02.07.2003
Daginn fyrir sumarsólstöður, fóru börnin á Barnabóli ásamt
starfsfólki og nokkrum foreldrum upp í Hrafndal og gróðursettu
birkiplöntur. Leikskólabörnin hafa helgað sér stað í dalnum, í
hlíðinni þar sem stiginn er yfir girðinguna og nefnt hann
Barnasel. Þar eru settar niður plöntur á hverju ári því afföll eru
alltaf nokkur svo lengi er hægt að bæta við. Í haust fara
leikskólabörnin aftur upp í Barnasel en þá verða týnd þar ber.
02.07.2003
Framkvæmdum á kirkjutorginu við Hólaneskirkju er lokið og
hefur svæðið tekið á sig annan blæ. Þykir hafa tekist vel til
með skipulag og framkvæmdina sem ber handverki
starfsmanna gott vitni. Svæðið var teiknað af Hornsteinum
arkitektar ehf. Verkefnastjórn þess var í höndum
umhverfisstjóra Höfðahrepps. Að verkefninu komu
starfsmenn Höfðahrepps, starfsmenn Trésmiðju Helga
Gunnarsonar ehf., Vélaleigu Guðmundar Björnssonar,
starfsmenn Sorphreinsunar Vilhelms Harðarssonar ehf.,
Sigurbjörn Björgvinsson bifreiðarstjóri og starfsmenn Rarik.
01.07.2003
Íþróttahúsið á Skagaströnd verður opið sem hér segir í sumar:
Kl 17:00 - 20:00 alla virka daga.
Sundlaugin er opin
virka daga 09:00 - 12:00 og 13:00 - 22:00
um helgar 13:00 - 17:00.
Þó er lokað mánudaga og fimmtudaga kl. 11:00 - 12:00 vegna
sundæfinga UMF Fram
01.07.2003
Togarinn Arnar kom til heimahafnar á Skagaströnd
sunnudaginn 29. júní sl. Afli skipsins var er átætlaður 557
tonn sem er rúmlega 1000 tonn úr sjó. Aflinn er að mestu
úthafskarfi en einnig er grálúða lítill hluti aflans. Skipið var um
24 daga að veiðum og meðalafli á dag var því tæp 42 tonn.
Aflaverðmæti er áætlað um 70 milljónir.
12.06.2003
Þann 24. maí síðastliðinn var Opið hús með vorsýningu á
leikskólanum Barnabóli.
Um eitt hundrað manns komu í heimsókn á leikskólann
þennan dag og skoðuðu listaverk barnanna frá því í vetur.
Ljósmyndir af börnunum við leik og störf, rúlluðu yfir
tölvuskem og sumir foreldranna rifjuðu upp löngu gleymda
hæfileika með pensilinn að vopni. Veðurguðirnir léku við okkur
og því var upplagt að færa trönurnar út á leikskólalóðina til að
fá sem bestan innblástur úr umhverfinu við myndsköpunina.
Foreldrafélag leikskólans seldi gestunum kaffi og kökur.
10.06.2003
Við Leikskólann Barnaból er starfandi kröftugt foreldrafélag en
þegar börn byrja á leikskólanum verða foreldrar þeirra sjákrafa
meðlimir félagsins.
Þessi frábæru foreldrarnir hafa verið duglegir við að styðja við
bakið á leikskólastarfseminni og má þar nefna vinnuframlag
þeirra þegar allt starfsfólkið sótti námskeið, við að keyra
okkur út og suður, taka þátt í íþróttadegi og sveitaferð svo
eitthvað sé nefnt. Snemma í vor gaf foreldrafélagið
leikskólanum þrjú þríhjól, eitt stórt með palli og tvö sparkhjól.
Einnig splæsti félagið í stafræna myndavél handa
leikskólanum. Bæði börn og starfsfólk leikskólans eru að
vonum harla ánægð með þessar fínu gjafir og senda
foreldrunum sínar bestu þakkir.
02.06.2003
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Skagaströnd,
sunnudaginn 1. júni sl. Hátíðardagskrá var með hefðbundnum
hætti.
Dagurinn hófst með skrúðgöngu frá höfn að kirkju þar sem
haldin var sjómannamessa. Að messu lokinni var lagður
blómsveigur á minnimerki týndra sjómanna. Eftir hádegi var
boðið upp á skemmtisiglingu en síðan hófst dagskrá með
kappróðri. Eftir það voru hefbundin atriði á Hafnarhúsplani þar
sem m.a. Hallgrímur Jónsson var heiðraður fyrir störf við
sjómennsku. Eftir dagskrá við höfnina lauk var kaffisala í
skólanum. Þar var einnig opin málverkasýning Jóns Ó
Ívarssonar og einnig sýning á verkum nemenda grunnskólans.
Í Fellsborg var sýnd fjölskyldumyndin Skógarlíf II.
Hátíðarhöldum lauk síðan með dansleik í Fellsborg þar sem
hljómsveit Geirmundar Valtýssonar lék fyrir dansi.
Það er Björgunarsveitin Strönd sem hefur veg og vanda af dagskrá
sjómannadagsins.
02.06.2003
Laugardaginn 31. maí 2003 fermdi sr. Magnús Magnússon
fjögur börn í Hólaneskirkju á Skagaströnd.
Þau eru:
Almar Freyr Fannarsson
Arnrún Bára Finnsdóttir
Ásþór Óðinn Egilsson
Guðmundur Ingi Ólafsson
26.05.2003
Höfðahreppur hefur samið við Helga Gunnarsson og Baldur
Haraldsson að annast enduruppbyggingu húseignarinnar
Bjarmaness sem í daglegu tali er kallað “gamli skólinn”.
Húsið sem var byggt 1913 af Verslunarfélagi Vindhælinga er
orðið illa farið og hefur verið breytt oftar en einu sinni á 90 ára
ferli sínum.
Upphaflega var húsið byggt sem verslun og íbúð
verslunarstjóra en þjónaði því hlutverki ekki nema í um 10 ár
því Verslunarfélagið hafði þá keypt eignir kaupmannsins
Evalds Hemmert við Einbúann og flutti starfsemi sína þangað.
Bjarmanes var þá tekið undir skólahús en ávallt var þó búið í
húsinu jafnframt. Það þjónaði einnig hlutverki samkomuhúss
á tímabili og eftir 1958 þegar skólinn flutti í nýtt húsnæði var
það notað sem íbúðarhús og síðar sem lögreglustöð. Síðustu
10-15 árin hafa munir Sjóminja- og munasafns Skagastrandar
verið varðveittir í húsinu.
Framkvæmdir við endurbæturnar eru hafnar og er ætlunin að
koma ytra útliti hússins sem næst upprunalegu horfi. Það
felur í sér að rífa tröppur og anddyri sem byggt var austan á
húsið og breyta gluggsetningu og jafnframt að endurbyggja
tröppur bæði sunnan og vestan á húsinu. Einnig verður skipt
um þak og endurbyggðir skorsteinar. Steinsteypa í útveggjum
hússins er víða illa farin og kallar á miklar múrviðgerðirnar.
Eitt af því sem hefur vakið athygli við undirbúning að
endurbótunum eru múrstrikanir á neðri hluta útveggja. Þær
eru listilega gerðar og bera fagmennsku fyrri tíma gott vitni
þar sem í blautan múrin hefur verið strikað hleðslumynstur
svo hvergi virðist skeika millimetra. Verður reynt að halda
þessu sérkenni við endurbyggingu ásamt mörgu öðru sem
einkenndi húsið. Má þar m.a. nefna steypta járnglugga á
kjallara.
Byggingastjóri við framkvæmdina er Helgi Gunnarsson en
múrverk annsta Baldur Haraldsson (Hendill ehf). Eftirlit og
verkfræðihönnun er á höndum Línuhönnunar en arkitekt að
endurbótum er Jon Nordsteien
Áætlað er að kostnaður við endurbætur utanhúss muni kosta
um 5 milljónir og heildarkostnaður við að endurgera húsið
muni verða um 18 milljónir. Eftir endurbygginguna er gamla
skólanum ætlað hlutverk á menningar- og menntunarsviði.
15.05.2003
Miðvikudaginn 14. maí hélt hópur nemenda 9. og 10. bekkjar
Höfðaskóla í skólaferðalag til Danmerkur. Í hópnum eru 28
nemendur og 3 leiðbeinendur. Þau munu dvelja í
Kaupmannahöfn og nágrenni til 20. maí. Á dagskránni er að
heimsækja skemmtigarðana Bakken og Tívolí og líta við
í "Belive it or not" safninu ásamt mörgu öðru skemmtilegu og
fræðandi.