12.11.2003
Það var löggumaður og löggukona sem komu, sagði
einn. Já, þau komu á löggubílnum, sagði annar. Og
löggukonan sagði börnunum söguna af honum bangsa
sem tók af sér beltið meðan bíllinn var á ferð og flaug á
sætið og meiddi sig þegar kisan hljóp yfir veginn. Já, af
því hann þurfti að bremsa svo fast svo hann keyrði ekki
á hana.
Ég nota alltaf hjálm þegar ég hjóla, en hann pabbi minn
gerir það ekki,heyrðist út í horni.
Já og ég hjóla alltaf á gangstéttinni. Ég get hjólað með
engin hjálpardekk.
Löggan gaf okkur svona endurskinsmerki, já en það var
frá bankanum. Ég á svona merki heima á úlpunni
minni. Maður getur notað tvö. Það má fara út á
peysunni til að skoða löggubílinn. Ein stelpan var á
inniskónum, en það er svo hlýtt, bergmálar einn. Ég
fékk að ýta á takkann, það kom hávaði. Einhver var
hræddur við hávaðann, ein hélt fyrir eyrun. Maður
hringir bara í 112 þegar slysið kemur.
Og umræðurnar héldu áfram ...
10.11.2003
Fimmtudaginn 30. nóvember sl. var Alda HU 12 sjósett í
Hafnarfirði. Alda er 15 tonna plastbátur smíðaður hjá
Bátagerðinni Samtak í Hafnarfiriði. Alda HU 12 kom til
heimahafnar á Skagaströnd sunnudaginn 9. nóvember. Í
bátnum er vél af gerðinni Catepillar 3196 sem er 660 hestöfl.
Hann er einnig útbúinn með bógskrúfu sem er 8 hö. Mjög fullkominn
búnaður er í bátnum og má segja að nýjustu siglinga- og fiskileitartæki
séu til staðar. Auk þessa eru stafrænar myndavélar sitt
hvoru megin við vélinu og þannig er hægt að vakta hana á
tölvuskjá. Um borð í bátnum er 120 lítra vatnstankur og bæði
heitt og kalt vatn. Í lest Öldunnar komast 11 stk. 660 lítra
fiskikör og eitt 380 lítra. Aldan er útbúin til línuveiða og er
með línuspil frá Beiti. Í stefni er góð aðstaða fyrir áhöfn og
salerni er í vélarreisn. Aldan HU 12 er í eigu þeirra
Víkurbræðra Sigurjóns og Árna Guðbjartssona en þeir gera
einnig út hraðfiskibátinn Bjart í Vík.
10.11.2003
Það óhapp vildi til þegar skipverjar á Ólafi Magnússyni HU 54
voru á veiðum í morgun að þeir misstu netatrossu, sem þeir voru
nýbúnir að draga, fyrir borð.
Á sama tíma bakkaði skipið og netin flæktust í skrúfunni. Skipverjar á
Grímsey ST 2 frá Drangsnesi komu til hjálpar og drógu Ólaf að bryggju
á Skagaströnd og komu þeir til hafnar um hádegisbilið.
Blíðskaparveður er á miðunum og lítil hætta á ferðum.
10.11.2003
Togarinn Örvar HU 2 kom til hafnar miðvikudaginn 6.
nóvember sl. Afli togarans var rúm 200 tonn af unnum
afurðum aðallega grálúðu sem veiddist einkum fyrir vestan
land.
05.11.2003
Það skein kæti úr hverju andliti þegar börnin á Leikskólanum
Barnabóli fóru út á leikvöllinn í morgun. Loksins, loksins... var hægt að
taka fram rassaþotur og snjóþotur og fara að renna sér. Einhver hafði
nú reynt að renna sér á hólnum í snjóleysinu fyrr í haust, en ekki gekk
það nú vel. En núna var hann loksins kominn „þessi hvíti og kaldi“ sem
svo margir höfðu beðið eftir, og þá var bara að drífa sig í
snjókarlagerðina. Hann var heldur ekki lengi að rísa, með hatt og staf
og skóna sér við hlið, stendur hann nú svo fínn í garðinum okkar á
Barnabóli. En Adam var ekki lengi í paradís, síðdegis tók sólin að
skína og snjókarlinn tók að bráðna. „ En það kemur kannski meiri snjór
á morgun“ sagði einhver með vonarhreim í röddinni.
03.11.2003
"Eins og hvítt lín kom fyrsti snjórinn.... " um helgina. Það er
fallegt um að litast þegar hvít mjöllin leggst yfir og geislar
sólar glitra í frostinu. Þótt verktakar og starfsmenn
Höfðahrepps hafi unnið að því að hreinsa snjó af götum og
gönguleiðum er rétt er að huga að góðum vetrarútbúnaði bæði
fyrir fólk og farartæki.
29.10.2003
Arnar HU-1 kom til heimahafnar í dag eftir 40 daga slipp í
Póllandi þar sem umtalsverðar endurbætur voru gerðar á
skipinu. Endurbæturnar miða fyrst og fremst að því að auka
sjóhæfni skipsins svo að það standist ýtrustu kröfur
Siglingarmálastofnunar um stöðuleika. Verkið fólst í því að
skutur skipsins var sleginn út og andveltitankur settur fyrir
framan brú þess. Við breytingarnar jókst tankarými fyrir olíu
um fimmtung þannig að ekki er lengur þörf á því að sigla í
land til olíutöku þegar líður tekur á veiðiferð eins og áður
þurfti. Í slippnum í Póllandi var skipið jafnframt sandblásið og
heilmálað. Arnar hreppti leiðinda veður í um sólarhring á
leiðinni heim og er það samdóma álit skipstjórnarmanna að
vel hafi tekist til með breytingarnar, sjóhæfni skipsins hafi
aukist verulega og að það muni örugglega verða betri
vinnustaður en áður með minni veltingi. Verktakinn í Póllandi
skilaði verkinu á skemmri tíma en ráð var fyrir gert og var
tilboð pólska fyrirtækisins aðeins um 32% af upphæð lægsta
tilboðs hér heima. Kristinn Halldórsson hjá Skipasýn H/F í
Reykjavík sá um hönnun og teikningar á endurbótunum
Arnars.
J.K.
24.10.2003
Möguleikhúsið sýndi leikritið Prumpuhól fyrir ungu kynslóðina
á Skagaströnd í morgun. Fékk leikritið góðar viðtökur og lifðu
börnin sig inn í sýninguna. Var bæði grátið og hlegið en allt
endaði vel að lokum. Leikritið fjallar um 9 ára gamla
borgarstelpu sem villtist út í náttúruna og hitti 90 ára gamlan
tröllastrák. Pabbi hans var orðin að steini sem prumpaði
alltof mikið, bæði hátt og lengi af því að hann borðaði of
mikið. Með tröllastráknum og borgarstelpunni tókst einstök
vinátta sem endaði farsællega.
22.10.2003
Undanfarnar 2 vikur hafa sjómenn af Arnari HU1 og Örvari
HU2 setið 36 stunda tölvunámskeið í Höfðaskóla. Þetta
námskeið var sniðið fyrir byrjendur og var farið í grunnþætti í
Windows, Word, Excel og Internetinu. Þótti námskeiðið
takast vel og þátttakendur voru ánægðir með hvernig til
tókst. Þetta námskeið var haldið í samvinnu Farskóla
Norðurlands vestra og Brims. Kennari var Dagný Rósa
Úlfarsdóttir
20.10.2003
Hraðfiskibáturinn Hafgeir HU 21 kom að landi í dag
mánudaginn 20. október með 7,5 tonn af þorski. Hafgeir sem
er 6 brúttótonn var einungis um 12 klst. í róðrinum og fékk
aflann á 15 bala af línu. Aflinn var nær eingöngu boltaþorskur
og sem dæmi má nefna að einungis um 150 kg fór í undirmál.
Eigandi Hafgeirs HU 21 er Sævar R. Hallgrímsson. Ekki fékkst upp
hvar í Húnaflóanum hann hafði lagt línuna þegar þessi afli fékkst.
Línubátar sem gerðir eru út frá Skagaströnd eru nú um 10 og hafa aflað
ágætlega þegar gæftir hafa verið.