Busker námskeið á Kántrýdögum

Á Kántrýdögum á Skagaströnd 15. til 17. ágúst  verður haldið svokallað „busker“ námskeið. Aðaleiðbeinandi verður tónlistamaðurinn KK sem hefur langa reynslu af „buski“. Þátttakendum gefst svo kostur á að reyna sig við busk á Skagaströnd og jafnvel koma fram á sviði á samt KK og fleiri buskurum. „Busk“ er aldagömul aðferð listamanna til að hafa í sig og á. Þetta er aldagömul listgrein og hluti af menningu margra stórborga. Þó ekki sé mikið um busk hér á landi hafa áreiðanlega flestir þeir sem til útlanda komið orðið vitni af einhvers konar buski. Buskarar koma fram á götum og torgum, eru með alls kyns uppistand, þeir spila, syngja, leika leikrit, þykjast vera styttur, dansa, halda boltum á lofti og svo framvegis og vegfarendur launa þeim framtaki með peningagjöfum. Greinagóða lýsingu á buski má finna á Wikipedia. Til þess að kynna buskið hafa aðstandendur fengið tónlistarmanninn KK til liðs við sig. Hann stundaði busk lengi erlendis, meðal annars í Svíþjóð þar sem hann bjó um þrettán ára skeið. Hann hefur fengið sér til halds og traust einn þekktasta busker í Evrópu, Leo Gillespie. Sá hefur víða farið, m.a. komið nokkrum sinnum hingað til lands, spilar á gítar og syngur rámri viskírödd lög eftir sjálfan sig og aðra (sjá http://www.leogillespie.com). Þá mun æskuvinur og meðspilari KK til margra ára Þorleifur Guðjónsson, bassaleikari, einnig leiðbeina á námskeiðinu. Námskeiðið stendur yfir frá fimmtudeginum 14. ágúst til laugardagsins 16. ágúst og er dagskrá sem hér segir: DAGS.                                   TÍMI Fimmtudagur 14. ágúst          kl. 20:00-22:00 Föstudagur 15. ágúst             kl. 17:00-19:00 Laugardagur 16. ágúst           kl. 14:00-16:00 Ef þátttakendur verða mjög margir gæti þurft að skipta hópnum upp og gætu þá tímasetningar breyst að einhverju leyti.   Námskeiðið endar með uppskeruhátíð þar sem þeir KK og Leo Gillespie koma saman ásamt þeim sem sótt hafa námsskeiðið. Einnig verða settar upp busk stöðvar víða um bæinn þar sem þátttakendum er frjálst að spreyta sig ýmist einir eða í hópum. Tekið skal fram að það eru ekki sett nein mörk við hvaða hljóðfæri fólk notast við og eru allir tónlistaráhugamenn hvattir til að vera með.  Skráning er hafin á skagastrond@gmail.com og í síma 868-4925, einnig má fá nánari upplýsingar á þessu netfangi og símanúmeri. Þátttökugjald er 5000 kr. og skal greiða gjaldið við skráningu inná reikning 0160-05-61303 kt.150672-5389. Fylgist með á www.skagastrond.is en þar munu verða settar fréttir fram að námskeiði.  Bakhjarlar verkefnisins ásamt Menningarsjóði Skagastrandar eru: Menningarráð noðurlands vestra og Tónastöðin, Skipholti 50d,  Reykjavík

Opið hús hjá Nes-listamiðstöð á sunnudaginn

Þeir listamenn sem dvalið hafa í júlí hjá Nes-listamiðstöðinn verða með opið hús sunnudaginn 27. júlí frá kl. 14 til 18. Þeir opna vinnustofur sínar og bjóða öllum að koma og skoða afrakstur mánaðarins, segja frá verkum sínum og svara spurningum gesta. Hér er kærkomið tækifæri til að hitta þetta ágæta fólk og sjá hvernig það stendur að listsköpun sinni.   Listamenn Ness í júlí eru þessir: Marian Bijlenga, myndlistarmaður frá Hollandi Jade Boyd, myndlistarmaður frá Ástralíu Ger Clancy, skúlptúrlistamaður frá Írlandi Wendy Crockett ljósmyndari frá Kaliforníu Guðrún Benónýsdóttir, myndlistarmaður Halldór Árni Sveinsson, málari og kennari Jon Mertz, skúlptúrlistamaður frá Sviss

Námskeið í málun

Halldór Árni Sveinsson sem dvelur nú í júlí hjá Nes-listamiðstöð á Skagaströnd stendur fyrir almennu námskeiðið í málun. Það verður haldið hjá Nes-list að Fjörubraut og mun standa yfir í þrjá daga, frá þriðjudeginum 22. til 24. júlí frá kl. 19.30 - 22.30. Þátttakendur fá leiðsögn í olímálun, vatnslitamálun og/eða meðferð pastel- eða olíukrítar. Námskeiðið er bæði ætlað byrjendum sem og þeim sem lengra eru komnir. Æskilegt er að þátttakendur taki með sér það sem þeir eiga af litum og lérefti en slíkt verður einnig hægt að kaupa á staðnum gegn vægu gjaldi. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Halldór Árni Sveinsson myndlistamaður og kennari. Hann er menntaður auglýsingateiknari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hefur víða kennt málun og listgreinar m.a. í Námsflokkum Hafnarfjarðar sl. 20 ár. Halldór hefur haldið nokkar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Verk hans eru í eigu fjölda fyrirtækja, stofnana og einstaklinga. Námskeiðið - sem er ókeypis - er hugsað sem lítill þakklætisvottur fyrir frábærar móttökur heimamanna hér á Skagaströnd. Þar sem takmarka verður þátttöku á námskeiðinu við 8 manns er nauðsynlegt að tilkynna þátttöku til Halldórs í síma 8565857, sem mun einnig veita allar frekari upplýsingar.

KK og Maggi Eiríks í Kántrýbæ

Stórviðburður verður á fimmtudagskvöldið í Kántrýbæ. KK og Maggi Eiríks munu þá troða upp á tónleikaferð sinni um landið. Þeim verður áreiðanlega vel fagnað á Skagaströnd og varla við öðru að búast en húsfyllir verði. Þeir félagar hafa átt mikilli velgengni að fagna undanfarin ár. Plötur þeirra hafa selst vel og þeir notið vinsælda á tónleikum. Þeir eru vísir til að taka marga vinsæla slagara og trúlega verður hraustlega tekið undir Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og til að gleðja gesti sína er Kángtrýbær með sérstakt tónleikatilboð á stórum bjór, 500 kall.

Verðlaun í ljósmyndasamkeppni afhent

Verðlaunin fyrir ljósmyndasamkeppnina sem efnt var til vegna opnunar gönguleið á Spákonufellshöfða voru afhent í litlu kaffiboði í gær í Café Bjarmanesi. Ólafur Bernódusson hlaut fyrstu verðlaun og í öðru sæti var Marian Bijlenga, hollenskur listmaður sem dvelur á Skagaströnd á vegum Nes-listamiðstöðvar. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri afhenti þeim verðlaunin. Í máli hans kom meðal annars fram að tæplega fimmtíu myndir hafi borist í keppnina. Flestar komu frá Skagstrendingum en líka frá erlendum listamönnum. Dómnefndinni hafði verið nokkur vandi á höndum en mynd Ólafs af lúpínu í kvöldsól þótti fanga vel kvöldstemmingu við sólsetur. Rauðir geislar sólarinnar mörkuðu fallega útlínur plöntunnar. Mynd Marian af geldingahnappi þótti nokkuð sérstök. Hún er tekin í fjöru og umhverfið allt er mjög harðneskjulegt og erfitt fyrir plöntur. Fyrstu verðlaun var lítil stafræn myndavél af Pentax gerð og önnur verðlaunin var bókin Fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson. Að vísu er bókin á íslensku en Marian kvaðst án efa geta notið myndanna og ef til vill yrði bókin til þess að hún lærði eitthvað í íslensku.

Þórdísarganga á Spákonufell

„Þetta var frábær ferð, sextíu og fjórir gengu á fjallið. Fólk á öllum aldri, nærri sjötíu ára aldursmunur var á elsta og yngsta þátttakandanum,“ segir Ólafur Bernódusson, fararstjóri í ferðinni. Um klukkutíma fyrir göngu sást Spákonufell ekki fyrir þoku. Skyndilega og eins og hendi væri veifað leystist þokan upp og sól skein í heiði. Enginn sá eftir að hafa tekið þátt. Hiti var mikill í fjallinu, glampandi sól og logn allan tímann. "Við gengum nú rólega á fjallið, tókum okkur tvo og hálfan tíma í ferðina upp,“ sagði Ólafur. „Enginn var að flýta sér og teknar góðar hvíldir, sagðar sögur sem tengdust Þórdísi spákonu og jafnvel reynt að ná sambandi við álfa. Við höfðu þá góðu reglu að láta sannleikann ekki spilla góðri sögu“ bætti Ólafur við og glotti. Í ferðinni var göngufólk víða að af Norðurlandi vestra og einhverjir töluðu erlend tungumál. Að göngu lokinni var boðið upp á veitingar í golfskálanum, kaffi, kakó, vöfflur og kleinur. Allir þátttakendur fengu svo afhenta spádómsvölu sem minjagrip um gönguna frá Spákonuarfi. Næsta Þórdísarganga á Spákonufell verður laugardaginn 16. ágúst, þ.e. á Kántrýdögum. Sagt er að allar spár bendi til að veðrið þann dag verði ekki síðra en í fyrstu Þórdísargöngunni.

Karnival í leikskólanum

Það var hvort tveggja yndislegt og skemmtilegt að mæta leikskólanum á karnival-göngu sinni um bæinn síðasta fimmtudag. Hópurinn var klæddur í ýmis konar furðubúninga, börn ekki síður en fullorðnir og sumir voru meira að segja málaðir. Ekki spillti nú veðrið fyrir, sól skein í heiði og vindurinn var nokkurn veginn kyrrstæður. Hópurinn lék við hvern sinn fingur, söng og trallaði. Þetta var aldeilis tilbreyting í bæjarlífinu. Jafnvel rykugir skrifstofuþrælar örkuðu út í glugga og sagt er að gamalt bros hafi kviknað í ólíklegustu andlitum. Aðrir gengu út og samfögnuðu liðinu úr leikskólanum. Að flestra áliti mættu fleiri taka leikskólann sér til fyrirmyndar og spauga á þennan eða álíka hátt.

Nýir listamenn komnir á Skagaströnd

Nýjir gestir eru komnir til Skagastrandar á vegum Nes-listamiðstöðvar. Listamennirnir koma hinga víða að og verða allan júlímánuð hér og sinna listiðkun sinni. · Marian Bijlenga er textíllistakona og kemur ásamt maka sínum frá Hollandi. · Wendy Crockett er ljósmyndari frá Kaliforníu. · Jade Boyd er vídeólistamaður og kemur alla leið frá Ástralíu. · Ger Glancy er írskur skúlptúrlistamaður · Jon Mertz er frá Sviss og er skúlptúrlistamaður og kona hans er Katya og er rússnesk. · Halldór Á. Sveinsson er málari og myndlistakennari. · Guðrún Benónýsdóttir er er myndlistakona Fólkið býr á Mánabraut 1 og 11 og Túnbraut 5 og hefur vinnuaðstöðu í gamla fiskvinnsluhúsinu við Fjörubraut.

KK og Maggi Eiríks.

Fimmtudaginn 10. júlí nk. verða KK og Maggi Eiríks með tónleika í Kántýbæ. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21:00. Tónleikarnir verða kynntir nánar síðar. Allir velkomnir

Verðlaun í ratleik á Spákonufellshöfða

Dregið hefur verið úr réttum svörum í ratleiknum sem efnt var til er gönguleiðirnar á Spákonufellshöfða voru formlega opnaðar. Tvær ungar dömur skrifuðu sig á sama svarblaðið. Þær heita Ásdís Birta Árnadóttir og Aldís Embla Björnsdóttir, báðar eru þær 11 ára. Þær fá í verðlaun bókina „Íslenskur fuglavísir“ eftir Jóhann Óla Hilmarsson, fuglafræðing. Höfundurinn tók allar myndirnar sem eru á fugla- og gróðurskiltunum á Höfðanum og samdi auk þess textann. Bókin hefur verið mjög vinsæl en er nú hins vegar orðin afar fágæt. Vonandi verður bókin til þess að hinir ungu vinningshafar fái áhuga á fuglum landsins og hún verði þeim til gleði og ánægju um ókomna tíð. Þátttaka í ratleiknum var mjög góð og bárust fimmtíu og sjö svarblöð. Sveitarfélagið Skagaströnd þakkar öllum fyrir þátttökuna.