Árnes og heimamenn dönsuðu línudans við mikinn fögnuð áhorfenda. Eftir móttöku í Bjarmanesi var gengið til snæðings í Kántrýbæ, þar sem þriggja rétta, vel útilátin og afar bragðgóð máltíð var til sölu á góðu verði.   Á laugardeginum fór  fyrsta málþing Fræðasetursins fram en þar var fjallað um samskipti Íslands við erlend ríki og spurt hvernig sagnfræðin getur lagt sitt af mörkum við að taka afstöðu til spurninga eins og þeirrar hvort það sé Íslandi í hag að ganga í Evrópusambandið.   Tilefni þingsins, sem sveitarfélagið Skagaströnd skipulagði ásamt Fræðasetrinu með aðstoð frá SSNV, var meðal annars að í ár eru liðin 150 ár frá því Valtýr Guðmundsson fæddist á Skagaströnd.  Málþingið var opið öllum og það var nánast fullt hús í hinum fallegu húsakynnum í Bjarmanesi. Í lokin stýrði Ármann Jakobsson lektor í íslenskum bókmenntum umræðum.  Loks var ekið í rútu norður eftir Skaganum undir styrkri og skemmtilegri leiðsögn Magnúsar B. Jónssonar sveitarstjóra. Veðrið lék við gesti og heimamenn og þegar lagt var úr hlaði kl. 16:30 virtust gestir jafnánægðir með allan framgang mála og skipuleggjendur.