Spástofa verður í elsta húsi Skagastrandar

Menningarfélagið Spákonuarfur ehf. á Skagaströnd hefur tekið á leigu Árnes,elsta húsið á Skagaströnd. Það var fyrir skömmu tekið formlega í notkun en sveitarfélagið hefur frá árinu 2007 unnið að endurbyggingu þess.  Fjöldi bæjarbúa skoðuðu húsið á opnunardeginum og er engu líkar en það sé tímavél sem stillt er á árið 1920. Allt innanstokks miðast við fyrri hluta síðustu aldar og eru ýmsir húsmunir komnir af Sjóminja- og sögusafni Skagastrandar og Byggðasafninu á Reykjum. Spákonuarfur leigir Árnes til þriggja ára og hyggst meðal annars nýta sér húsið fyrir Spástofu sem er hluti af starfsemi fyrirtækisins. Auk þess er gert ráð fyrir að húsið verði til sýnis og einnig notað til sýningarhalds. Árnes var byggt árið 1899 af Fritz H. Berndsen kaupmanni sem hafði átt verslun á Skagaströnd um langt árabil. Frá upphafi hafa eigendur hússins einungis verið fjórir. Árnes hefur umtalsvert menningar- sögulegt gildi. Það er gott dæmi um aðstöðu og lifnaðarhætti á fyrra hluta 20 aldar og er fallega staðsett á svæði sem sveitarstjórn hefur skilgreint sem safnasvæði.  Árnes er dæmigert timburhús frá fyrri hluta síðustu aldara og hið eina þessarar gerðar í bænum sem mögulegt var að varðveita. Innréttingar eru að mestu upprunalegar sem enn frekar eykur gildi hússins. Sveitarfélagið Skagaströnd keypti það 2007 til að láta gera það upp í upprunalega mynd. Frá upphafi var gert ráð fyrir að húsið verði notað til sýningar og leitast hefur verið við að búa til sannfærandi mynd af heimili sem nútímafólk myndi telja afar gamaldags.

Fundur skógræktarfélagsins

Skógræktarfélag Skagastrandar Fundur verður haldinn um endurvakningu Skógræktarfélags Skagastrandar mánudaginn 13. júlí nk. kl. 20.00 í Skíðaskálanum. Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands mætir á fundinn og fer yfir félagsmálefni, árangur og störf í skógrækt. Rætt verður um skógrækt og ræktunarmöguleika á Skagaströnd. Allir áhugamenn velkomnir. Undirbúningsnefndin.

Kynningarfundur um tillögu að breytingu á svæðisskipulagi A-Hún 2004-16

Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu boðar til kynningar skv. 1. mgr. 13. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. Kynningin verður á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, Blönduósi mánudaginn 6. júlí 2009.  Gerð er tillaga um eftirfarandi breytingar á svæðisskipulaginu.  Landbúnaðarsvæði í landi Sölvabakka í Blönduósbæ breytt í sorpförgunar- og efnistökusvæði.  Landbúnaðarsvæði og opnu svæði til sérstakra nota í landi Hnjúka austan við Blönduós er breytt í iðnaðarog athafnasvæði  Landbúnaðarsvæði á Öxl II í Húnavatnshreppi breytt í verslunar- og þjónustusvæði og opið svæði til sérstakra nota.  Lögformleg auglýsing breytingartillögunnar verður jafnframt til sýnis frá 6. júlí 2009 til 4. ágúst 2009 og á eftirfarandi stöðum; Skrifstofu Húnavatnshrepps, Húnavöllum, skrifstofu Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3, skrifstofu Skagabyggðar, Örlygsstöðum 2, Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, í Reykjavík og á heimasíðum sveitarfélaganna. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 18. ágúst 2009.  Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu 

Tillaga að breytingu á Svæðisskipulagi A-Hún 2004-2016

Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu auglýsir skv. 1. mgr. 14. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. tillögu að breytingu á svæðisskipulagi á jörðunum Sölvabakka í Blönduósbæ, Hnjúkum í Blönduósbæ og Öxl II í Húnavatnshreppi. Gerð er tillaga um eftirfarandi breytingar á svæðisskipulaginu: Landbúnaðarsvæði í landi Sölvabakka breytt í sorpförgunar- og efnistökusvæði. Landbúnaðarsvæði og opnu svæði til sérstakra nota austan við Blönduós breytt í iðnaðar- og athafnasvæði Landbúnaðarsvæði á Öxl II í Húnavatnshreppi breytt í verslunar- og þjónustusvæði og opið svæði til sérstakra nota. Breytingartillagan, greinargerð og umhverfisskýrsla verður til sýnis á eftirfarandi stöðum; Skrifstofu Húnavatnshrepps, Húnavöllum, 541 Blönduósi, skrifstofu Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, 540 Blönduós, skrifstofu sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3, 545 Skagaströnd, skrifstofu Skagabyggðar, Örlygsstöðum 2, 545 Skagaströnd og á Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 150 Reykjavík frá 6. júlí 2009 til 4. ágúst 2009. Tillagan er einnig til sýnis hér á skagastrond.is. Þarna er að finna kort af því svæðí sem um er rætt og einnig umhverfisskýrslu vegna breytinganna. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytingartillöguna. Frestur til þess að skila inn athugasemdum rennur út þriðjudaginn 18. ágúst 2009. Skila skal athugasemdum á þeim stöðum sem gögnin eru til sýnis og eru nefndir hér að ofan og skulu þær vera skriflegar. Þeir sem ekki gera athugasemdir viðbreytingartillöguna fyrir tilskilinn frest teljast samþykkir henni. Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur Húnavatnssýslu

Kistill Þórdísar er kominn upp á Borgarhausinn

Kistill Þórdísar spákonu var í gær fluttur upp á Spákonufell og þar komið fyrir í vörðunni. Hann geymir gestabók fjallsins og áheitastein. Kistlinum er komið fyrir við gömlu vörðuna og var hlaðið í kringum hann þannig að engu líkar er en hann að sitji efst í henni. Kistillinn var formlega vígður. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, tónaði viðeigandi erindi úr Hávamálum og Völuspá. Halldór Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf. var meðhjálpari við vígsluna. Í kistlinum er eftirfarandi texti: Velkomin á Borgarhaus Þetta er kistill Þórdísar spákonu. Hann geymir gestabók og áheitastein. Hvatt er til þess að göngufólk riti nafn sitt í bókina.  Á steininn er rist rúnin Ægishjálmur. Hann getur unnið bæði mein og bót.  Hins vegar er náttúra steinsins slík að einungis óeigingjarnar og góðar óskir eða áheit gagnast. Viðbúið er að ill áheit og ófrómar óskir snúist og hitti þann sjálfan sem óskar. Þórdís spákona var fégjörn nokkuð og því gæti verið til bóta að leggja í sjóð hennar ef mikið liggur við.   Mikilvægt er að ætíð sé vel frá kistlinum gengið.  Sá sem spillir því sem hér er, má búast við ævilangri ógæfu. Góða heimferð - gætið varúðar í fjallinu Kistillinn er einstaklega fallegur gripur sem Helgi Gunnarsson, trésmiður á Skagagströnd bjó til. Ari Jón Þórsson hjá Vélaverkstæði Skagastrandar sá um að leggja kopar á kannta, læsingar, undirstöður og annað. Fyrir vikið er kistillinn ansi forn í útliti og engu líkar en þarna sé sá kistill kominn sem Þórdís spákona lagði forðum fjársjóð sinn í og kom fyrir í hömrum Borgarhaussins. Heljarmennið Jón Heiðar Jónsson tók 15 kg kistilinn á bakið og flutti upp á fjallið ásamt járngrindinni sem notuð er til að festa hann. Þess er vænst að kistill Þórdísar verði nú á Borgarhausnum að minnsta kosti næstu tvöhundruð og fimmtíu ár en það er sá endingartími sem Helgi og Ari geta ábyrgst.  

Þórdísarganga á Spákonufell föstudaginn 3. júlí kl. 21

Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd stendur fyrir göngu á Spákonufell n.k. föstudagskvöld.  Á síðasta ári voru farnar tvær Þórdísargöngur á Spákonufell sem tókust mjög vel og voru þátttakendur þá alls um 150. Fararstjóri er að vanda sagnamaðurinn Ólafur Bernódusson. Hann segir frá Þórdísi spákonu og bendir á staði sem tengjast sögu hennar. Mæting er við Golfskálann að Háagerði. Að lokinni göngu verður boðið upp á nátthressingu sem er innifalin í verð. Þátttökugjalder 1500 kr. en ókeypis er fyrir yngri en 16 ára. Frekari upplýsingar gefnar í síma 8615089.

Yndislegur staður, sögðu Þjóðverjarnir

Þau litu inn í kaffihúsið í Bjarmanesi rétt eins og hundruðir annarra, dvöldu þar kannski ívið lengur og spurðu margs. Daginn eftir komu þau aftur og kölluðu vertinn, hana Steinunni Ósk, til sín. Þetta er yndislegur staður, sögðu þessir Þjóðverjar og vildu þau gefa Steinunni listaverk úr tré vegna þess að Café Bjarmanes er sá veitingastaður á Íslandi sem þau kunnu best við, var þó úr mörgum góðum að velja. Með listaverkinu fylgdi bréf með þessum orðum, í lauslegri íslenskri þýðingu: Kæri listamaður, Þetta listaverk bjó vinur okkar til en hann býr í Rejensburg í Þýskalandi. Hann kallar það Walle (Veggur/Múr). Hann lét okkur fá það þegar við sögðum honum frá því að við ætluðum að ferðast um hið yndislega Ísland með vinum okkar. Listaverkinu er ætlað að hvetja til skilnings milli þjóða heimsins. Það er myndað úr dökkrauðum hjörtum. Vonandi fellur þér það vel í geð - það er gjöf til þessa fallega veitingahúss þar sem svo gott er að heimsækja. Ef til vill finnur þú stað fyrir það þar sem það getur minnt þig á okkur. Með kveðju, Julia Jochwirtt og finir, Gabriel, Kathi og Jörg frá Þýskalandi.

Ævintýri á gönguför barnanna

Yngstu börnin í leikskólanum gerðu sér dagamun þegar júní var að ljúka. Þau klæddu sig upp, gengu um Skagaströnd, guðuðu á glugga og kölluðu heimafólk út. Af barnslegri einlægni voru þau fínust af öllum í heiminum. Og ekki voru „stóru krakkarnir“ síðri. Þeir höfðu líka klætt sig í alls kyns búninga og nutu dagsins. Samt var ekki laust við að þeir litlu yrður pínulítið hræddir þegar gassagangurinn var sem mestur í þeim stóru. Þá voru sum svo heppin að hafa mömmu og jafnvel afa nærri til að sannfæra sig um að þetta væri allt í gríni gert.

Opið hús í Árnesi kl. 18

Endurbyggingu Árness er nú lokið. Af því tilefni verður það til sýnis með húsbúnaði fyrri tíma. Allir eru hjartanlega velkomnir. Árnes sem er 110 ára og elsta hús á Skagaströnd er nú gengið í endurnýjun lífdaga og því er óskað er eftir tillögum eða hugmyndum um nýtingu og/eða rekstur þess. Frestur til að skila hugmyndum er til föstudagsins 3. júlí 2009.

Óskað eftir tillögum eða hugmyndum um nýtingu Árness

Árnes er elsta húsið á Skagaströnd, byggt árið 1899, og er einstakt dæmi um aðstöðu og lifnaðarhætti á fyrri hluta 20. aldar. Það hefur nú verið endurbyggt í því sem næst upprunalegri mynd og menningar- og sögulegt gildi þess er mikið.  Auglýst hefur verið eftir tillögum eða hugmyndum um nýtingu og/eða rekstur í Árnesi. Leitað er eftir aðilum sem er tilbúnir til að fylgja hugmyndum sínum eftir. Frestur til að skila hugmyndum er til föstudagsins 3. júlí 2009. Sveitarstjóri