Framlengdur umsóknarfrestur vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2007/2008

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að umsóknarfrestur um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2007/2008 skuli framlengdur fyrir neðangreind byggðarlög. Athuga ber að umsóknarfrestur er til og með 1. september 2008, og vakin er athygli á að áður sendar umsóknir gilda áfram. Sveitarfélagið Árborg (Eyrarbakki) Sveitarfélagið Ölfus (Þorlákshöfn) Sveitarfélagið Gerðahreppur (Garður) Snæfellsbær (Rif og Ólafsvík) Grundarfjarðarbær (Grundarfjörður) Stykkishólmsbær (Stykkishólmur) Sveitarfélagið Vesturbyggð (Brjánslækur, Patreksfjörður, Bíldudalur) Tálknafjarðarhreppur Sveitarfélagið Bolungarvík Sveitarfélagið Ísafjarðarðarbær (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdalur, Ísafjörður) Árneshreppur (Norðurfjörður) Kaldrananeshreppur (Drangsnes) Húnaþing vestra (Hvammstangi) Blönduósbær (Blönduós) Sveitarfélagið Höfðahreppur (Skagaströnd) Sveitarfélagið Fjallabyggð (Siglufjörður, Ólafsfjörður) Grímseyjarhreppur (Grímsey) Dalvíkurbyggð (Hauganes og Árskógssandur) Akureyrarbær (Hrísey) Langanesbyggð (Þórshöfn og Bakkafjörður) Borgarfjarðarhreppur (Borgarfjörður eystri) Seyðisfjörður, Fjarðabyggð (Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður) Sveitarfélagið Djúpavogshreppur Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér.

Sundlaug Skagastrandar

ATH. Breyttur opnunartími sundlaugar um Kántrýdaga Föstudag 15.ágúst kl. 13:00 – 19:00 Laugardag 16.ágúst kl. 11:00 – 15:00 Sunnudag 17.ágúst kl. 11:00 – 15:00 Ekki er hleypt ofaní laugina hálftíma fyrir lokun.

Kántrýdagar

Ágætu Skagstrendingar Við gerum okkur dagamun um næstu helgi á fjölskylduhátíðinni Kántrýdögum.   Hátíðin er að verða hefðbundin í dagskrá en auðvitað eru alltaf einhverjar breytingar og vonandi nýmæli.   Skemmtileg nýjung eru listasýningar sem allir eru hvattir til að skoða. Við höfum auðvitað miklar væntingar til að „Buskaranámskeiðið“ lífgi mikið upp á Kántrýdagana.   Núna verður opnað leikhús í Smábæ á Kofavöllum því brúðubíllinn verður með sýningu þar sem hefst kl 18, föstudaginn 15. ágúst. Sýnd verða tvö leikrit. Annað fjallar um fyrstu víkingana sem komu til Íslands. Hitt heitir heitir Pylsusalinn og er um hann Kobba sem ætlar að fá sér pylsu en það gengur heldur brösulega. Sem fyrr er markmið hátíðarinnar fyrst og fremst að skapa góða stemningu í bænum og að við  gerum okkur dagamun á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Það þarf ekki að nefna skreytingar því þær hafa verið svo ótrúlega skemmtilegar og hugmyndaauðgin mikil.   Við væntum þess að allir taki þátt í dagskrá hátíðarinnar og verði í léttu hátíðarskapi.   Tómstunda- og menningarmálanefnd

Lausir og Liðugir-endurkomutónleikar í Kántrýbæ.

Fimmtudaginn 14.ágúst halda Lausir og Liðugir tónleika í Kántrýbæ frá kl.22-01. Liðin eru 10 ár síðan hljómsveitin kom síðast fram. En hana skipa: Birkir Rafn Gíslason, Jón Ólafur Sigurjónsson, Sigurður Berndsen og Þröstur Árnason. Frítt er inn og 100 fyrstu gestirnir fá frían bjór.

Gestir hjá Nes-listamiðstöð í ágúst

Gestir mánaðarins eru Ivetta Gerasimchuk rithöfundur frá Rússlandi, Simon Pope og Sarah Cullen myndlistarmenn frá UK. Íslendingarnir eru Bryndís Petra Bragadóttir leikkona og Erla Haraldsdóttir myndlistarkona, en hún er búsett í Berlín.   Halldór Árni Sveinsson er á leiðinni aftur til Skagagstrandar og mun sýna verk sýn í Kælinum yfir Kántrýdaga.   Magnús Guðlaugsson ljósmyndari kemur aftur síðar í mánuðinum og verður þá væntanlega með sýningu.

Dagskrá Kántrýdaga 15. til 17. ágúst er komin inn á vefinn.

Hægt er að nálgast hana með því að smella á rauða borðann efst á fréttasíðunni. Skagstrendingar ætla að skemmta sér á Kántrýdögum og bjóða þeim sem vilja að slást í hópinn. Dagskráin er afar þétt og áhugaverð. Flest skemmtiatriði verða á hátíðarsviði en víðar verða uppákomur af ýmsu tagi. Nefna má dansleiki sem verða bæði föstudags- og laugardagskvöld í Kántrýbæ. Málverkasýning verður í Kælinum svokallaða í húsi Nes-listamiðstöðvar. Ekki má gleyma því að fjöldi manns verða á buskaranámskeiðum undir leiðsögn hljómlistarmannsins KK. Buskarar munu síðan leika á hljóðfæri sín hér og þar um bæinn rétt eins og háttur þeirra er, en busk er einfaldlega margvísleg listsköpun á almannafæri. Ýmsar uppákomur verða í Café Bjarmanesi, listviðurðir í gamla frystihúsinu, barnadagskrá á hátíðarsviði undir stjórn Sigríðar Beinteinsdóttur og hér hefur aðeins verið stiklað á stóru.

Söngdagar á Húnavöllum um helgina

Söngdagar á Húnavöllum um helgina Tónleikar í Blönduóskirkju klukkan 15 á sunnudaginn Það verður mikið um að vera á Húnavöllum um helgina en þá mun Sólveig Sigríður Einarsdóttir, kannski frekar þekkt sem Sísa á Mosfelli, standa fyrir söngdögum fyrir áhugafólk um söng. Eins og undanfarin ár þá eru miklir fagmenn sem mæta á svæðið til að kenna fjölbreytta og skemmtilega tónlist, má þar nefna Gunnar Þórðarson gítarleikara, Daníel Þorsteinsson píanóleikara, Birgi Bragason kontrabassaleikara, Páll Szabo fagottleikara og söngstjórann Hilmar Örn Agnarsson. Þá mun Haukur Guðlaugsson fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar einnig mæta en hann stóð fyrir sambærilegum söngdögum í mörg ár í Skálholti. Dagskráin hefst snemma á föstudagsmorgun og stendur alla helgina. Herlegheitunum lýkur svo með tónleikum í Blönduóskirkju klukkan 15 á sunnudag þar sem allir geta mætt til að hlusta á afrakstur helgarinnar. Þar munu koma fram, auk kórfólksins, einsöngvararnir Þórhallur Barðason, Halldóra A. Hayden Gestsdóttir og Dagný Pétursdóttir frá Hólabæ. Aðgangseyrir er 1500 krónur en enginn posi á staðnum. Rétt er að koma því á framfæri að enn er hægt að skrá sig á söngdagana, bæði er eitthvað laust af herbergjum á Hótel Húnavöllum og svo er líka pláss fyrir fleiri söngfugla. Áhugasamir geta fengið nánari upplýsingar hjá Hótel Húnavöllum í síma 453-5600 og 898-4685 eða sent tölvupóst til info@hotelhunavellir.is

Karlar lesa - konur bíða

Karlmenn á Skagaströnd sitja um þessar mundir við lestur og að öllum líkindum bíða konur þeirra þolinmóðar eftir því að sú stund renni upp að lestrinum ljúki. Þá er væntanlega betri tíð í vændum enda nefnist bókin „Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama“ og henni hefur verið dreift í hvert hús á Skagaströnd.   Um er að ræða gjöf frá Þorgrími Þráinssyni, rithöfundi, sem dvaldi hér í bænum í júní við ritstörf á vegum Nes-listamiðstöðvar. Svo ánægður var Þorgrímur með dvöl sína, að á upplestrarkvöldi í lok júní sagðist hann ætla að gefa bæjarbúum áðurnefnda bók. Hún kom út um síðustu jól og seldist í stóru upplagi. Og Þorgrímur stóð við loforð sitt og henni var dreift í gærkvöldi.   Eflaust verða einhverjir til að grínast með bókargjöfina, fullyrða líklega margir að henni sé ætlað að bæta úr sárri neyð á Skagaströnd. Hvað sem kann að vera satt í því slíkum staðhæfingum þá hljóta hin hamingjusömu sögulok að verða þau að allir karlar verði nú betur að sér og konur njóti. Annað kemur vart til greina.   Vonandi kemur Þorgrímur aftur til dvalar á Skagaströnd, hann er velkominn og engra launa verður krafist af honum frekar en öðrum dvalargestum. Hins vegar er bókargjöfin óvænt en afskaplega skemmtileg tilbreyting í bæjarbraginn.

200 manns mættu í opið hús

Rúmlega tvöhundruð manns komu á opið hús í Nes-listamiðstöðinni. Listamenn sem dvalið hafa þar í júlí buðu á sunnudaginn gestum og gangandi að líta við og skoða það sem þeir hafa unnið að. Listmennirnir voru afar ánægðir með aðsóknina og ekki síður undirtektir gesta. Skemmst frá að segja tókst þetta gríðarvel, gestir spjölluðu við listamennina og sköpuðust oft skemmtilegar samræður. Mikið líf var í bænum því einnig var fullt út úr dyrum á kaffihúsinu Bjarmanesi og sömuleiðis kom fjöldi fólks í Kántrýbæ. Þessir listamenn tóku þátt í opnu húsi: Marian Bijlenga, myndlistarmaður frá Hollandi Jade Boyd, myndlistarmaður frá Ástralíu Ger Clancy, skúlptúrlistamaður frá Írlandi Wendy Crockett ljósmyndari frá Kaliforníu Guðrún Benónýsdóttir, myndlistarmaður Halldór Árni Sveinsson, málari og kennari Jon Mertz, skúlptúrlistamaður frá Sviss og Magnús V. Guðlaugsson, myndlistarmaður Listamennirnir halda nú hver til síns heima. Þeir biðja fyrir kveðjur til bæjarbúa og þakka fyrir sýndan áhuga á verkum þeirra og frábært viðmót og vinsemd allra í bænum. Öll ætla þau að koma til Skagastrandar aftur - sum jafnvel strax næsta sumar. Og nýr hópur er nú á leiðinni til dvalar í ágúst í Nes-listamiðstöðinni.

24 á námskeiði Nes-listar

Þrefalt fleiri skráðu sig á þriggja daga námskeið sem Halldór Árni Sveinsson, málari og kennari, bauð Skagstrendingum upp á í síðustu viku. Hann hafði reiknað með átta manns en tuttugu og fjórir skráðu sig sem væntanlega er til merkis um mikinn listrænan áhuga í bænum. Fréttin hafði spurst út og fólk kom jafnvel á námskeiðið frá Blönduósi og sveitunum í kring. Halldór hafði hugsað sér námskeiðið sem nokkurs konar þakklætisvott til Skagstrendinga fyrir dvölina í Nes-listamiðstöðinni í júlí. Hér hefur hann dvalið og málað náttúruperlur í nágrenninu og greinilega kunnað ákaflega vel við sig. Halldór verður með sýningu á verkum sýnum í Kælinum í listamiðstöðinni frá 9. ágúst og fram yfir Kántrýdaga sem verða 15. til 17. ágúst. Namskeiðið mæltist afar vel fyrir og vonast aðstendendur Ness að hægt verði að bjóða fleiri námskeið í listsköpun í framtíðinni. Meðfylgjandi mynd tók Árni Geir Ingvarsson.