Miriam Acoustic Group heldur tónleika

Það verður nóg að gera í menningarlífi Húnvetninga og Skagfirðinga í næstu viku því þá mun pólsk/íslenska jazzhljómsveitin Miriam Acoustic Group halda tónleika á flestum þéttbýlisstöðunum. Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði fyrir nokkru styrkjum til menningarverkefna á svæðinu og fékk Kaffihúsið Við árbakkann styrk til að flytja inn þessa hljómsveit. Mun hún spila í grunnskólum og einnig á nokkrum vel völdum stöðum. Á mánudag (1. sept.) verða tónleikar í Félagsheimilinu á Blönduósi kl. 20:30, á þriðjudag eru tónleikar í Kántrýbæ kl. 20:00, á miðvikudag kl. 20:00 njóta gestir kaffi Síróps á Hvammstanga tónleika og lokatónleikarnir verða á Mælifelli á Sauðárkróki kl. 20:00. Gaman er að geta þess að það er frítt á alla tónleikana því auk styrksins frá Mennigarráði hafa nokkur fyrirtæki styrkt verkefnið. Þau eru: Stígandi ehf, SAH afurðir, Samkaup, Vélsmiðja Alla, Léttitækni ehf., Vífilfell, Kjalfell, Sparisjóður Húnaþings og Stranda, KVH Hvammstanga, Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar, Fjölritunarstofan Grettir, Bílaleiga Akureyrar: Höldur, Við árbakkann og Verkfræðistofan Stoð Nú er bara að drífa sig út og njóta góðra tónleika í boði þessara ágætu aðila. Skólatónleikarnir verða sem hér segir: Í Grunnskólanum á Blönduósi mánud. 1. sept. kl. 11, í Húnavallaskóla þriðjud. 2. sept. kl. 10:30 og í Höfðaskóla kl. 14 þann sama dag. Miðvikudaginn 3. sept. verður hljómsveitin í Grunnskóla Húnaþings vestra, Laugarbakka kl. 10:30 og föstudaginn 5. september kl. 10:30 í Árskóla á Sauðárkróki.

Fræknir Frammarar

Nú þegar sumarið er senn á enda er gaman að rifja upp hvað krakkar í Umf. Fram á Skagaströnd hafa haft fyrir stafni í sumar. Starf félagsins byrjað á fótboltanámskeiði undir stjórn Ágústs Inga sem endaði með þátttöku á Smábæjarleikum á Blönduósi.  Eftir fótboltanámskeiðið hófst starf á íþróttavellinum sem   var eins og undanfarin ár í góðu samstarfi við Sveitarfélagið Skagaströnd.  Að þessu sinni voru þátttakendur um 45. Hér var um að ræða sambland af kofasmíði, skólagörðum og almennri hreyfingu m.a. frjálsum íþróttum, undir stjórn Hilmars Sigurjónssonar.  Við hjá Ungmennafélaginu Fram erum eins og alltaf ákaflega stolt af okkar börnum en að þessu sinni erum við sérstaklega ánægð með hvað margir tóku þátt í íþróttamótum í sumar og hversu góður árangur náðist. Umf. Fram lenti í þriðja sæti á héraðsmóti USAH sem haldið var á Blönduósi. Þar unnu til verðlauna Róbert Björn Ingvarsson, Stefán Velemir, Elvar Geir Ágústsson , Guðrún Anna Halldórssdóttir, Sigurbjörg Birta Berndsen, Guðjón Örn Kristjánsson og Laufey Inga Stefánsdóttir.  Á Barnamóti USAH sem haldið var í Húnaveri átti Umf Fram 15 keppendur sem allir stóðu sig með mikilli prýði. Níu þátttakendur frá Umf. Fram tóku þátt á unglingalandsmóti UMFÍ sem nú var haldið í Þorlákshöfn.  Hafa aldrei jafn margir keppendur frá Umf. Fram tekið þátt á þessu stórskemmtilega móti sem er í raun ein stór hátíð fyrir alla fjölskylduna. Að sjálfsögðu var allt okkar fólk til fyrirmyndar og stóð sig allt frábærlega. Krakkarnir kepptu í frjálsum íþróttum og fótbolta. Á landsmótinu vann Stefán Velemir til verðlauna en hann hlaut silfurverðlaun í kúluvarpi. Frændi hans Róbert Björn Ingvarsson varð fjórði í 800m hlaupi. Þristurinn, frjálsíþróttamót þar sem keppa USAH,USVH og UMSS var að þessu sinni haldið að Reykjum í Hrútafirði. Mótið var æsispennandi og baráttan í fyrirrúmi en svo fór að lokum að USAH sigraði m.a. með góðum árangri krakkana frá Skagaströnd.  Frammararnir sem tóku þar þátt voru Róbert Björn Ingvarsson, Sigurbjörg Birta Berndsen, Elvar Geir Ágústsson, Guðrún Anna Halldórssdóttir og Stefán Velemir. Lönduðu þau samtals 7 gullverðlaunum, 4 silfurverðlaunum og einu bronsi. Rúsínan í pylsuendanum var að þeir frændur Stefán Velemir og Róbert Björn Ingvarsson tóku þátt á Meistaramóti Íslands sem haldið var að Laugum í Þingeyjarsýslu nú um miðjan ágúst. Gerðu þeir sér lítið fyrir og hlutu báðir silfurverðlaun í sínum greinum. Róbert í 800m hlaupi en Stefán í kúluvarpi. Eftir þessa upptalningu á afrekum sumarsins er ljóst að við getum öll verið virkilega stolta af unga fólkinu okkar og því mikilvægt að foreldrar haldi áfram að hvetja börnin til þátttöku í íþróttum. Fh. Ungmennafélagsins Fram Halldór Ólafsson, formaður 

Höfðaskóli aftur kominn með heimasíðu

Loksins er heimasíða Höfðaskóla orðin virk á ný. Enn er síðan þó í vinnslu og margt sem á eftir að koma þar inn á næstu dögum og vikum, s.s. bekkjarnámskrár. Einnig er skólinn búinn að koma sér upp myndasíðu sem hægt er að komast inn á með því að smella á tengilinn „myndir úr skólastarfinu“ sem er neðst í valstikunni til vinstri. Er það ósk okkar við skólann að bæjarbúar hafi gagn og gaman af. Slóðin á síðuna er sú sama: http://hofdaskoli.skagastrond.is en einnig er tengill inn á hana hér að ofan.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 27. ágúst 2008 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Kjör oddvita og varaoddvita 2. Kosning í nefndir: a) Búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd b) Gróðurverndarnefnd (sbr. tilnefningu BHS) c) Fulltrúa á ársþing SSNV 3. Byggðasamlag um tónlistarskóla a) Fundir stjórnar b) Drög að reglugerð tónlistarskólans c) Fjárhagsáætlun 1.07. - 31.12.2008 4. Samningur um skólamáltíðir 5. Styrktarsjóður EBÍ - umsókn. 6. Erindi MX – klúbbs Skagastrandar 7. Bréf: d) Marian Bijlenga, dags. 8. ágúst e) Kristínar Birnu Guðmundsdóttur, dags. 8. ágúst 2008. f) Eldstoða ehf. dags. 11. júlí 2008. g) Bjarna Ó. Haraldssonar, dags. 17. júní 2008. h) Menntamálaráðherra, dags. 3. júní 2008. i) Heilbrigðiseftirlits, dags. 30. maí 2008. j) Samkórsins Bjarkar, dags. 4. júní 2008. k) Búa Þórs Birgissonar, dags. 10. júní 2008. 8. Fundargerðir a) Hafnarnefndar, 6. júní 2008. b) Fræðslunefndar, 12. júní 2008. c) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 29. júlí 2008. d) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 13. ágúst 2008. e) Stjórnar Norðurár bs. 31. júlí 2008. f) Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún 15. júlí 2008. g) Stjórnar Byggðasamlags um menningar- og atvinnumál 9. Önnur mál

Úrslit á Opna Kaupþingsmótinu á Skagaströnd

Góð mæting var á Kaupþings golfmótinu á laugardag. Þátttakendur voru 40 og léku þeir 18 holur í blíðskapar veðri á golfvellinum á Háagerði. Mótið var jafnframt minningarmót um Karl Berndsen sem lést árið 1995. Hann var mikill áhugamaður um golfíþróttina og vann mikið og gott starf fyrir Golfklúbb Skagastrandar. Helstu úrslit urðu sem hér segir: Kvennaflokkur án forgjafar: 1. Árný L.Árnadóttir Golfkl.Sauðárkróks 91 högg. 2. Dagný M.Sigmarsdóttir Golfkl.Skagastrandar 101 högg. 3. Ingibjörg Ó.Guðjónsdóttir Golfkl.Sauðárkróks 103 högg. Karlaflokkur án forgjafar: 1. Bergur R.Björnsson Golfkl.Ólafsfjarðar 69 högg. 2. Fylkir Þ.Guðmundssson Golfkl.Ólafsfjarðar 80 högg. 3. Rafn Ingi Rafnsson Golfkl.Sauðárkróks 83 högg. Punktakeppni: 1. Bergur R. Björnsson Golfkl.Ólafsfjarðar 42 punktar. 2. Adolf H. Berndsen Golfkl.Skagastrandar 37 punktar. 3. Dagný M. Sigmarsdóttir Golfkl.Skagastrandar 34 punktar. Mótið var einnig þriðja og síðasta mótið í svokallaðri Norðvesturþrennu sem er samstarfs verkefni golfklúbbanna á Blönduósi, Sauðárkrók og Skagaströnd. Keppt var um besta samanlagða árangur í karla og kvennaflokki. Sigurvegari í kvennaflokki var Árný L.Árnadóttir Golfkl.Sauðárkróks en í karlaflokki sigraði Sævar Steingrímsson Golfkl.Akureyrar.

Opna Kaupþings/Minningarmótið um Karl Berndsen

Opna Kaupþings/Minningarmótið um Karl Berndsen fer fram á Háagerðisvelli við Skagaströnd laugardaginn 23. ágúst. Leikinn er höggleikur án forgjafar í karla og kvennaflokki og punktakeppni í einum flokki. Mótsgjald er kr. 3.000 en unglingar 14 ára og yngri kr. 1.500. Skráning er í fullum gangi á netinu á http://www.golf.is/pages/forsida1/motaskra/upplysingarummot/?idegaweb_event_classname=e34b3d46-4509-406f-9616-530b7975fb41&tournament_id=10117. Frétt af www.huni.is

Mjög áhugavert námskeið í upphafi skólastarfs

Námskeið um grenndarfræði, umhverfi og menningu var haldið á vegum Fræðsluskrifstofunnar þann 15. ágúst s.l. í félagsheimilinu á Hvammstanga. Fyrirlesarinn Bragi Guðmundsson, prófessor útskýrð með áhugaverðum dæmum að staðarmenning hvers skólasvæðis leggur skólunum takmarkalítil tækifæri í hendur til að auka fjölbreytni í viðfangsefnum í öllum námsgreinum fyrir alla aldurshópa. Námskeiðið sóttu 60 kennarar grunn- og leikskóla Húnavatnssýslna og grunnskólans á Borðeyri. Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með daginn. Myndir: Þátttakendur og Leiðbeinandi.

Ari H.Einarsson fór holu í höggi á Skagaströnd.

Föstudaginn 15.ágúst fór Ari H.Einarsson GÓS holu í höggi á braut 1 á Háagerðisvelli á Skagaströnd. Þetta er í annað skipti sem þetta gerist í sögu Golfklúbbs Skagastrandar, en á síðasta ári fór Frímann Guðbrandsson GSS holu í höggi á braut 7. Ari er því orðinn félagi í Einherjaklúbbnum sem er klúbbur þeirra sem afrekað hafa að fara holu í höggi á golfvöllum landsins. Ari sem varð sjötugur á árinu fékk því sönnun þess að allt er sjötugum fært í þessari skemmtilegu íþrótt.

Soffía Lárusdóttir fær viðurkenningu

„Tómstunda- og menningarmálanefnd Skagastrandar er það mikil ánægja að veita Soffíu S. Lárusdóttur viðurkenningu fyrir að hafa átt frumkvæði að samstöðu meðal íbúa við að gera Skagaströnd skrautlegri og skemmtilegri um Kántrýdaga. Fyrir það ber að þakka.“ Svo segir á viðurkenningarskjali sem Jensína Lýðsdóttir, formaður nefndarinnar, afhenti Soffíu á laugardagskvöldi Kántrýdaga. Við afhendinguna sagði Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, að skreytingar í bænum væru heillandi og afar skemmtilegar. Í byrjun áttu margir það til að skreyta garða sína en það þurfti einhvern til að hvetja menn til dáða, að taka höndum saman og vinna markvisst að skreytingum gatna. Soffía átti þetta frumkvæði. Hún tók upp símann, hringdi í nágranna sína, safnaði þeim saman og fyrir vikið var heil gata skreytt. Þetta barst út og íbúar í öðrum götum ákváðu að skreyta nágrenni sitt. Og nú er bærinn er allur skreyttur, öllum til gleði og ánægju.

Skagaströnd fær listaverk að gjöf

Magnús V. Guðlaugsson ljósmyndari færði fyrir helgi Sveitarfélaginu Skagaströnd listaverk að gjöf. Um er að ræða stóra mynd sem samsett er úr fjölda ljósmynda sem Magnús hefur tekið af görðum í bænum. Listaverkið afhenti Magnús við opnun málverkasýningar Halldórs Árna Sveinssonar í Kælinum í Nes-Listamiðstöðinni við upphaf Kántrýdaga. Adolf H. Berndsen tók við gjöfinni fyrir hönd sveitarfélagsins og færði hann listamönnunum að gjöf bókina Byggðin undir borginni. Þess má geta að Magnús er fæddur á Skagaströnd og ólst þar upp til sextán ára aldurs. Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri, Adolf, Halldór og Magnús og í baksýn hangir listaverk Magnúsar á vegg.