Verðlaun í ljósmyndasamkeppninni

Mynd af lúpínu í kvöldsól á Spákonufellshöfða hefur verið valin besta myndin í ljósmyndasamkeppni sem efnt var til í tilefni formlegrar opnunar á gönguleiðum um Höfðann. Ljósmyndarinn er Ólafur Bernódusson. Önnur verðlaunin er mynd af geldingahnappi í fjörugrjóti sem vex út úr sprungu á steini í fjörunni milli Reiðingsflatar og Sauðskers í Geldinganesi. Ljósmyndarinn er Marian Bijelenga, myndlistamaður frá Hollandi, sem dvelur hér á vegum Nes-listamiðstöðvar. Dómnefndin telur mynd Ólafs vera einstaklega vel heppnaða. Ljósmyndarinn nýtti sér stund og stað, miðnætursólina sem var að því komin að setjast og staðurinn var við lúpínu. Kvöldsólargeislarnir gylla neðri hluta lúpínunnar en á efri hluta hennar verða til margvíslegir mildir litatónar á blómi plöntunnar, allt frá dökkbláum út í ljósbláa og fölrauða. Frá myndinni geislar kvöldstemming og hughrif sem verða til um miðnæturbil í Spákonufellshöfða. Í fyrstu verðlaun var myndavél af gerðinni Pentax Optio E35. Mynd Marian er vel tekin. Hún leggur megináherslu á sjálfan geldingahnappinn og harðúðugt umhverfið. Ótrúlegt að nokkur plnata geti þrifist á þessum slóðum þar sem brimið svarrar og virðist engu eira. Lífið kviknar þó á ólíklegustu stöðum eins og myndin sannar. Önnur verðlaun var bókin „Íslenskur fuglavísir“ eftir Jóhann Óla Hilmarsson, fuglafræðing. Höfundurinn tók allar myndirnar sem eru á fugla- og gróðurskiltunum á Höfðanum og samdi auk þess textann. Bókin hefur verið mjög vinsæl en er hins vegar afar fágæt. Fjölmargar myndir bárust í samkeppninna og eru öllum þeim sem þátt tóku færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt. Dómnefndin átti í raun afar erfitt með eð gera upp á milli fjölda góðra mynda.

Þórdísarganga á Spákonufell á laugardaginn

Spákonuarfur, menningarfélag á Skagaströnd, stendur fyrir gönguferð á Spákonufell á laugardaginn 5. júlí. Lagt verður af stað klukkan 11 frá Golfvellinum og er gangan er til minningar um Þórdísi spákonu sem bjó á 10. öld á bænum Felli og nefnist Þórdísarganga. Fararstjóri í ferðinni er Ólafur Bernódusson, en hann þekki Spákonufell afar vel og ekki síður sögur af Þórdísi. Ólafur hefur um árabil stundað rannsóknir á fjallinu og er sagt að hann geti nú staðfært ýmsa atburði sem gerðust í lífi Þórdísar, bæði sannar og lognar. Hann hefur til dæmis fundið bjargið sem kerlingin henti ofan af Borginni og drap rolluskjátuna sem gert hafði henni gramt í geði í langan tíma. Sagan segir ennfremur frá því að Þórdís hafi gengið daglega upp í Spákonufell og greitt þar lokka sína. Mun Ólafur hafi fundið hárgreiðslustaðinn og gott ef ekki líka einhverja lokka kerlingar. Síðast en ekki síst er hugsanlegt að Ólafur hafi fundið þann stað er Þórdís fól kistuna sem full er af gersemum. Gönguleiðin á fjallið var nýlega stikuð. Gengið er fyrst í stað upp aflíðandi brekkur fyrst í stað en síðan verða þær aðeins brattari. Hverig er leiðin snarbrött. Uppi er stórkostlegt útsýni, sér yfir í Skagafjörð allt í Fljótin. Gangan tekur 3-4 tíma og ekki spillir fyrir að spáð er fínu veðri á laugardaginn. Nauðsynlegt er að vera í góðum skóm helst með stífum sóla. Börn og unglingar geta þó verið í strigaskóm. Munum að oftast er nokkru kaldara uppi á fjalli en niðri á láglendi. Mikilvægt er að hafa með sér nesti. Að lokinni göngu verður boðið upp á veitingar í golfskálanum. Allir sem ganga á fjallið fá viðurkenningu. Þátttökugjald er 1000 kr. Ókeypis er fyrir yngri en 16 ára. Nauðsynlegt er að fólk skrái sig í gönguna og er skráningarsíminn 861 5089.

Ljósmyndasamkeppi

Sveitarfélagið Skagaströnd efnir til ljósmyndasamkeppni í tengslum við formlega opnun gönguleiðar um Spákonufellshöfða. Markmiðið með ljósmyndasamkeppninni er öðrum þræði að hvetja til þess að fólk gefa gaum að náttúru og umhverfi. Hitt skiptir ekki síður máli að fólk taki myndir af umhverfi sínu enda eru fjölmargir miklu betri myndasmiðir en þeir halda. Keppnin er tímabundin en allir sem um Höfðann fara geta tekið þátt. Reglur keppninnar eru þessar. Myndir skulu teknar á tímabilinu 17. júní til og með 30. júní 2008. Skilafrestur á myndum er til 1. júlí 2008. Myndir skal senda á netfang sveitarfélagsins, skagastrond@skagastrond.is eða koma á diski á skrifstofu sveitarfélagsins. Nafn og símanúmer ljósmyndara þarf að koma skýrt fram. Hver þátttakandi getur sent allt að 5 myndir í keppnina. Myndefnið skal vera eftirfarandi: Náttúrulíf á Höfðanum, fuglar, dýr, gróður og landslag. Fólk á ferð um Höfðann, fullorðnir, unglingar eða börn. Veitt verða þrenn verðlaun: Fyrstu verðlaun er starfræn myndavél Önnur og þriðju verðlaun verða veglegar bækur með náttúrulífsmyndum. Dómnefnd velur bestu myndirnar. Umsjónarmaður keppninnar er Sigurður Sigurðarson, markaðsrágjafi sveitarfélagsins.

17. júní á Spákonufellshöfða

Ertu með út á Spákonufellshöfða á morgun klukkan tvö? Þá verður gönguleiðin um Höfðann formlega opnuð en með henni hafa nú verið sett tólf fræðsluskilti. Á þjóðhátíðardaginn er tilvalið að njóta útiverunnar, taka þátt í ratleiknum og jafnvel munda myndavélina í ljósmyndasamkeppninni. Dagskráin hefst við bílastæðið uppi á Höfðanum. Þar verður sagt frá gönguleiðinni og fræðsluskiltunum. Og þeim sem vilja ganga um Höfðann gefst þarna kostur á að taka þátt í skemmtilegum ratleik og ljósmyndasamkeppni. Auðvitað verður skotið úr fallbyssunni til að leggja áherslu á að gönguleiðin hafi nú formlega verið opnuð. Er svo ekki við hæfi að ganga með íslenska fánann í tilefni dagsins? Sveitarfélagið Skagaströnd hefur gefið út bækling um Spákonufellshöfða. Í honum er ýmiskonar fróðleikur um Skagaströnd, Höfðann, gróðurfar hans, jarðfræði og fuglalíf. Aftast er svo gott kort af gönguleiðinni.

Framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands ses

Framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands ses. á Blönduósi Textílsetur Íslands óskar eftir að ráða framkvæmdastjóra til starfa. Gert er ráð fyrir að viðkomandi verði með aðsetur á Blönduósi. Helstu verkefni og skyldur: • Annast daglegan rekstur • Mótun stefnu og starfstilhögunar • Mótun og framkvæmd markmiða í samvinnu við stjórn og fagaðila • Fjáröflun • Gerð fjárhagsáætlunar • Umsjón með ráðstefnum, námskeiðum ofl. • Önnur þau verkefni sem stjórn felur framkvæmdastjóra Kröfur um menntun og reynslu: • Háskólamenntun eða sambærileg menntun • Góð íslensku- og enskukunnátta • Góð tölvukunnátta • Hæfni í mannlegum samskiptum • Frumkvæði og metnaður í starfi Skriflegar umsóknir, sem tilgreina m.a. menntun og fyrri störf, skulu sendar á skrifstofu Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, 540 Blönduósi, og merktar „Framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands“. Umsóknir skulu jafnframt sendar rafrænt á arnar@blonduos.is Umsóknarfrestur er til 4. júlí n.k. Nánari upplýsingar um starfið veitir Arnar Þór Sævarsson, Netfang: arnar@blonduos.is

Byggðastofnun úthlutar styrkjum vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar

Fjögur verkefni á Skagaströnd fengu styrk Byggðastofnun hefur gengið frá styrkveitingum og hlutafjárframlögum vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar 2008 og 2009. Við mat á umsóknum var einkum tekið tillit til hlutfalls starfa í veiðum og vinnslu á viðkomandi svæði, nýsköpunargildis, gæða og mögulegs árangurs verkefna auk fjölda starfa sem þeim er ætlað að skapa. Fjögur verkefni á Skagaströnd fengu styrki að þessu sinni. BioPol ehf. hlaut 4,4 milljónir til vöruþróunar kollagers/gelatíns, Vélaverkstæði Skagastrandar ehf. hlaut 3,0 milljónir til markaðssetningar og vöruþróunar á vettlinga- og stígvélaþurrkarar, Listamiðstöðin Nes hlaut 1,3 milljónir til uppbyggingar alþjóðlegrar listamiðstöðvar á Skagaströnd og Fiskverkunin Dropi ehf. hlaut 1,365 milljónir til markaðssetningar á sjóstangaveiði. Alls voru 200 milljónir til úthlutunar, 100 milljónir fyrir hvort ár og alls bárust 253 umsóknir samtals að fjárhæð 1.528 milljón króna. Alls hlutu 69 verkefni styrk að þessu sinni en auk þess eru nokkrar umsóknir enn til skoðunar. Heimild: huni.is

Sjómannadagurinn á Skagaströnd

Á laugardaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur eins og fyrri ár með skemmtilegri dagskrá. Björgunarsveitin sem annast hátíðarhöldin ákvað að sleppa frægum skemmtikröftum að sunnan í þetta skiptið og endurvekja frekar gamla stemningu. Því verður mikið úrval af leikjum á plani sem almenningur tekur þátt í. Kaffisalan verður í félagsheimilinu Fellsborg í stað Höfðaskóla. Kaffisalan skiptir miklu máli í fjáröflun Björgunarsveitarinnar á sjómannadaginn og því vonast bjögunarsveitarmenn eftir góðri aðsókn í kaffið og meðlætið Dagskrá sjómannadagsins er ekki síst skemmtileg þegar við tökum sjálf þátt í atriðum. Þeir sem undirbúa dagskráratriði vonast því eftir að félagsmönnum vel tekið í leit þeirra að fólki í leiki og dagskráratriði. Dagskrá: Kl. 10:30 Skrúðganga frá höfninni til kirkju. Fjölmennum í skrúðgönguna til að halda við skemmtilegri hefð og gefa sjómannadeginum hátíðlegan blæ. Kl. 11:00 Sjómannamessa í Hólaneskirkju. Kór sjómanna syngur við athöfnina. Að messu lokinni verður lagður blómakrans við minnismerki týndra sjómanna til að heiðra minningu þeirra. Kl. 13:15 Skemmtisigling. Foreldrar hvattir til þess að fjölmenna með börn sín. Kl. 14:00 Skemmtun á hafnarhúsplani. Kappróður – leikir Kl. 15:30 Kaffisala í Fellsborg Leikir fyrir krakkana á fótboltavelli Kl. 23:00 Stórdansleikur í Fellsborg. Hljómsveitin Bermuda leikur fyrir dansi ATH Því frábæra fólki sem tóku að sér að baka fyrir kaffisöluna er bent á að skila bakkelsi í félagsheimilið kl. 12:00 á laugardag. Góða skemmtun Björgunarsveitin Strönd

LOGOS-Lestrargreining

Umsjónarmenn sérkennslu grunnskólanna í Húnavatnssýslum og sérkennari Grunnskólans á Borðeyri eru um þessar mundir að læra að nota nýtt greiningartæki í lestri. Greiningartækið heitir LOGOS og er eftir Torleiv Høien einn þekktasta og virtasta sérfræðing á þessu sviði. Fyrri dagur námskeiðsins var haldinn 14. þ.m. á Laugarbakka farið yfir hugmyndir að baki prófinu og kennurunum kennt að leggja prófið fyrir. Nú þurfa kennararnir að æfa fyrirlögn og mæta síðan á seinni dag námskeiðsins í haust þar sem farið verður yfir túlkanir á niðurstöðum greininga. Mynd: nemendur og leiðbeinendur

Kynningarfundur

Spákonuhof og Nes-listamiðstöð boða til sameiginlegs kynningarfundar þriðjudaginn 13. maí kl. 19:30 í Fellsborg. Allir eru velkomnir. Nes-listamiðstöð Listamiðstöðin rekur gestavinnustofur fyrir innlenda og erlenda listamenn, stuðlar að skapandi andrúmslofti, sýningarhaldi og kennslu í listum. Nú þegar eru nær því öll pláss fullbókuð til áramóta og fjölmargar pantanir komnar langt fram á næsta ár. Spákonuhof Verið er að byggja upp Spákonuhof á Skagaströnd. Í starfseminni verður lögð áhersla á eftirfarandi: · Sápdómshof · Þórdísarstofu · Þórdísargöngur · Rannsókna- og fræðasetur · Spáráðstefnu · Spádómshátíð Sigurður Sigurðarson markaðsráðgjafi, Skagastrandar

Styrktartónleikar fyrir Jón Gunnar og fjölskyldu

Fimmtudaginn 15. maí n.k. verða haldnir styrktartónleikar í Hólaneskirkju á Skagaströnd til styrktar Jóni Gunnari Einarssyni og fjölskyldu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og er aðgangseyrir 1.500 krónur. Fram koma ýmsir tónlistarmenn sem allir gefa vinnu sína og munu allir peningar sem inn koma renna óskiptir til fjölskyldunnar. Þeir sem ekki komast á tónleikana en vilja styrkja Jón Gunnar og fjölskyldu er bent á söfnunarreikninginn 0160-26-61400, kt: 290483-3799. Eins og flestum er kunnugt slasaðist Jóns Gunnars Einarssonar mjög alvarlega á mótorhjóli þann 12. apríl sl. Jón Gunnar og eiginkona hans Guðrún eiga tvö ung börn og þriðja barnið er á leiðinni. Vonast fjölskyldan og vinir að sem flestir taki höndum saman og leggi þeim lið til að styrkja og styðja Jón og fjölskyldu hans í þessari baráttu. Jón Gunnar er nú á bata vegi og fer að fara á Grensás í endurhæfingu en verður lengi frá vinnu.